Skytrax-verðlaunin þykja býsna virt og er stundum talað um þau sem Óskarsverðlaun flugbransans.
Það er skemmst frá því að segja að Qatar Airlines er í efsta sæti listans þetta árið og er þetta í áttunda sinn sem flugfélagið endar á toppnum. Í fyrra var Singapore Airlines á toppnum en flugfélagið fellur niður í annað sætið þetta árið.
Verðlaunaafhendingin fór fram í Lundúnum í gærkvöldi en auk þess að verðlauna efsta flugfélagið eru veitt verðlaun í ýmsum undirflokkum eins og til dæmis fyrir mesta hreinlætið, besta viðskiptafarrýmið og fyrir bestu flugþjónana og flugfreyjunnar.
Listi Skytrax ber titilinn Skytrax World Airline Awards og byggir á ítarlegum könnunum sem gerðar eru meðal farþega. Farþegar tilnefna flugfélög sem þeim þykja hafa skarað fram úr og veita þeim einkunnir á bilinu 1-5 í hinum ýmsu flokkum. Eru einkunnir veittar fyrir meðal annars hversu vinaleg áhöfn í farþegarými er og hversu góð hún er að leysa vandamál sem upp kunna að koma. Meðal annarra flokka sem farþegar veita einkunnir fyrir eru þægindi sæta, hreinlæti um borð, hversu vel innritun gengur fyrir sig, gæði máltíða um borð og afþreying sem boðið er upp á.
Í frétt News.com.au er tekið fram að Qatar Airlines hafi fengið þrenn önnur verðlaun, meðal annars fyrir besta viðskiptafarrýmið.
Hægt er að skoða lista Skytrax yfir hundrað bestu flugfélög heims hér en athygli vekur að Ísland á fulltrúa á listanum. Flugfélagið Play er í 87. sæti á listanum en var í 91. sæti í fyrra. Icelandair komst ekki á listann þetta árið og ekki heldur í fyrra.
Á vef Skytrax er bent á að PLAY hafi lent í 3. sæti yfir þau flugfélög sem hafa sýnt mestar framfarir milli ára. Hlutskarpast þar varð flugfélagið Saudi Arabian Airlines og þar á eftir STARLUX Airlines.