Samkvæmt heimildum DV hefur grænlenskur togari verið kyrrsettur í Hafnarfjarðarhöfn vegna rannsóknar lögreglu á kynferðisbroti.
Seint í gærkvöld fannst kona illa haldin á Óseyrarbraut og hafði henni verið nauðgað. Málið tengist ónefndum bar í Hafnarfirði þar sem ball var haldið í gærkvöld, að því leyti að konan var að skemmta sér þar í gærkvöld og þar var einnig áhöfn erlends togara sem hefur verið kyrrsettur.
Ekki náðist samband við lögreglu við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Samkvæmt frétt RÚV er togarinn sem um ræðir grænlenski frystitogarinn Polar Nanoq og hefur einn skipverji á togaranum verið handtekinn, grunaður um brotið. Samkvæmt heimildum RÚV er maðurinn grunaður um að hafa farið með þolandann, konu, um borð í skipið í nótt og brotið á henni.
Togarinn Polar Nanoq hefur áður komist í fréttir hér á landi, en skipverji þar, Thomas Møller Olsen, var fundinn sekur um morðið á Birnu Brjánsdóttur árið 2017.