fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Ákæran í stóra fíkniefnamálinu: Afi og amma geymdu efnin heima hjá sér og seðlabúnt voru flutt á bifreiðaverkstæði í Auðbrekku

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 15. júlí 2024 09:30

Mynd: DV/Maggi gnúsari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Átján sakborningum í stóra fíkniefnamálinu svokallaða var fyrir skömmu birt ákæra og hefur DV hana undir höndum. Ákæran lýsir þaulskipulögðum og stórfelldum brotum fólksins og mjög nánu samstarfi þess um brotin. Fimm konur eru á lista sakborninga og 13 karlar. Fólkið er á ýmsum aldri, allt frá rétt undir þrítugu og upp fyrir sjötugt. Í hópnum er að finna ævilanga vini og ættingja, mæðgur, feðga og feðgin. Elsta fólkið í hópnum virðist helst hafa haft það hlutverk að geyma á heimilum sínum fíkniefni fyrir börnin sín, meðal annars kókaín og amfetamín. Þar koma við sögu síðmiðaldra fólk sem á barnabörn, kona um sextugt og karlmaður um sjötugt.

Fólkið í hópnum lék misstór hlutverk í brotunum en einn er talinn vera höfuðpaur, karlmaður á fimmtugsaldri sem talinn er hafa stjórnað hópnum, ráðið fólk til starfa og greitt laun. Virðist starfsemin hafa verið rekin eins og hvert annað fyrirtæki og snerist um fíknefnasmygl, sölu og dreifingu fíkniefna og peningaþvætti.

Fyrsti liður ákærunnar beinist gegn helmingi hópsins, níu manns, en þau eru ákærð fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfelld fíkniefnabrot með því að standa saman í félagi að sölu og dreifingu fíkniefna hér á landi. Er síðan tilgreint mikið magn af amfetamíni, kókaíni og fleiri fíkniefnum sem fundust á heimilum fjögurra sakborninga, meðal annars hinna tveggja elstu.

Yfir 12 milljónir fluttar á bifreiðaverkstæði

Tveir sakborninganna eru ákærðir fyrir peningaþvætti í skipulagðri brotastarfsemi með því að hafa haft í fórum sínum rétt tæplega 12,4 milljónir króna sem voru ásamt öðrum peningahaug afrakstur af brotastarfseminni sem lýst er í fyrsta ákærulið. Einn sakborningur afhenti öðrum þessa peninga á heimli sínu og sá flutti þá síðan að bifreiðaverkstæði í Auðbrekku sem er í eigu annars sakbornings. Sá afhenti peningana enn einum ákærða en lögregla stöðvaði akstur þess manns og fann peningana í bíl hans.

Þessir atburðir áttu sér stað í október í fyrra en í mars á þessu ári eru tveir sakborningar sakaðir um að hafa þvætt rúmlega 16 milljónir sem voru einnig afrakstur brotanna í fyrsta ákærulið. Þessi seðlabúnt skiptu um hendur margra aðila í hópnum uns einn þeirra reyndi að flytja þau með flugi til Vínarborgar í Austurríki. Áætlaður áfangastaður var raunar Búdapest í Ungverjalandi en Vín var áætlaður viðkomustaður fjárins. Sá sem flutti peningana var hins vegar stöðvaður á Keflavíkurflugvelli þar sem tollverðir fundu peningana í fórum hans og haldlögðu þá.

Kókaínið í skemmtiferðaskipinu

Fjórir sakborninganna eru ákærðir fyrir að hafa staðið að innfluningi á tæplega 2,2 kílóum af kókaíni sem falin voru í tveimur pottum í skemmtiferðaskipinu AIDAsol sem lagðist að bryggju á Íslandi þann 11. apríl síðastliðinn. Sá sem talinn er höfuðpaur hópsins skipulagði innflutning fíkniefnanna hingað til lands.  „Ákærðu allir sammæltust um þátttöku í starfseminni með því að skiptast á skilaboðum í gegnum samskiptaforritið Signal og í símtölum sem innihéldu fyrirmæli, leiðbeiningar og samtöl um hvernig koma ætti fíknefnunum úr skipinu, hverjum ætti að afhenda þau, hvar ætti að sækja þau og hvernig og hvar fjarlægja skyldi efnin úr pottunum,“ segir í ákærunni.

Sérstakir ákæruliðir snúa að vörslu fíkniefna á heimilum hinn ákærðu en auk þess eru nokkrir ákærðir fyrir vopnalagabrot, meðal annars fyrir vörslu á skammbyssu, haglabyssu, byssuskotum, rafbyssum, loftbyssum og hnífum.

Einn sakborninganna er ákærður fyrir tilraun til manndráps og virðist það atvik ekki hafa nein tengsl við starfsemi hópsins. Er hann sakaður um að hafa tekið mann kyrkingataki og þrengt að öndunarvegi hans í a.m.k. sjö mínútur, og þannig reynt að svipta hann lífi, en lögregla náði að losa brotaþola úr takinu.

DV er ekki kunnugt um hvenær málið fer fyrir dóm en það er mjög umfangsmikið. Reikna má þó með að aðalmeðferð verði einhvern tíma fyrir áramót.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“