Skúli Óskarsson, fyrrverandi kraftlyftingamaður og tvöfaldur íþróttamaður ársins, er látinn. Skúli var 75 ára að aldri. Hann lést á hjartadeild Landspítalans í gær, sunnudaginn 9. júní.
Skúli var fæddur árið 1948 á Fáskrúðsfirði, var hálfur Færeyingur og átti tvíburabróður. Eftir að hann byrjaði í kraftlyftingum setti hann hvert Íslandsmetið á fætur öðru.
Skúli varð frægur þegar hann setti heimsmet í kraftlyftingum árið 1980, 515,5 kíló, í beinni útsendingu í sjónvarpi. Samdi Laddi um hann lag á þessum tíma sem heitir einfaldlega Skúli Óskarsson.
Hann var valinn íþróttamaður ársins árið 1978 og 1980. Árið 2018 var hann tekinn inn í heiðurshöll ÍSÍ.
Árið 2018 var Skúli í ítarlegu helgarviðtali við DV. Þá var rætt um ýmislegt tengt ferlinum og kraftasporti.
Skúli lætur eftir sig eiginkonu, eina dóttur, tvær stjúpdætur og átta barnabörn.