Öldungadeildarþingmaðurinn J.D. Vance, sem situr á þingi fyrir Ohio-ríki. verður varaforsetaefni Donalds Trump, forsetaframbjóðanda Repúblíkanaflokksins, í forsetakosningum í Bandaríkjunum í haust.
Trump greindi frá ákvörðun sinni á samfélagsmiðlinum Truth Social nú fyrir stundu en landsþing Repúblíkanaflokksins hófst í dag.
Vance er 39 ára gamall og var harður gagnrýnandi Trumps í forsetaframboði hans árið 2016. Fjórum árum seinna hafði hann hins vegar breytt um kúrs og studdi Trump með ráðum og dáð. Hann var fyrst kjörinn á þing árið 2022, eftir að Trump hafði lýst yfir stuðningi við hann.
Vance er með gráðu í lögfræði frá Yale-háskóla en fór þaðan út í viðskiptalífið þar sem hann efnaðist á fjárfestingum. Þá er hann er einnig metsölurithöfundur. Hann skrifaði endurminningabókin Hillbilly Elegy sem endaði sem Netflix-mynd í leikstjórn Ron Howard.
Ákvörðun Trumps virðist við fyrstu sýn nokkuð klók en hann treystir á að Vance muni afla fylgis í Miðvesturríkjum eins og Pennsylvania, Michigan og Wisconsin þar sem búist er við að mjótt verði á mununum.
Vance er giftur en hann og eiginkona hans, Usha Chilukuri Vance, gengu í það heilaga árið 2014. Þau kynntust á háskólaárum sínum og eiga þrjú börn saman.