Verið er að mála yfir hina þekktu auglýsingu Verslunar Guðsteins Eyjólfssonar á Laugavegi. Eflaust hafa margir nýtt sér hana til þess að binda bindishnút á leið á veitingastað eða pöbb.
Í mars síðastliðnum var tilkynnt að Herrafataverslun Guðsteins, við Laugaveg 34, myndi loka innan skamms. Búðin var 106 ára gömul og einn af hornsteinum verslunar á Laugaveginum.
Minnkandi verslun var ástæða fyrir lokuninni. Guðsteinn, sem var klæðskeri, opnaði verslunina upphaflega árið 1918 á Grettisgötu en um tíma var hún á Bergstaðastræti. Afkomendur hans tóku við rekstrinum eftir hans dag en önnur fjölskylda tók við rekstrinum árið 2016.
Auglýsingin á horninu, sem sýnir vel hvernig á að binda bindishnút, var mjög áberandi og þótti setja svip á Laugaveginn. Nú er hún að hverfa.
„Hræðilegt það er verið að byrja að mála yfir þetta,“ segir íbúi í hverfagrúbbu miðborgarinnar, sem tók eftir því að málarameistararnir voru að hefja verk sitt.