fbpx
Föstudagur 28.júní 2024
Fréttir

Sverrir hrökk í kút: Algjörlega fáránlegt árið 2024

Ritstjórn DV
Mánudaginn 24. júní 2024 09:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við kvörtum og kveinum yfir því að fólk festist í skjánum og skerðum um leið opnunartíma sundlauganna og sömuleiðis bókasafnanna,“ segir Sverrir Norland, rithöfundur og stjórnarmaður í Rithöfundasambandi Íslands, í aðsendri grein á vef Vísis.

Þar gagnrýnir hann lokun bókasafna í Reykjavík og segir það senda ömurleg skilaboð út til samfélagsins.

Öll átta söfn Borgarbókasafnsins skiptast á að vera lokuð í sumar til að mæta hagræðingarkröfu Reykjavíkurborgar fyrir árið 2024.

Les 3-4 bækur á dag

Í grein sinni bendir hann á að sjö ára dóttir hans plægi sig svo hratt í gegnum bækur að hann á í stökustu vandræðum með að finna nýtt íslenskt lesefi handa henni.

„Ekki er óalgengt að hún lesi þrjár til fjórar bækur á dag. Henni finnst sérstaklega gaman að lesa myndasögur en vílar ekki fyrir sér að lesa bækur án nokkurra myndskreytinga. Þetta hefur hún frá mömmu sinni sem byrjaði að lesa þriggja ára gömul,“ segir Sverrir sem bætir við innan sviga að þegar hann var sjö ára kunni hann varla að skrifa nafnið sitt.

Sverrir segir að dóttur henni finnist einnig gaman að horfa á bíó og teiknimyndir en þar kveðst hann einnig eiga í stökustu vandræðum með að finna efni á íslensku.

„Efnið á streymisveitum RÚV og Símans er heldur fátæklegt í samanburði við Netflix, Disney og frönsku veiturnar sem við notum líka. Oftast er sjónvarpsefnið því á frönsku (stúlkan er tvítyngd) og stundum á ensku (hún er reyndar eiginlega þrítyngd, fædd í Bandaríkjunum).“

Kveðst Sverrir hafa svolitlar áhyggjur af því hvað efni á íslensku er að verða vandfundið, einkum fyrir börn, og best væri ef við ættum vinsæla YouTube-ara og tölvuleiki á íslensku. Það sé þó erfitt, enda markaðurinn lítill.

„Við þurfum þessa staði til að geta talist samfélag“

Sverrir vindur sér svo að lokun bókasafnanna.

„Í þessu ástandi hrökk ég illa í kút þegar Reykjavíkurborg gaf það út fyrir sumarið að það hygðist loka bókasöfnunum á víxl. Krakkarnir eru nýfarnir út í sumarið með skriflegar áskoranir frá kennurum sínum um að lesa daglega og hripa niður yfirlit um lesnar bækur – og á meðan skólasöfnin eru lokuð þá skellir höfuðborg landsins einnig í lás á almenningsbókasöfnunum! Borginni ber þó að reka þær góðu stofnanir lögum samkvæmt. Ekki setur þetta gott fordæmi fyrir önnur sveitarfélög sem leita sjálfsagt logandi ljósi að leiðum til að draga saman seglin og spara. Hagræða. Auka skilvirkni.“

Sverrir segir það algjörlega fáránlegt að árið 2024, þegar velmegun og auður íslenskrar þjóðar hefur aldrei verið meiri, að við höfum „ekki efni á“ að halda bókasöfnunum okkar opnum yfir sumartímann.

„Við kvörtum og kveinum yfir því að fólk festist í skjánum og skerðum um leið opnunartíma sundlauganna og sömuleiðis bókasafnanna. Sama hefur verið uppi á teningnum um árabil t.d. á Englandi. Þar var reyndar um 800 bókasöfnum lokað á árunum 2010-2019. Almennt hefur samkomustöðum fyrir ungmenni fækkað – félagsmiðstöðvum og þess háttar. Um leið lengist skjátíminn, kvíði rýkur upp úr öllu valdi, lesskilningur þverr, námsárangur versnar.“

Hann vísar svo í franska höfundinn Virginie Despantes sem skrifaði í nýlegri skáldsögu eitthvað á þá leið hvernig staðir, þar sem fólk má vera án þess að þurfa að kaupa neitt, eru að hverfa.

„Við þurfum þessa staði til að geta talist samfélag. Bókasöfnin eru skýrustu dæmi um slíka staði og raunar algjörlega mögnuð fyrirbæri sem líkjast nær engu öðru í mannlegu samfélagi nútímans. Og þau eiga að vera opin allan ársins hring, annað er bara skammarlegt. Peningarnir sem sparast á því að hafa þau lokuð nokkrar vikur úr ári munu lítið gera til að rétta af fjárhag Reykjavíkurborgar, en lokanirnar senda hins vegar ömurleg skilaboð út til samfélagsins.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

84 ára karlmaður fær 2 ára skilorð fyrir káf í sundi – Sagði atvikið „venjuleg pottferð“

84 ára karlmaður fær 2 ára skilorð fyrir káf í sundi – Sagði atvikið „venjuleg pottferð“
Fréttir
Í gær

„Kannski eru Íslendingasögurnar okkar hetjusögur af fólki með ofvirkni“

„Kannski eru Íslendingasögurnar okkar hetjusögur af fólki með ofvirkni“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Réttarhöld að hefjast yfir Dagbjörtu vegna morðsins í Bátavogi

Réttarhöld að hefjast yfir Dagbjörtu vegna morðsins í Bátavogi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Suður-Kórea íhugar að láta Úkraínu vopn í té – Ástæðan er heimsókn Pútíns til Norður-Kóreu

Suður-Kórea íhugar að láta Úkraínu vopn í té – Ástæðan er heimsókn Pútíns til Norður-Kóreu