Rúta með 22 farþega og ökumann lenti í slysi á Öxnadalsheiði, skammt frá Fagranesi, nú síðdegis, samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra.
Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að lögreglan er búin að loka veginum yfir Öxnadalsheiði vegna slyssins. Óvíst er hve lengi vegurinn verður lokaður.
RÚV greinir frá að ekki hafa fengist upplýsingar um meiðsl á fólki. Vísir greinir frá að tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar og tvær flugvélar hafi verið kallaðar út til sjúkraflugs.
Fjöldi viðbragðsaðila er á vettvangi og á leið á vettvang. Óskað var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar og er ein þeirra á leiðinni. Samhæfingarstöð almannavarna hefur verið virkjuð og hópslysaáætlun sömuleiðis.
Í tilkynningu á vef lögreglunnar á Norðurlandi eystra kemur fram að tilkynning um slysið barst rétt fyrir klukkan 17. Rútan hefði oltið og fjöldi farþega væru slasaðir.
Uppfært kl. 19.00:
Samkvæmt færslu á Facebook-síðu er vegurinn enn lokaður og verður jafnvel fram á nótt. Ökumenn sem þurfa að komast á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar í kvöld eru hvattir til að fara fyrir Tröllaskagann í gegnum Siglufjörð og Ólafsfjörð.