„Það varð töluvert tjón en það kemur betur í ljós á morgun varðandi fatnað, teppi, töskur, skinnkraga og fleira,“ segir Tinna Brá Baldvinsdóttir, eigandi hönnunarverslunarinnar Hrím, sem er staðsett á fyrstu hæð Kringlunnar.
Töluvert vatnstjón varð í Kringlunni í gær vegna slökkvistarfs eftir að eldur kviknaði í þaki byggingarinnar. Slökkvilið náði að slökkva eldinn í gærkvöld en hann kviknaði á fjórða tímanum í gærdag. Óvíst er hvenær verslunarmiðstöðin verður opnuð aftur en eigendum verslana var hleypt inn snemma í gærkvöld til að huga að eignum sínum.
Tinna lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir þetta áfall og segir klárt mál að Hrím verði opnuð aftur. En ástandið var mjög erfitt:
„Vörður kom mjög seint á staðinn. Sjóvá var hins vegar komið löngu fyrr og fulltrúar þeirra ráðlögðu mér þó að þetta sé ekki mitt tryggingafélag. Ef ég, mín fjölskylda og mitt starfsfólk hefðum ekki komið á svæðið á hárréttum tíma þá hefði tjónið orðið margfalt meira. Við þurftum að taka þetta í okkar hendur því hvorki slökkvilið né starfsfólk öryggisgæslunnnar var komið og enginn búinn að láta vita. Slökkviliðið var á annarri hæð og þau gátu ekki komist niður á fyrstu hæð fyrr en um kl. 22. Þá vorum við búin að vera sjálf að hamast í þrjá klukkutíma.“
„Ég hreinlega skelf, áfallið og áreynslan voru svo mikil,“ segir Tinna ennfremur en hugur hennar er hjá kollegum hennar í Kringlunni:
„Tjónið er gríðarlegt hjá okkar góðu nágrönnum líka. Ég vona að það gangi vel að koma öllu í stand og að við jöfnum okkur fallega á þessu áfalli. Því áfall er þetta.“
Tinna sendir baráttukveðjur til kollega sinna í Kringlunni á þessum erfiða tíma:
„Ég óska öllum í Kringlunni góðs gengis við að koma sínum rekstri aftur í gang.“