fbpx
Mánudagur 01.júlí 2024
Fréttir

„80 milljón króna íbúð er að hækka um svona 800 þúsund krónur á mánuði“

Ritstjórn DV
Föstudaginn 28. júní 2024 10:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Páll Pálsson fasteignasali segir að fasteignamarkaðurinn á Íslandi sé nú kominn í nokkuð gott jafnvægi, eða hann sé bara frekar venjulegur. Vissulega sé það súrt að til þess hafi þurft miklar vaxtahækkanir en „geðveikin“ sem einkenndi markaðinn síðustu ár sé búin.

Þetta kemur fram í Bítinu á Bylgjunni þar sem Páll ræddi um stöðuna.

„Það er engin rosalega dramatík á markaðnum. Það hefur orðið svona ca. 30 prósent meiri sala en á sama tíma í fyrra,“ segir Páll og tekur fram að í fyrra hafi salan verið nokkuð léleg. Ennþá sé húsnæðisverð þó að hækka.

„Það hefur orðið svona ca. 8,4 prósent hækkun á síðustu 12 mánuðum en mjög stór hluti af þeirri hækkun hefur átt sér stað á þessu ári. Og bara síðustu 3 mánuði þá hefur kannski eign hækkað að meðaltali um 1 prósent á mánuði. Til að setja það í eitthvað samhengi þá er kannski 80 milljón króna íbúð að hækka um svona 800 þúsund krónur á mánuði.“

Þetta kallar Páll þó lygnan sjó í markaði. Allt sé í raun að virka eins og það eigi að gera.

„Það eru svona um 20-23 prósent af eignum sem seljast yfir auglýstu verði. En tæp 80 prósent eru þá að seljast á eða undir auglýstu verði. Sem er alveg eðlilegt. Á sínum tíma þegar geðveikin var sem mest í covid og framhaldi af því þá var bara 40-50 prósent að seljast yfir auglýstu verði.“

Páll tekur þó fram að eign selst alltaf á réttu verði. Rétt verð er þó ekki alltaf endurspeglað í ásettu verði heldur ræðst af framboði og eftirspurn. Ef mörg tilboð berast í eign er eðlilegt að hún sé að seljast á hærra verði heldur en þegar eftirspurnin er minni.

Aðspurður um verðlagningu segir Páll að vissulega hafi fasteignaverð hækkað mikið síðan hann fór að starfa sem fasteignasali um 2012.

„Ég meira að segja man það að einn félagi minn kaupir íbúð í miðbænum á 250 þúsund krónur fermetran. Og ég átti bara ekki til orð hvað hann væri ruglaður að greiða svona mikið fyrir fermetran í miðborg Reykjavíkur. Vitið þið hvað meðalfermetrinn varí höfuðborginni í síðasta mánuði?“

Páll segir að í maí hafi meðalfermetri í nýbyggingu á höfuðborgarsvæðinu verið á 844 þúsund krónur og á tæpar 770 þúsund í eldra húsnæði. Síðustu áratugi hafi eignir hækkað um tæp 10 prósent að meðaltali á ári svo fasteign sé sem fyrri daginn góð fjárfesting.

Páll tekur fram að eftirspurnin er meiri eftir fjölbýli. Framboðið af sérbýli sé líka orðið takmarkað þar sem ekki er mikið byggt af því í dag. Hann sér því fram á að sérbýli eigi eftir að hækka nokkuð í verði umfram fjölbýli á komandi árum.

Páll segir hressandi að Einar Þorsteinsson borgarstjóri sé búinn að viðurkenna að í borginni sé um lóðaskort að ræða. Síðasta áratuginn hafi ýmsu verið lofað og íbúum kynnt hvert húsnæðisátakið á eftir öðru en ekkert af þessu hafi þó náð að vinna á framboðsskorti.

Að mati Páls eru þeir sem vilja kaupa sérbýli farnir að horfa út fyrir höfuðborgarsvæðið og er Páll því farinn að tala um „nýja stór-höfuðborgarsvæðið“ sem færir höfuðborgarsvæðið út til Akraness, Selfoss og Reykjaness. Þar sé sala að aukast mikið. Eins séu margir af eldri kynslóðinni farnir að minnka við sig og kaupa sér íbúðir í fjölbýlum og svo jafnvel fasteign á Spáni.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Síðdegisvaktir heilsugæslunnar lagðar af

Síðdegisvaktir heilsugæslunnar lagðar af
Fréttir
Í gær

Ingibjörg uppgötvaði 19 ára „áfengismenningu“ sem Íslendinga skorti sárlega – Svo sá hún loksins ljósið

Ingibjörg uppgötvaði 19 ára „áfengismenningu“ sem Íslendinga skorti sárlega – Svo sá hún loksins ljósið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hjón drápu lamb á Snæfellsnesi – „Árvekni var ekki góð og þau ómeðvituð um hættuna af völdum lausafjár“

Hjón drápu lamb á Snæfellsnesi – „Árvekni var ekki góð og þau ómeðvituð um hættuna af völdum lausafjár“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þarf að gangast undir nýrnaígræðslu en fær ekki bóluefni niðurgreidd hjá Sjúkratryggingum – „Mér finnst þetta vera ómannlegt“

Þarf að gangast undir nýrnaígræðslu en fær ekki bóluefni niðurgreidd hjá Sjúkratryggingum – „Mér finnst þetta vera ómannlegt“