fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Fréttir

Segir bikblæðingar ekki réttlætanlegar og Vegagerðina ábyrga – Ákveðnir vegir hreinlega hættulegir

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 16. júlí 2024 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Marinó G. Njálsson, ráðgjafi og sérfræðingur í áhættustjórnun, öryggismálum og persónuvernd, segir að bikblæðingarnar ættu ekki að eiga sér stað. Það sé Vegagerðinni að kenna að blæðingarnar eigi sér stað, þar sem stofnunin samþykkir það verklag sem er orsök blæðinganna.  Skorar hann á stofnunina að breyta verklagi.

„Vegagerðin varpar hins vegar frá sér allri ábyrgð og segir allt í lukkunarvelstandi,“ 

 segir Marinó í færslu í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar. 

Segir hann marga í hópnum hafa réttilega kvartað undan ástandi þjóðveganna sem virðast ekki bera þá umferð, sérstaklega þungaumferð, sem um þá fer.  Vegkantar séu víða brotnir, blæðingar full algengar og yfirborð allt of oft ójafnt.  

Í gær safnaðist hópur bifhjólamanna saman á Korputorgi til að mótmæla slæmum skilyrðum fyrir akstur þeirra á vegum landsins. Hópurinn krefst þess einnig að einhver axli ábyrgð á mistökum við vegagerð sem leiddu til banaslyss tveggja bifhjólamanna á Kjalarnesi árið 2020. Atli Már Jóhannsson, einn skipuleggjandi mótmælanna, sagði í gær við Vísi ástæðan fyrir því að hjón féllu af hjóli sínu og létust á veginum hafi verið sú  að nýlagt malbik á veginum hafi engan veginn verið í lagi, miklar bikblæðingar hafi verið í gangi. 

„Í þessu tilfelli eru það fjórir aðilar. Vegagerðin, sem er veghaldarinn, Malbikunarstöðin [Höfði], þeir sem lögðu þetta út og kannski eftirlitsaðilinn líka, sem stimplar upp á að þetta sé allt saman í lagi,“ segir Ólafur Kr. Guðmundsson umferðarsérfræðingur aðspurður um hverjir eigi að bera ábyrgð á málinu.

Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa um banaslysið segir um orsakagreiningu slyssins:

• Umferð var heimiluð þó grunur væri uppi um að nýlagt malbik uppfyllti ekki kröfur um vegviðnám
• Nýlagt malbik stóðst ekki gæðakröfur verkkaupa og var of hált sökum bikblæðinga
• Útboðskröfur voru ekki uppfylltar við framkvæmdirnar
• Ökumaður bifhjóls missti stjórn á því á hálu vegyfirborðinu svo bifhjólið féll á hliðina og rann yfir á öfugan vegarhelming í veg fyrir húsbifreið

Betra að hugsa í lausnum í stað réttlætinga

Færsla Marinós beinist ekki að ofangreindu banaslysi einu og sér heldur almennt að ástandi vegakerfis landsins. Marinó rekur í færslu sinni að sem leiðsögumaður hafi hann ekið víða með farþega um SV-hornið.  „Eru margir þjóðvegir nánast ekki boðlegir vegna þess hve þröngir þeir eru, holóttir, blæðandi eða mishæðóttir, þannig að sé bílstjóri ekki því kunnugri vegunum, þá er mikil hætta á því að bílar á leyfilegum umferðarhraða hoppi fram af mishæðunum og reki ýmist framenda eða afturenda (nema það séu báðir) niður í malbik með tilheyrandi tjóni.  Allt of algengt er að ekki sé varað við þessum óvænta hæðarmun eða umferðahraði dreginn niður miðað við gæði vegsins.“ 

Marinó segir að umferð stórra ökutækja um þessa vegi sé eitthvað sem eigi ekki að koma Vegagerðinni á óvart.  „Það er heldur ekki ný tíðindi fyrir Vegagerðina að fjölmargir þjóðvegir eru í slæmu ástandi.  Mér finnst oft útsjónarsemi fulltrúa Vegagerðarinnar í að bera blak af stofnuninni vera aðdáunarverð, en betra væri að hugsað væri í lausnum í stað réttlætinga,“ segir Marinó og heldur áfram: 

„Líklega er á fáum stöðum á Íslandi eins mikil þungaumferð og um Klettagarða, Sundagarða og Vatnagarða í Reykjavík.  Á góðum degi aka þar um margir stórir bílar með þunga gáma og rútur á hverri mínútu.  Þessar götu eru hins vegar að jafnaði í mjög góðu ástandi.  Vegagerðin getur því ekki borið fyrir sig að ekki sé hægt að gera vegi fyrir þungaumferð.  Hvers vegna er þá ekki hægt að gera þjóðvegi þannig úr garði, að það sé ekki stórhættulegt fyrir stóra bíla að aka eftir þeim?“

Sumir vegir hreinlega hættulegir

Marinó segir suma vegi hreinlega hættulega.

„Vegir á Mýrunum, Snæfellsnesi, Biskupstungum, Mosfellsheiði og milli Laugarvatns og Gullfoss eru hreinlega hættulegir.  Stærsta stökkbrettið er rétt hjá Búðum, þar sem óvæntur hæðarmunur er örugglega meira en einn metri.  Mýrarnar eru eins og síendurtekið 5 km hindrunarhlaup.  Vegurinn vestan við Gullfoss er frekar skyldur við hjólabrettagarð en þjóðveg.  Vandamálið á öllum þessum vegum virðist vera að undirlagið er ekki nógu vel unnið.  Ekki hefur verið farið alls staðar niður á frostfrítt undirlag og því vegirnir álíka sléttir og hlaupaleiðin um Laugaveginn.

Ég átta mig á, að ekki er hægt að laga allt þetta á stuttum tíma, en hættið að gera ráð fyrir að allir bílstjórar þekki alla vegi.  Dragið niður umferðarhraða, setjið upp viðvörunarskilti. 

Já, og varðandi blæðingarnar.  Þær eiga ekki að eiga sér stað.  Einfalt mál.  Jú, það er Vegagerðinni að kenna að blæðingarnar eiga sér stað, vegna þess að stofnunin samþykkir það verklag sem er orsök blæðinganna.  Það er ekki umferð eða hitabreytingar sem eru orsök blæðinganna, heldur að notað er efni og vinnsluaðferðir sem valda blæðingum í mikilli umferð og hitabreytingum.  Hættið að réttlæta hlutina og ber blak af ykkur.  Breytið verklaginu og það strax.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ákæran í stóra fíkniefnamálinu: Afi og amma geymdu efnin heima hjá sér og seðlabúnt voru flutt á bifreiðaverkstæði í Auðbrekku

Ákæran í stóra fíkniefnamálinu: Afi og amma geymdu efnin heima hjá sér og seðlabúnt voru flutt á bifreiðaverkstæði í Auðbrekku
Fréttir
Í gær

Hafa borið kennsl á líkin í ferðatöskunum – 34 ára gamall maður ákærður fyrir ódæðið

Hafa borið kennsl á líkin í ferðatöskunum – 34 ára gamall maður ákærður fyrir ódæðið