Á veðurspárvefnum Blika var fyrr í dag gefin út langtíma veðurspá fyrir júlímánuð sem eins og öll ættu að vita hófst í dag. Í spánni segir að búast megi við daufgerðu, svölu og þurru veðri í mánuðinum að minnsta kosti framan af.
Það er þó ekki algilt fyrir allan mánuðinn en í spánni segir að fram á miðvikudag sé að sjá lægð undan Suðurlandi og vætusamt verði sunnantil. Úrkomulítið verði norðantil, en þoka við sjóinn þar sem vindur standi af hafi.
Á fimmtudag sé síðan að sjá hægfara breytingar. Hæg norðanátt verði þá ríkjandi fram á sunnudag. Dragi þá frá sólu sunnantil en síðdegisskúrir séu ekki útilokaðir. Hiti verði allt að 16 til 18 stig þar sem best lætur. Svalt verði norðan- og austantil, 6 til 10 stiga hiti. Lengst af verði fremur þungbúið og þokusuddi verði algengt veðurlag.
Þegar kemur að næstu viku, 8. til 15. júlí, segir í spánni að lágþrýstifráviki sé spáð vestur af Bretlandseyjum, en minniháttar háþrýstifrávik vestur af Íslandi og yfir Grænlandi. Alla jafna fylgi slíkum þrýstifrávikum ríkjandi vindar á milli austurs og norðurs. Oftast hægi. Hitafrávikin á spákortum til hægri gefa til kynna að hiti verði markvert undir meðallagi norðan- og austanlands. Þrátt fyrir svalt loftið verði hitinn nærri meðallagi sunnantil. Sólríkt verði þar og þurrt.
Þegar kemur að vikunni þar á eftir, 15. – og 22. júlí segir að sjá megi áberandi háþrýstifrávik yfir Íslandi. Áfram verði fremur svalt umhverfis landið, en gæti alveg orðið sólríkt, en engu að síður einhvers konar norðanátt í grunninn og þurrt almennt séð.
Í spánni segir að litlu sé hægt að spá um síðustu viku júlímánaðar. Fram til 22. júlí sé hins vegar þrennt sem standi upp úr í þessari langtímaspá.
Hæglátt veður verði lengst af og með ríkjandi norðan- og norðaustanátt. Hiti verði um eða undir meðallagi, en líklegri sólar dagar sunnan- og vestantil gætu lyft meðalhitanum upp. Fyrir hluta mánaðarins sé spáð lítilli úrkomu sunnan- og vestantil , en talsverðri úrkomu á Austfjörðum.