fbpx
Föstudagur 28.júní 2024
Fréttir

Bifreiðastöð á Akureyri kærði framkvæmdastjóra fyrir fjársvik og fjárdrátt – Segja ekkert að frétta af rannsókn lögreglu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 24. júní 2024 19:00

Mynd: Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Forsvarsaðilar Bifreiðastöðvar Oddeyrar (BSO) á Akureyri eru óánægðir með tíðindaleysi af rannsókn lögreglu á meintum brotum fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins. BSO kærði framkvæmdastjórann fyrrverandi til Lögreglunnar á Norðurlandi eystra þann 12. apríl árið 2023. Segja þeir að síðan þá sé ekkert að frétta af rannsókn lögreglu á málinu.

Framkvæmdastjórinn fyrrverandi er kona á fimmtugsaldri sem gegndi starfinu um tveggja ára skeið frá því síðla sumars 2020. Samkvæmt kærunni kom upp á yfirborðið vanræksla og misferli í rekstrinum í ágústmánuði árið 2022. Þá kom í ljós að mikill misbrestur hafði verið á virkisaukaskattskilum, lífeyrissjóðsgreiðslum, sem og staðgreiðslu skatta og tryggingagjalds. Einnig kom í ljós að bókhald hafði ekki verið löglega fært í langan tíma.

Konunni var sagt upp störfum og endurskoðunarskrifstofa var ráðin til að rannsaka fjárreiður fyrirtækisins. Samkvæmt þeirri greiningu, að því er hermir í kærunni til lögreglu, hafði framkvæmdastjórinn ofgreitt sér laun auk þess að greiða sér laun fyrirfram án þess að gera upp þær skuldir. Einnig er á löngu tímabili misræmi á milli skráðrar sölu og innkomu í sjóðsvél.

Það er mat BSO að konan hafi valdið þeim tjóni sem nemur tæplega 37 milljónum króna. Gera þeir fjárkröfu upp á þá upphæð til hennar. Kostnaðurinn felst í meintum fjárdrætti, skuld vegna fyrirframgreiddra launa, ofgreiddum launum, dráttarvöxtum vegna vangreiddra opinberra gjalda sem voru gerð upp eftir að málið kom upp, og sérfræðikostnaði (lögmenn og endurskoðendur) vegna málsins.

„Umbjóðanda mínum er við þessar aðstæður nauðugur sá kostur að kæra framangreinda háttsemi til lögreglu, óska eftir því að málið verði rannsakað og sett í viðeigandi ferli, gefi rannsókn efni til frekari meðferðar,“ segir í kæru lögmanns BSO til lögreglu fyrir hönd félagsins. Segir einnig að sterkar vísbendingar og sönnunargögn bendi til refsiverðra brota konunnar í starfi fyrir BSO árin 2020-2022.

Sem fyrr segir hefur fátt ef nokkuð gerst í rannsókn lögreglu á málinu, samkvæmt forsvarsmönnum BSO, og eru þeir mjög óánægðir með það.

DV sendi fyrirspurn vegna málsins til lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, Páleyjar Borgþórsdóttur, og óskaði eftir upplýsingum um rannsóknina. Greint verður frá svörum hennar síðar ef/þegar þau berast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Autt bílaleiguhús á Keflavíkurflugvelli vekur undrun

Autt bílaleiguhús á Keflavíkurflugvelli vekur undrun
Fréttir
Í gær

84 ára karlmaður fær 2 ára skilorð fyrir káf í sundi – Sagði atvikið „venjuleg pottferð“

84 ára karlmaður fær 2 ára skilorð fyrir káf í sundi – Sagði atvikið „venjuleg pottferð“