Anna Kristjánsdóttir samfélagsrýnir og heldri borgari nýtur lífsins í Paradís, eins og hún kallar Tenerife, en þar hefur hún búið um nokkurra ára skeið. Anna skrifar daglega pistil á Facebook-síðu sína um daglegt líf, samfélagsmál og fleira, og njóta þeir vinsælda hjá fjölmörgum Facebook vinum hennar og fleiri.
Í dag flaggaði Anna líkt og vera ber á afmælisdegi forseta Íslands, en Guðni Th. Jóhannesson er einmitt 56 ára í dag, 26. júní.
„Það eru ákveðnar reglur varðandi þjóðfána Íslendinga. Það á að flagga honum á ákveðnum dögum, þar á meðal á afmælisdegi forseta Íslands. Svo vill til að pabbi hefði átt 110 ára afmæli í dag hefði hann lifað sem hann gerði ekki, en samt er flaggað. Guðni Thorlacius Jóhannesson forseti Íslands á nefnilega sama afmælisdag og pabbi heitinn, reyndar 58 árum yngri, en samt flagga ég í dag með virðingu fyrir frábærum forseta Íslands sem senn kveður embættið, en um leið fyrir 110 ára afmæli föður míns,“
segir Anna.
Dagurinn í dag er sá síðasti, alla vega í bili, sem flaggað er vegna afmælis forseta Íslands því eins og alþjóð veit mun Halla Tómasdóttir taka við embættinu þann 1. ágúst næstkomandi. Halla á afmæli 11. Október.
Anna segist þó munu halda áfram að flagga þann 26. júní Guðna til heiðurs þó hann verði ekki lengur forseti og einnig í minningu föðurs síns.
„Faðir minn var kannski enginn fyrirmyndarfaðir. Hann var óreglumaður fram yfir miðjan aldur, en hann var faðir minn og afi barnanna minna og við systkinin og börn okkar höfum mörg fengið listræna hæfileika hans í arf. Því flagga ég, ekki aðeins forseta Íslands til heiðurs, heldur einnig minningu manns sem mátti fylgja báðum foreldrum sínum til grafar fyrir átta ára aldurinn, ólst upp á meðal vandalausra og bar þess merki alla ævi.
Með því að Guðni Th. Jóhannesson kveður embætti forseta Íslands í sumar, verður 26. júní ekki lengur opinber fánadagur á Íslandi, en ég mun samt flagga áfram á þessum degi, honum, föður mínum og öðrum afmælisbörnum dagsins til heiðurs.“
Dagurinn er þó einnig minnisstæður Önnu persónulega því fyrir fimm árum síðan fór hún á eftirlaun, sem hún segir í gamansömum tóni að hafi verið framfararskref fyrir íslensku þjóðina.
„Það er annað merkilegt við þennan dag. Þennan dag fyrir fimm árum síðan lagði ég af alla leti og ómennsku svo ekki sé talað um sérhlífni í starfi þessi 55 ár sem ég var á vinnumarkaði, því þennan dag hætti ég að vinna fyrir daglegu brauði mínu og hefi síðan ekki unnið neitt, sjálfri mér til gleði og íslenskri þjóð til hagsbóta.
Þetta var mikið framfaraskref, því eftir að ég hætti að gera gagn hefur íslensk þjóð eflst og dafnað, en sjálf fann ég mér nýjan samastað suður í höfum og nýt þess að gera ekki neitt dag eftir dag. Það fer líka vel á slíku enda var vinnuframlag mitt meðan ég var á vinnumarkaði fremur fátæklegt og alls ekki til að hrósa sér af.“