fbpx
Miðvikudagur 03.júlí 2024
Fréttir

Kristján svarar Gauta fullum hálsi og sakar hann um orðhengilshátt og útúrsnúninga – Eiríkur blandar sér í umræðuna og segir kæru Kristjáns út í hött

Ritstjórn DV
Mánudaginn 1. júlí 2024 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Uppgjafaprófessor í íslenskri málfræði, prófessor í þýðingafræði og skáld takast á um þessar mundir um kynhlutlaust mál hjá Ríkisútvarpinu. Tilefni skoðanaskiptanna er kæra skáldsins Kristjáns Hreinssonar til menningar- og viðskiptaráðuneytis. Kristján segir kæruna tilraun til að bjarga íslenskunni en prófessorarnir telja að annað vaki þó fyrir skáldinu.

Skáldið Kristján Hreinsson hefur kært Ríkisútvarpið til menningar- og viðskiptaráðuneytis út af notkun á svokölluðu kynhlutlausri íslensku. Kristján telur að með þessu málfari sé Ríkisútvarpið að brjóta gegn skyldum sínum um að nota „lýtalausa íslensku“.

Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði, ritaði grein um kæruna fyrir helgi þar sem hann lét að því hvatinn fyrir kærunni sé ekki ástin sem Kristján ber til móðurmálsins heldur sé hann að amast við því til hverra hópa kynhlautlaus máls tekur tillit til.

Þvaður, útúrsnúningur og orðhengilsháttur

Kristján tók illa í gagnrýni Gauta og skrifaði í morgun langa svargrein.

„Í stað þess að skoða af alvöru um hvað mál mitt fjallar, eyðir prófessor Gauti púðri sínu í ómálefnalegt þvaður, rangfærslur, orðhengilshátt, útúrsnúning og endar svo á að ýja að því að ég sé með máli mínu að ráðast að tilteknum hópum fremur en að ráðast gegn því sem ég kýs að kalla hvorugkynssýki.“

Kristján segir ljóst að aðför standi nú yfir gegn íslenskunni þar sem eigi að breyta máltilfinningu landsmanna í pólitískum tilgangi. Kynhlutlaust mál sé tilgangslaust þar sem málfræðilegt karlkyn er kynhlutlaust.

„Kynhlutlaus íslenska er mýta sem hefur ekkert með raunveruleika að gera. Hugljómunin er kannski fögur en framkvæmdin er andvana fædd afurð og hrákasmíð, reist á hálfkaraðri hugsun. Þeir sem leyfa sér að hugsa þessa hvorugkynsviðleitni til enda komast að því að um meingallað fyrirbæri er að ræða. Talað er um breytt viðhorf, talað er um nýja kynvitund, látið er í það skína að um þróun tungumálsins sé að ræða. Þegar grannt er skoðað, kemur þó í ljós að hér er á ferðinni tilraun sem lýtur að því að fegra siðferði í gegnum kynhlutföll í tungumáli. Hugsunin er ylrík von en framkvæmdin ísköld vatnsgusa.“

Kristján segir að Gauti gerist svo kræfur að hreinlega ljúga upp á hann orðalagi.

„Orð Gauta eru þvaður og sýna augljósan skort á málefnalegum rökum. Að gera öðrum upp skoðanir er dæmi um dómgreindarskort og röksemdafátækt.“

Ber skylda til að viðhafa lýtalausa íslensku

Lög um Ríkisútvarpið kveði skýrt á um skyldu til að miðla lýtalausri íslensku til landsmanna. Það sé lýti og brjóti gegn málvenju að notast við kynhlutlaust hvorugkyn þar sem eðlilega ætti að notast við karlkyn.

Kristján segir þrjár ástæður gefnar fyrir „kynhreinsunarstefnu þeirri, sem sumir kalla kynhlutlaust mál“.

Sú fyrsta sé að fólk sé ranglega að setja samasemmerki milli kyns í málfræði og í líffræði. Næsta ástæða er að verið sé að koma til móts við breytt viðhorf með því að auka vægi hvorugkyns. Sú þriðja sé að um eðlilega þróun tungumálsins sé að ræða.

Kristján segir ekkert að þessu standast skoðun. Siðferði tungutaks liggi ekki í málfræði heldur orðum og setningum. Ekki geti verið um eðlilega þróun að ræða þegar hún grundvallist á forræðishyggju.

Kæra Kristjáns út í hött

Uppgjafaprófessorinn Eiríkur Rögnvaldsson hefur svarað svargrein Kristjáns og tekur fram að draumur skáldsins um „lýtalausa íslensku“ sé óraunhæfur, enda ekkert til sem heiti „lýtalaus íslenska“

„ Lýsingarorðið lýtalaus er skýrt ‘sem hefur enga galla, gallalaus’ í Íslenskri nútímamálsorðabók. Forsenda fyrir því að slíkt orð hafi einhverja merkingu er að til sé einhver fullkomin fyrirmynd eða líkan – þá er hægt að skilgreina öll frávik frá þeirri fyrirmynd sem galla eða lýti. En þegar um tungumál er að ræða er slík fyrirmynd ekki til. Í öllum tungumálum eru til einhver tilbrigði og þótt samstaða kunni að vera um einhvern málstaðal tekur hann aldrei á þeim öllum. Ákvæði um „lýtalausa íslensku“ er því í raun merkingarlaust enda er það orðalag ekki notað í nýjum þjónustusamningi menningar- og viðskiptaráðherra við RÚV heldur sagt: „Áhersla skal lögð á vandað mál í öllum miðlum […].“.“

Það sé sjálfsagt að krefja Ríkisútvarpið um vönduð vinnubrögð en krafa um „lýtalausa íslensku“ geti beinlínis unnið gegn meginmarkmiðum laga um Ríkisútvarpið sem sé m.a. að stuðla að menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni.

„Að útiloka annað fólk en það sem talar „lýtalausa íslensku“ (og er varla til) stuðlar vitaskuld ekki að „lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni“ í samfélaginu. Þvert á móti – það hamlar lýðræðislegri umræðu, hampar ákveðnum hópum á kostnað annarra og klýfur samfélagið.“

Þar með sé kæra Kristjáns út í hött enda ekkert sem segi að kynhlutlaust mál sé dauðadómur íslenskunnar.

„Hins vegar er óhætt að fullyrða að aðrar og miklu stærri hættur steðja að íslenskunni um þessar mundir, og ef á að gagnrýna RÚV fyrir óvandað mál er nær að beina sjónum að notkun enskra orða í íslensku samhengi þar sem völ er á íslenskum orðum. Því miður ber töluvert á þessu í RÚV – en ég læt lesendum eftir að íhuga hvers vegna fremur er kært út af kynhlutlausu máli.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ekki öll nótt úti enn fyrir Zúista-bræður – Voru sakaðir um að hagnýta sér ranga hugmynd íslenskra stjórnvalda

Ekki öll nótt úti enn fyrir Zúista-bræður – Voru sakaðir um að hagnýta sér ranga hugmynd íslenskra stjórnvalda
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kristján segir að hvalir séu ekki gáfaðar skepnur – „Þetta er bara uppspuni sem er kokkaður upp“

Kristján segir að hvalir séu ekki gáfaðar skepnur – „Þetta er bara uppspuni sem er kokkaður upp“