Bandarísk stjórnvöld hafa skilgreint nýnasistasamtökin Norðurvígi sem hryðjuverkasamtök. Samtökin hafa haft starfsemi hér á Íslandi, bæði í Reykjavík og á Akureyri.
Norðurvígi (Nordic Resistance Movement) eru samtök sem stofnuð voru í Svíþjóð en hafa haft starfsemi á öllum Norðurlöndunum. Íslandsdeildin var stofnuð árið 2016 en samtökin eru sterkust í Svíþjóð.
Samtökin hafa komist í fréttir hér á landi þegar þau hafa reynt að breiða út sinn boðskap um útlendinga og kynþáttahatur. Meðal annars hefur bleðlum verið dreift í hús og plaggöt hengd á veggi. Mest áberandi voru samtökin þegar nokkrir meðlimir komu hingað til lands og tóku sér stöðu á Lækjartorgi.
Á Norðurlöndunum hafa liðsmenn Norðurvígis oft komist í fréttir vegna ofbeldis. Árið 2019 voru samtökin bönnuð í Finnlandi. En þar hafði meðlimur Norðurvígis stungið 12 ára barn af erlendum uppruna með hnífi í verslunarmiðstöð.
Í gær, föstudag, voru samtökin opinberlega skilgreind sem hryðjuverkasamtök af bandaríska innanríkisráðuneytinu. Einnig nokkrir af helstu leiðtogunum, það er Tor Fredrik Vejdeland, Par Oberg og Leif Robert Eklund. Borið hefur á því að meðlimir Norðurvígis hafi myndað tengsl við nýnasistahópa í Bandaríkjunum.
„Meðlimir hópsins og leiðtogar hans hafa ráðist með ofbeldi á pólitíska andstæðinga sína, mótmælendur, blaðamenn og aðra sem þeir líta á sem óvini sína,“ segir í yfirlýsingu ráðuneytisins. Er þetta hluti af stefnu Biden stjórnarinnar í að takast á við öfgahópa af meiri hörku en áður.