Þetta segir Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, einn af stjórnendum og stofnendum Defend Iceland, í samtali við Morgunblaðið í dag.
Eins og greint var frá á sunnudag varð Morgunblaðið fyrir barðinu á netárás en um var að ræða svokallaða gagnagíslatölu þar sem gögn voru dulkóðuð. Morgunblaðið kveðst hafa heimildir fyrir því að sex íslensk fyrirtæki hafi lent í gagnagíslatöku á síðustu mánuðum en greint hefur verið frá því að Morgunblaðið, Brimborg og Háskólinn í Reykjavík hafi lent í sambærilegum árásum.
„Sumar árásir rata í fjölmiðla, aðrar ekki,“ segir Jóhanna.
Talið er líklegt að netþrjótarnir sem réðust á kerfi Morgunblaðsins tengist rússneskum glæpasamtökum og jafnvel rússneskum yfirvöldum. Hópurinn sem réðist á Morgunblaðið kallast Akira og eins og DV greindi frá í gær er um að ræða afsprengi annars hóps, Conti-gagnagíslatökuhópsins, sem var sagður tengjast rússnesku leyniþjónustunni.
Jóhanna segir að þessir hópar eigi það sammerkt að leita eftir veiklum í kerfum og nýta sér þá til að valda skaða.
„Þessi tiltekni árásarhópur er rússneskur. Einhverjir telja hann tengjast rússneskum stjórnvöldum og netárásir hafa aukist mjög mikið frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu, þá sérstaklega á lönd sem eru innan NATO. Það er engin tilviljun. Í rauninni eru netárásir form af stríðsrekstri,“ segir Jóhanna við Morgunblaðið þar sem nánar er fjallað um málið.