Skiptalok hafa orðið í þrotabúi félagsins Héðinn veitingar ehf. Lýstar kröfur voru um 105,5 milljónir króna en um þrjár og hálf milljón króna fékkst upp í kröfur. Tilkynning um þetta er birt í Lögbirtingablaðinu í dag.
Félagið rak veitingastaðinn Héðinn Kitchen & Bar, að Seljavegi 2 í Reykjavík. Skráður eigandi að Héðni Veitingum ehf. er Karl Viggó Vigfússon (kallaður Viggó) en félagið var úrskurðað gjaldþrota 25. janúar 2023.
Veitingastaðurinn Héðinn Kitchen & Bar var opnaður sumarið 2021 af þeim æskuvinum, Viggó og Elíasi Guðmundssyni, í sögufrægu húsi stálsmiðjunnar Héðins. Í viðtali við þá félaga á Vísir.is skömmu eftir opnun staðarins sagði Elías að með staðnum hefði æskudraumur þeirra félaga ræst. Héðinn Kitchen & Bar gekk vel í byrjun en halla fór undan fæti í Covid-faraldrinum. Eftir gjaldþrotið í fyrra var staðurinn rekinn áfram á nýrri kennitölu en hann hefur nú hætt starfsemi.
DV hafði samband við Viggó í tilefni af skiptalokunum en vildi hann ekki tjá sig um málið. Hann gat þó staðfest að Héðinn Kitchen & Bar er ekki lengur opinn. Viggó hefur verið viðriðinn rekstur nokkurra veitingastaða í borginni við góðan orðstír, m.a. Black Box Pizza og Amber & Astra.