fbpx
Föstudagur 28.júní 2024
Fréttir

Sofnaði við aksturinn og olli banaslysi – Hafði verið undir stýri í 14 mínútur þegar slysið varð

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 28. júní 2024 08:01

Yfirlitsmynd af akstursstefnu bifreiðanna. Á leið Nissan fólksbifreiðarinnar var mjúk vinstri beygja. Mynd: Rannsóknarnefnd samgönguslysa

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erlendur ferðamaður, fimmtug kona, lést í alvarlegu umferðarslysi á Snæfellsnesvegi, norðan við Hítará í hádeginu þann 17. júlí 2023. Konan var farþegi í aftursæti Fiat Weinsberg húsbíls sem ekið var suðaustur Snæfellsnesveg skammt norðan við Hítará. Á sama tíma var Nissan X-Trail fólksbifreið ekið úr gagnstæðri átt norðvestur Snæfellsnesveg. Nissan bifreiðinni var ekið yfir á rangan vegarhelming og framan á Fiat bifreiðina í hörðum árekstri.

Meginorsök slyssins samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa sem birt var í gær er sú að ökumaður Nissan fólksbifreiðarinnar sofnaði við aksturinn, ók yfir á gagnstæðan vegarhelming og framan á Fiat bifreiðina sem ekið var úr gagnstæðri átt. Hafði hann tekið við akstri bifreiðarinnar 14 mínútum áður en slysið átti sér stað.

Sjö erlendir ferðamenn voru í bifreiðunum, fjórir í Fiat bifreiðinni og þrír í Nissan bifreiðinni. Konan sem lést var úrskurðuð látin á vettvangi. Þrír voru fluttir af vettvangi með þyrlu Landhelgisgæslunnar og þrír með sjúkrabifreið. Báðar bifreiðarnar eru ónýtar. 

Sjá einnig: Banaslys á Snæfellsnesvegi

Í skýrslu RNU kemur fram að skömmu fyrir slysið var Nissan bifreiðinni ekið yfir miðlínu vegarins yfir á gagnstæðan vegarhelming og rákust vinstri framhluti hennar og vinstri framhluti Fiat bifreiðarinnar saman. Við áreksturinn snerist Nissan bifreiðin um 100 gráður og stöðvaðist á veginum. Fiat bifreiðin valt á hægri hlið út fyrir veg að sunnanverðu og stöðvaðist 5,6 metra fyrir utan veg.

Í Fiat bifreiðinni var ökumaður ásamt þremur farþegum. Ökumaðurinn og farþegi í framsæti voru spenntir í öryggisbelti. Farþeginn í aftursæti sem lést var ekki spenntur í öryggisbelti, en óvíst er um öryggisbeltanotkun hins farþegans. Farþegi í aftursæti hlaut alvarlega áverka og var fluttur á sjúkrahús með þyrlu Landhelgisgæslunnar en ökumaður og farþegi í framsæti með sjúkrabifreið. Í Nissan bifreiðinni var ökumaður ásamt tveimur farþegum. Allir voru spenntir í öryggisbelti. Farþegi í aftursæti hlaut alvarlega áverka og var fluttur á sjúkrahús með þyrlu Landhelgisgæslunnar ásamt farþega í framsæti. Ökumaðurinn slasaðist minna og var fluttur af vettvangi með sjúkrabifreið.

Svaf lítið nóttina fyrir slysið

Meginorsök slyssins er sú að ökumaður Nissan bifreiðarinnar sofnaði við aksturinn. Hann kom til landsins með flugi snemma dags tveimur dögum fyrir slysið. Heildarflugtími til Íslands var um 12 tímar með einni millilendingu. Sótti hann bíllyklana í box og kannaðist ekki við að hafa fengið upplýsingar um akstur á Íslandi frá bílaleigunni, auk þess sem hann hafði ekki kynnt sér akstur á íslenskum vegum, sem voru talsvert frábrugðnir þeim vegum sem hann þekkti. Frá því að ökumaður vaknaði og hóf ferðalagið og þar til hann lenti á Keflavíkurflugvelli 15. júlí 2023, liðu um 19 klukkustundir. Að sögn ökumanns svaf hann lítið á því tímabili. Eftir að ferðalagið hófst á Íslandi og þar til slysið varð liðu um 55 klukkustundir. Á því tímabili kvaðst ökumaður hafa sofið í tvær nætur, þá fyrri í sjö klukkustundir eftir 36 klukkustunda vöku og seinni nóttina í um 5,5 klukkustundir eftir um 18,5 klukkustunda vöku. Einnig kvaðst ökumaðurinn hafa unnið mikið og sofið lítið vikuna fyrir Íslandsferðina. 

Að sögn ökumanns vaknaði hann daginn sem slysið varð, 17. júlí 2023, um kl. 06. Tók hann við við akstrinum Í borgarnesi kl. 12:30 og sagðist hafa fundið fyrir þreytu stuttu síðar. Hann hafi íhugað að fá farþega í framsæti til að skipta við sig en vegurinn verið þröngur og hann ekki fundið stað þar sem öruggt væri að stöðva bifreiðina. Slysið varð á Snæfellsnesvegi kl. 12:44. 

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur einnig fram að breidd bundins slitlags var ekki í samræmi við gildandi hönnunarreglur. Klæðning vegarins á slysstað var lögð 2017 en breidd bundins slitlags var undir því sem gildandi hönnunarreglur Vegagerðarinnar, frá 2010 og 2011, fyrir stofnvegi segja til um.

Skýrsluna má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Gauti gáttaður á umræðunni – „Mér fannst þó steininn taka úr þegar ég las um kæru Kristjáns Hreinssonar“

Gauti gáttaður á umræðunni – „Mér fannst þó steininn taka úr þegar ég las um kæru Kristjáns Hreinssonar“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Krefjast vaxtalækkunar tafarlaust

Krefjast vaxtalækkunar tafarlaust
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bátavogsmálið: Sársaukaóp hins látna hljómuðu í dómsal

Bátavogsmálið: Sársaukaóp hins látna hljómuðu í dómsal
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Eldur logar á Höfðatorgi

Eldur logar á Höfðatorgi