Kona að nafni Sandra stefndi Sjóklæðagerðinni vegna vangoldinna launa að fjárhæð 352.457 kr. Taldi konan ágreining aðila snúast annars vegar um vangoldin laun og hins vegar um hvort unnt sé að segja upp ráðningarsamningi með þeim hætti að slit hans geti verið bæði tímabundin með þeim réttaráhrifum sem lög kveða á um og með kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti.
Aðilar skrifuðu undir tímabundinn ráðningarsamning 22. mars 2022. Samkvæmt samningnum var konan ráðin tímabundið frá 24. febrúar 2022 til 31. ágúst 2022. Var um hlutastarf að ræða og átti samningnum að ljúka án uppsagnar. Þann 13. maí 2022 var konunni sagt upp störfum með bréfi þar sem fram kom að uppsögnin væri með einnar viku fyrirvara. Síðasti starfsdagurinn var því 20. maí 2022.
VR sendi fyrirtækinu bréf þar sem uppsögninni var mótmælt og Sjóklæðagerðin krafin um vangreidd gjöld út samningstímann, samtals 1.066.622 krónur. Samtök atvinnulífsins svöruðu kröfunni þann 1. júlí 2022 og staðfestu vangreidd laun að fjárhæð 10.897 kr. vegna mismunar á launataxta, að öðru leyti var kröfunni hafnað. Sjóklæðagerðin greiddi þá upphæð ásamt vöxtum 12. desember 2023.
Í dómi Héraðsdóms Reykjaness er það rakið að konan hafi verið námsmaður sem var að leita að tímabundnu starfi til loka ágúst er hún færi aftur í skólann þá um haustið. Taldi konan að samningur sem feli í sér endi án uppsagnar og sé einnig með heimild til uppsagnar sé óskýr enda lýstur saman tveimur ákvæðum um lok samnings sem fari ekki saman og skapi réttaróvissu gagnvart konunni.
Hún taldi fyrirtækið einnig í yfirburðastöðu gagnvart sér og allan vafa hvað samninginn varðaði ætti að skýra fyrirtækinu í óhag. Konan gerði því kröfu um laun skv. tímabundnum samningi frá uppsögn hans þann 13. maí til loka júní er hún hóf störf hjá nýjum vinnuveitanda.
Fyrirtækið taldi sig ekki skulda konunni laun, henni hafi verið sagt upp á lögmætan hátt með samningsbundnum uppsagnarfresti skv. ákvæðum ráðningarsamnings aðila, sem byggi á umsömdum uppsagnarákvæðum kjarasamnings SA og VR. Fyrirtækið hafi aldrei lofað konunni óuppsegjanlegri tímabundinni ráðningu. Tímabundin ráðning til starfa fram á haust hafi verið með skýrum fyrirvara um gagnkvæman uppsagnarfrest beggja aðila á því tímabili.
Dómari sagði að í ráðningarsamningi aðila kemur „skýrt fram að ráðningarsamningurinn sé uppsegjanlegur með þeim fyrirvara sem kjarasamningur kveði á um. Ákvæði þetta er jafn skýrt og önnur ákvæði samningsins, s.s. um neysluhlé, lífeyrissjóð, trúnað og tilkynningar um veikindi. Ósannað er að stefnanda hafi ekki verið kynnt ákvæði samningsins. Stefnandi var tæplega 25 ára þegar hún undirritaði samninginn og er hafnað þeirri málsástæðu hennar að stefndi hafi verið með yfirburðastöðu gagnvart henni við gerð samningsins.“
Dómarinn benti jafnframt á að ef ekki væri heimilt að segja tímabundnum samningum upp, að lögbundnum skilyrðum uppfylltum, „gæti það skaðað launþegann, ef forsendur bresta fyrir vinnuframlagi hans og fyrir atvinnurekandann geti hann af einhverjum ástæðum ekki uppfyllt skyldur sínar. Væru þeir launþegar sem hefðu tímabundna ráðningarsamninga þá jafnvel betur settir en almennir launþegar með ótímabundna ráðningarsamninga.“
Taldi dómari því að fyrirtækinu hefði verið heimilt að segja konunni upp störfum enda fyrirvari um það í ráðningarsamningi hennar. Var Sjóklæðagerðin því sýknuð af kröfu konunnar, sem gert var að greiða fyrirtækinu 500.000 kr. í málskostnað.