fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fréttir

Uppnám og skiptar skoðanir í Laugarási vegna manns sem hótar að fanga ketti – „Ég veit að þetta er svolítið heit kartafla“

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 1. júní 2024 15:54

Mynd frá Laugarási. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. Mynd: Wikimedia Commons

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nokkurt uppnám en um leið skiptar skoðanir eru í hópi íbúa þorpsins Laugaráss, sem tilheyrir sveitarfélaginu Bláskógabyggð á Suðurlandi, á Facebook vegna manns sem hefur látið það skýrt í ljós í hópnum að hann sé búinn að fá nóg af lausagöngu katta á lóð sinni. Birti hann mynd af búri sem hann keypti og segist ætla að fanga kettina í það. Í hópnum er þessum fyrirætlunum hans mótmælt harðlega en þó eru einhverjir sem segja manninn í fullum rétti. Fullyrðir maðurinn að talsvert sé um lausagöngu villikatta í þorpinu sem hafi reynst fuglum mjög skaðlegt.

Birti maðurinn mynd af búrinu í færslu sem hann setti í hópinn í gær og skrifar við myndina:

„Þá er það komið frá alifrænda og kettirnir geta farið að vara sig.“

Þar á maðurinn væntanlega við netverslunina Ali-Express.

Fjöldi athugasemda hefur verið ritaður við færsluna þar sem viðkomandi lýsa meðal annars áhyggjum af köttum sínum og gera harðorðar athugasemdir við fyrirætlanir mannsins. Einhverjir telja fullvíst að um sé að ræða ólöglegt athæfi og segjast ætla að kæra manninn til Matvælastofnunar (MAST) og lögreglu:

„Ég mun klárlega tilkynna þessa gildru þína til viðeigandi stofnunar… myndi sleppa þessu ef ég væri í þínum sporum.“

„Lausaganga katta er leyfð i sveitarfélaginu og þar með talið í þínum garði. Þú ert að brjóta lög með þessari pínulitlu gildru.“

„Tilkynna þennan mann til lögreglu og mast. Þú hefur ekkert leyfi til að veiða ketti.“

„Vá hvað ég vona að þetta sé bara djók. Efast samt um það. Þetta mun vera viðbjóðslegt dýraníð sem er margfalt ógeðslega en eðli kattar ef þú ert ekki með tilsett leyfi til þess að fanga ketti. Ég vona að þú hugsir þig aðeins um áður en þú setur þessa gildru þína upp.“

Sé í fullum rétti

Þó eru einhverjir sem taka til máls í hópnum og segja manninn í fullum rétti að fanga ketti á sinni eigin lóð:

„Ef þetta búr er á hans lóð getið þið ekkert gert, hann hefur sinn rétt að vera í kattalausum garði. Ég vil ekki fá kisur í minn garð eða inn, hér er ofnæmi og það skráð ofnæmi ekki ímyndað eins og hjá mörgum og hef þurft að nota svona búr.“

„Hér eru reglur um kattahald. Kattahald á ekki að valda hávaða, ónæði, óþrifnaði eða óhollustu. Ef köttur veldur nágranna ónæði, óþrifum eða tjóni, ber eiganda eða forráðamanni að koma í veg fyrir slíkt.“

Fréttamaður DV hafði samband við manninn sem var fús að svara spurningum um þessar umdeildu fyrirætlanir sínar.

Hann segir að það sé einkum lausaganga villikatta sem rekið hafi hann til að grípa til þessara aðgerða. Hann fullyrðir að hún sé mikið vandamál í Laugarási og nágrenni þess. Afleiðingarnar hafi ekki síst orðið þær að fækkun hafi orðið í fuglastofnum á svæðinu. Maðurinn segist gera sér grein fyrir að líkur séu á því að heimiliskettir í eigu annarra íbúa í þorpinu muni enda í búrinu en það eigi ekki að vera vandamál séu þeir örmerktir. Aðalatriðið sé að kettir eigi ekki að fá að drepa fugla óáreittir.

Í reglugerð um velferð gæludýra kemur skýrt fram að umráðamenn katta skuli örmerkja þá.

Heit kartafla

Maðurinn segist gera sér grein fyrir því uppnámi og deilum sem fyrirætlanir hans hafa valdið:

„Ég veit að þetta er svolítið heit kartafla.“

Hann segist munu koma öllum köttum sem hann fangi til sveitarfélagsins, en einhverjir sem mótmæla í íbúahópnum virðast gera ráð fyrir að maðurinn ætli að drepa kettina. Því vísar maðurinn á bug og segist ætla sér að koma köttunum lifandi til sveitarfélagsins.

Maðurinn segir að lítið hafi verið hlustað á athugasemdir hans vegna lausagöngu katta og sveitarfélagið og samtökin Villikettir á Suðurlandi, sem hafa það að markmiði að bæta líf útigangskatta á Íslandi, hafi sýnt því lítinn áhuga að gera eitthvað í málinu.

Með þessum aðgerðum sínum segist maðurinn hafa viljað koma hreyfingu á málið og ýta við öðrum íbúum á svæðinu svo þeir hafi hemil á þeim köttum á svæðinu sem sannarlega eigi heimili, ásamt því að stuðla að því að eitthvað verði gert vegna villikatta. Hann segir að mikið sé um það í sveitarfélaginu að ekki sé hirt um að örmerkja ketti til að mynda þá sem séu tiltölulega nýkomnir í heiminn og hafi verið komið á önnur heimili.

Maðurinn segir að kettir hafi valdið sér og fjölskyldu sinni þó nokkrum ama en fuglarnir hafi farið verst út úr samskiptum sínum við kettina. Hann segir til að mynda að þrastapar hafi verpt í garði hans reglulega í fjögur ár þar til það hafi orðið ketti að bráð. Parið hafi einnig aðeins náð að koma einum unga á legg. Hinir hafi líklega endað í kjafti katta þó ekki sé útilokað að ránfuglar hafi náð þeim.

Maðurinn segir einnig að hann og eiginkona hans hafi verið með sandkassa á lóð sinni sem ætlaður hafi verið fyrir barnabörn þeirrra en það hafi reynst vonlaust þar sem kettir hafi gert reglulega þarfir sínar í hann.

Telur ketti ekki mega vera á hans lóð

Aðspurður um hvernig hann svari þeim fullyrðingum að fyrirætlanir hans séu ólöglegar segist maðurinn ekki hafa séð nein lög sem banni honum að fanga dýr á hans eigin lóð.

Almennt hefur verið litið svo á að lausaganga katta sé heimil hér á landi. Í áðurnefndri reglugerð er ekki beinlínis tekið fram að kettir megi ganga lausir en þó segir í henni að þeir megi ekki vera eftirlitslausir í meira en sólarhring og að umráðamenn þeirra verði að gera ráðstafanir til að fanga þá sleppi þeir úr haldi.

Engar reglur um kattahald eða lausagöngu katta í sveitarfélaginu er að finna á heimasíðu Bláskógabyggðar.

Í reglugerðinni segir að við föngun katta megi nota búr sem er minnst 80 sentímetrar á hæð. Einhverjir sem mótmæla manninum í íbúahópnum segja að af myndinni af búrinu að dæma uppfylli það ekki þetta skilyrði. Maðurinn fullyrðir að svo sé.

Ekki er minnst á í reglugerðinni að sérstakt leyfi þurfi til að fanga ketti en einhverjir andmælendur mannsins vísa í reglur Umhverfisstofnunar um að sérstakt leyfi þurfi til að fanga hvers kyns dýr.

Maðurinn tjáði fréttamanni DV að lokum að hann hefði enga sérstaka ánægju af því að standa í að fanga kettina. Búrið hafi ekki verið notað enn sem komið er en hann segist hafa ekkert orðið var við ketti á lóð sinni og í næsta nágrenni eftir að hann sýndi myndina af búrinu í íbúahópnum. Hann segist viðbúinn því að vera kærður til MAST og lögreglu en enn sem komið er hafi hann ekki fengið upplýsingar um að það hafi verið gert með formlegum hætti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Lögregla fór í óvenjulegt útkall í Hafnarfjörð í gærkvöldi

Lögregla fór í óvenjulegt útkall í Hafnarfjörð í gærkvöldi
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Felldu 500 norðurkóreska hermenn í fyrstu árásinni með bresku flugskeyti

Felldu 500 norðurkóreska hermenn í fyrstu árásinni með bresku flugskeyti
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

FA kvarta til Umboðsmanns Alþingis vegna reglugerðar Willums um kúkabrúnar tóbaksumbúðir

FA kvarta til Umboðsmanns Alþingis vegna reglugerðar Willums um kúkabrúnar tóbaksumbúðir
Fréttir
Í gær

Lukka bregst við „árásum“ embættis landlæknis – „Hulin ráðgáta hvers vegna Alma Möller er á móti heilsueflandi forvarnarstarfsemi“

Lukka bregst við „árásum“ embættis landlæknis – „Hulin ráðgáta hvers vegna Alma Möller er á móti heilsueflandi forvarnarstarfsemi“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir Sjálfstæðisflokkinn víst boða skattalækkun á þá efnamestu – „Glittir líka hressilega í undirlægjuhátt Sjálfstæðismanna“

Segir Sjálfstæðisflokkinn víst boða skattalækkun á þá efnamestu – „Glittir líka hressilega í undirlægjuhátt Sjálfstæðismanna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Krafan um bann við laxeldi er krafa um að svipta fólki vinnunni, voninni og eignunum“

„Krafan um bann við laxeldi er krafa um að svipta fólki vinnunni, voninni og eignunum“