fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fréttir

Drama í ófullgerðu fjöleignarhúsi – Ósátt við nýju veggina og neituðu að færa bílana

Ritstjórn DV
Laugardaginn 13. júlí 2024 09:00

Kærunefnd húsamála er til húsa að Sölvhólsgötu 7 í Reykjavík

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kærunefnd húsamála hefur sent frá sér álit í deilumáli milli eigenda eignarhluta í fjöleignarhúsi sem samkvæmt álitinu er ófullgert. Voru eigendur eins eignarhluta af fjórum ósáttir við steypta veggi á lóðarmörkum milli hinna þriggja eignarhlutanna og sameiginlegs bílastæðis allra eignarhluta í húsinu. Vildu umræddir eigendur láta fjarlægja veggina en nefndin tók hins vegar ekki undir með þeim.

Um er að ræða ófullgert fjöleignarhús en skráð byggingarár þess er 2021. Húsinu er skipt í alls fjóra eignarhluta. Þrír einstaklingar sem eru eigendur eins eignarhlutans og beindu málinu til nefndarinnar hafa deilt við alls sex einstaklinga, sem eiga hina þrjá eignarhlutana, um steyptu veggina.

Ósáttu eigendurnir sem vildu veggina burt tjáðu nefndinni að í nóvember 2021 hafi verið byrjað að stilla upp steypumótum á lóðamörkum en ómögulegt hafi reynst að fá upplýsingar um verkið frá verktakanum, sem hafi jafnframt verið seljandi og afsalshafi allra eignarhluta hússins. Hin ósáttu hafi síðan neitað að verða við kröfu um að færa bifreiðar sínar til þess að unnt yrði að hefja steypivinnu enda að þeirra sögn um að ræða framkvæmd á sameign og ekki hafi legið fyrir á grundvelli hvaða teikninga hún væri fyrirhuguð. Í framhaldi af þessu hafi einn hinna eigendanna sex sent eigendum öllum tölvupóst með teikningu af útliti veggjanna sem allir hinna sex samþykktu en ekki ósáttu eigendurnir þrír. Næsta dag hafi uppsteypan átt sér stað en téður seljandi og verktaki hafi þá talið fullnægjandi samþykki eigenda liggja fyrir.

Passi ekki við teikningarnar

Ósáttu eigendurnir sögðu að samkvæmt gildandi byggingarteikningum eigi veggirnir að vera hlaðnir en umfang og útfærsla þeirra sé langt frá því sem ráða megi af þeim útlitsteikningum sem hafi legið fyrir við kaupsamningsgerð og í skilalýsingu sem og tölvuteiknaðra mynda arkitekts. Virða hafi átt rétt þeirra til aðkomu að umræðum og ákvörðunartöku um framkvæmdirnar og að ákvörðun um hönnun og efnisval veggjanna hafi ekki verið tekin á löglega boðuðum húsfundi. Heldur lægi ekki fyrir samþykki 2/3 hluta eigenda bæði miðað við fjölda og eignarhluta enda væru eigendurnir þrír eigendur meira en 1/3 hluta hússins.

Eigendurnir sex vísuðu allri ábyrgð á teikningum veggjanna á hendur seljanda hússins. Hann hafi upplýst hópinn um að hann hyggðist reisa veggina og hafi spurt eigendur eins af eignarhlutunum þremur um hversu háir þeir ættu að vera þar sem hæð hafi vantað inn á stimplaðar teikningar. Honum hafi verið svarað með einfaldri skissu og tillögu að hæð og hann hafi beðið viðkomandi um að spyrja aðra eigendur í húsinu hvernig þeim litist á og eftir tölvupóstsamskipti á milli eigendanna hafi seljandinn verið upplýstur um að samþykki 3/4 hluta eigenda lægi fyrir.

Töldu eigendurnir sex að öllu leyti á ábyrgð seljandans að fylgja eftir öllum breytingum á teikningum en samkvæmt samþykktum og rétt stimpluðum teikningum hafi verið gert ráð fyrir veggjunum sem eigendurnir þrír voru svo ósáttir við.

Húsið svo lítið

Kærunefnd húsamála segir að samkvæmt gögnum málsins liggi fyrir að þegar ósáttu eigendurnir þrír hafi keypt sinn eignarhluta hafi aðaluppdráttur af lóðinni gert ráð fyrir hlöðnum veggjum en af ókunnum ástæðum hafi seljandinn horfið frá því og steypt veggina í staðinn. Það hafi verið bersýnilega ákvörðun seljandans.

Nefndin segir í áliti sínu að samkvæmt lögum um fjöleignarhús sé ekki þörf á sérstakri stjórn í húsum þar sem eignarhlutar eru sex eða færri. Því telur nefndin að slaka megi á kröfum um að fjallað sé um sameiginlegar framkvæmdir á formlegum húsfundi ef um lítil fjölbýli sé að ræða. Nefndin telur einnig að það valdi ekki ógildingu ákvörðunar þótt hún hafi ekki verið tekin á slíkum fundi.

Þá telur nefndin að hin umdeilda ákvörðun um byggingu veggjana varði smávægilega breytingu á sameiginlegri lóð hússins þannig að samþykki einfalds meirihluta miðað við eignarhluta nægi, á grundvelli laga um fjöleignarhús, en fyrir liggi að eigendur ¾ af eignarhlutum hússins hafi verið samþykkir ákvörðun um að steypa veggina í stað þess að hafa þá hlaðna.

Kröfum eigendanna ósáttu um að veggirnir verði fjarlægðir var því hafnað. Sætti þeir sig ekki við niðurstöðuna verða þeir að leita til dómstóla til að freista þess að fá veggina fjarlægða.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli
Fréttir
Í gær

Fékk skilorð fyrir kynferðisbrot sem hann kallaði glens

Fékk skilorð fyrir kynferðisbrot sem hann kallaði glens
Fréttir
Í gær

Gagnrýna Íslandsbanka fyrir vaxtabreytinguna í dag – „Þetta er ógeðslegt, óboðlegt og til skammar“

Gagnrýna Íslandsbanka fyrir vaxtabreytinguna í dag – „Þetta er ógeðslegt, óboðlegt og til skammar“