fbpx
Föstudagur 28.júní 2024
Fréttir

Þetta er hópurinn sem gerði árás á Morgunblaðið – Hafa komist yfir gríðarlegar fjárhæðir á stuttum tíma

Ritstjórn DV
Mánudaginn 24. júní 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rússneski hakkarahópurinn Akira er sagður hafa staðið á bak við árás á tölvukerfi Morgunblaðsins með þeim afleiðingum að gríðarlegt magn gagna var tekið í gíslingu. Vegna þessa lá fréttavefur Morgunblaðsins niðri í um þrjár klukkustundir og útsendingar K100 lágu niðri.

Þó að hakkarahópurinn sé tiltölulega nýr af nálinni hefur hann þegar valdið óskunda hér á landi.

Aðfaranótt 29. ágúst í fyrra var gerð netárás á bílaumboðið Brimborg þar sem gögn voru tekin í gíslingu. Í byrjun febrúar á þessu ári var svo gerð árás á tölvukerfi Háskólans í Reykjavík. Talið er að í báðum þessum tilfellum hafi Akira verið að verki og voru áhrifin umfangsmikil rétt eins og í tilfelli árásarinnar á Morgunblaðið í gær.

Margar árásir á stuttum tíma

Í suttu máli virka árásir af þessu tagi þannig að forriti sem dulkóðar gögn notenda er komið fyrir inni í tölvukerfum stofnana og fyrirtækja. Til að leysa gögnin úr haldi er krafist lausnargjalds sem getur hlaupið á tugum milljóna króna.

Akira-hópurinn byrjaði að láta til sín taka í mars 2023 og á rúmu ári, eða þar til í apríl 2024, hafði hópurinn ráðist á rúmlega 250 fyrirtæki og stofnanir á Norður-Ameríku, Evrópu og Ástralíu. Yfirleitt eru það lítil og meðalstór fyrirtæki sem verða fyrir barðinu á hópnum.

Hólmfríður: „Þetta er ekki dagur sem ég mun gleyma í bráð“

Í skýrslu sem fulltrúar Europol og FBI komu meðal annars að kom fram að í þessum árásum hefði hópurinn þénað 42 milljónir Bandaríkjadala, 5,8 milljarða króna. Misjafnt er hversu háar upphæðir þarf til að leysa gögn úr haldi en samkvæmt netöryggisfyrirtækinu Arctic Wolf geta upphæðirnar verið frá 200 þúsund dollurum og allt upp í fjórar milljónir dollara. Ef ekki er borgað innan ákveðinna tímamarka eru gögnin birt á netinu á þar til gerðri síðu.

Þess er getið í umfjöllun Arctic Wolf að gögn sumra fyrirtækja sem ráðist hefur verið á séu ekki lengur aðgengileg á lekasíðu hópsins sem bendir til þess að mörg hver borgi lausnargjaldið.

Tengslin við Rússland

Í umfjöllun vefmiðilsins Cyberdaily í fyrra kom fram að Akira virðist vera afsprengi annars þekkts hóps, Conti-gagnagíslatökuhópsins sem var sagður tengjast rússnesku leyniþjónustunni. Sá hópur lagði upp laupana eftir að hafa lýst yfir stuðningi við innrás Rússa í Úkraínu árið 2022. Í kjölfarið var miklu magni af gögnum frá Conti lekið af aðila sem studdi málstað Úkraínu, þar á meðal aðferðirnar sem hópurinn notaði til að komast yfir gögn.

Sem fyrr segir byrjaði Akira að láta til sín taka í ársbyrjun 2023 og í umfjöllunum erlendra miðla kemur fram að ýmislegt bendi til þess að þar sé um að ræða einstaklinga sem tengjast Conti-hópnum.

Sum fyrirtæki hreinlega verða að borga

Theódór Ragnar Gíslason hjá Defend Iceland var í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins fyrir rúmum mánuði þar sem hann ræddi meðal annars netöryggismál. Fyrirtæki hans aðstoðar fyrirtæki við að koma auga á veikleika sem hægt sé að tryggja að ekki verði gerðar netárásir þar sem viðkvæmum gögnum er stolið.

Um svokallaðar lausnargjaldsárásir, eins og dæmin hér að ofan fjalla um, sagði Theódór að hakkarar væru að vonast eftir gróða.

„Það eru lausn­ar­gjalds­árás­ir og gagnagísla­taka þar sem hakkarinn brýst inn og tek­ur yfir net­kerfið, yf­ir­leitt í gegn­um ör­ygg­is­veik­leika. Ný­lega tók rúss­nesk­ur hakkarahópur, Akira, tölvu­kerfi HR úr um­ferð. Þeir ná þá stjórn og dreifa hug­búnaði á tölv­ur og dul­kóða gögn. Það sem svona aðilar gera oft­ast er að sjúga gögn út, oft viðkvæm persónugreinaleg gögn og gagna­grunna, og hóta að birta þau. Þannig að pen­ing­ur er aðal­mark­miðið og þetta er að aukast gríðarlega,“ sagði Theodór meðal annars í viðtalinu og bætti við að mikilvægt væri að greiða hökkurunum ekki fyrir að fá gögnin til baka.

„Þónokk­ur fjöldi ís­lenskra fyr­ir­tæki hef­ur lent í þessu og ég veit til þess að ís­lenskt fyr­ir­tæki hef­ur greitt hátt lausn­ar­gjald til að ná aft­ur upp sín­um rekstri,“ sagði Theodór í viðtalinu og bætti við að sumir borgi og sumir verði að borga.

„Ef þú ert til dæm­is með fram­leiðslu­línu sem er hætt að virka og þeir eyddu öll­um af­rit­um, þá er ákvörðunin mjög erfið. Ég mæli auðvitað ekki með að borga því þá ertu bara að fóðra brans­ann. Þetta er skipu­lögð glæp­a­starf­semi og það er nóg af þess­um hakkarahópum,“ sagði hann við Morgunblaðið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Neytendastofa slær á fingur Esju Legal – Flugbætur.is veittu rangar og villandi upplýsingar og brutu gegn góðum viðskiptaháttum

Neytendastofa slær á fingur Esju Legal – Flugbætur.is veittu rangar og villandi upplýsingar og brutu gegn góðum viðskiptaháttum
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Landsréttur staðfestir 8 ára fangelsi yfir Heiðari Erni fyrir hrottafullt og margítrekað ofbeldi í nánu sambandi

Landsréttur staðfestir 8 ára fangelsi yfir Heiðari Erni fyrir hrottafullt og margítrekað ofbeldi í nánu sambandi
Fréttir
Í gær

„Kannski eru Íslendingasögurnar okkar hetjusögur af fólki með ofvirkni“

„Kannski eru Íslendingasögurnar okkar hetjusögur af fólki með ofvirkni“
Fréttir
Í gær

RÚV og Sýn fara yfir verkferla

RÚV og Sýn fara yfir verkferla