Kristín Thoroddsen, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, segist ekki geta stutt Coda Terminal verkefnið eins og það lýtur út í dag. Þar með gæti meirihlutinn í bæjarstjórn ekki komið málinu í gegn nema með aðstoð minnihlutans.
DV greindi frá því að ólga væri á meðal íbúa í Vallahverfinu í suðurhluta Hafnarfjarðar vegna fyrirhugaðrar niðurdælingar koldíoxíðs sunnan við hverfið. Coda Terminal er í eigu Carbfix, fyrirtækis sem fangar koldíoxíð úr andrúmsloftinu. Fyrirtækið skrifaði undir viljayfirlýsingu við Hafnarfjarðarbæ og Rio Tinto árið 2022.
Efnið á ekki aðeins að koma frá Íslandi heldur yrði meirihluta þess siglt hingað frá útlöndum í sérsmíðuðum tankskipum. Stækka þyrfti höfnina í Straumsvík til þess að geta tekið á móti skipunum.
Margir íbúar eru óttaslegnir við að koldíoxíðinu yrði dælt niður svo nálægt byggð en stefnt er að því að reisa tíu borteiga. Dæla þarf grunnvatni upp í staðinn fyrir koldíoxíðið og því getur vatnsbúskapurinn raskast í jörðinni sem og hugsanlega spenna og burðarþol jarðvegsins.
„Svona verkefni hefur aldrei verið framkvæmt af þessari stærðargráðu í heiminum, hvað þá í tilraunaskyni svona nálægt íbúabyggð,“ segir í tilkynningu hóps íbúa sem mótmælir þessum fyrirhuguðu framkvæmdum.
Kristín lýsti því yfir um helgina á samfélagsmiðlum að henni litist ekki á verkefnið eins og það lítur út í dag.
„Það hefur ekki farið fram hjá neinum umræðan um Carbfix og hugmyndir fyrirtækisins um niðurdælingu í landi Hafnarfjarðar,“ segir Kristín. „Ég ákvað sem bæjarfulltrúi að mæta til leiks með opinn huga og studdi að skoða alla þætti málsins. Íbúar hafa jafnframt haft tækifæri að kynna sér málið og komið skoðunum sínum vel á framfæri og lýst yfir áhyggjum.“
Segist Kristín taka undir ýmislegt sem komi þar fram.
„Af þeim gögnum sem nú liggja fyrir hef ég efasemdir um að hagsmunir Hafnarfjarðar fari saman við fyrirætlanir fyrirtækisins og á því erfitt með að styðja verkefnið eins og það lítur út í dag,“ segir Kristín.
Tekur hún það fram að hún hafi ekkert á móti fyrirtækinu Carbfix. Hún trúi á tæknina sem liggi að baki verkefninu og dáist að hugvitinu. Hún ítrekar einnig að þó að bæjarstjórn hafi skrifað undir viljayfirlýsingu þá hafi bæjarstjórn ekki tekið afstöðu í málinu. Viljayfirlýsingin þýði að vilji standi til að verkefnið yrði skoðað og það hafi hún stutt.
Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur eru með 6 af 11 fulltrúum í bæjarstjórn. Ljóst er því að bæjarstjórn þyrfti aðkomu minnihlutans til þess að koma málinu í gegn eins og staðan er núna.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri hefur sagt að hún skilji áhyggjur íbúa og að verkefnið verði ekki keyrt í gegn í mikilli andstöðu við íbúa. Málið verði skoðað til hlýtar.
Áður en andstaða íbúa kom fram hafði Hafnarfjarðarbær skoðað 9 milljarða króna lántöku fyrir stækkun hafnarinnar í Straumsvík. Nú hefur það verið slegið út af borðinu. Coda Terminal verði í staðinn að fá fjárfesta að borðinu til að stækka höfnina.
Jón Ingi Hákonarson, fulltrúi Viðreisnar í minnihluta bæjarstjórnar, hyggst leggja fram tillögu um íbúakosningu um framkvæmdina. Hana megi ekki gera í andstöðu við vilja íbúa.