Konu var bjargað fyrr í dag þegar svokallaður „buggy-bíll“ sem hún ók valt út í Krossá, í Þórsmörk.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.
Í tilkynningunni segir að konan hafi ekið bílnum á vegslóða sem liggur ofan á varnargarði við Goðaland þegar hann valt niður garðinn og út í á.
Björgunarsveitir sitt hvoru megin Markarfljóts, frá Hvolsvelli og undan Eyjafjöllum hafi verið kallaðar út um klukkan 10 mínútur yfir tvö, ásamt sjúkraflutningafólki.
Í tilkynningunni segir enn fremur að ökumaður buggy bílsins virðist hafa losnað úr bílnum við veltuna og verið föst við hann. Nærstaddir hafi náð að koma henni strax til aðstoðar og losa hana frá bílnum og upp úr ánni.
Svo heppilega hafi viljað til að inn á Goðalandi var staddur hópur lækna á ferðalagi sem hafi þegar farið á staðinn og hlúð að þeirri sem slasaðist meðan björgunarsveitir fluttu sjúkraflutningafólk inn að Goðalandi. Þeir hafi metið ástandið þannig að rétt væri að kalla til þyrlu.
Björgunarsveitir og sjúkraflutningar hafi verið komin á staðinn klukkan 15 og þyrla um 15:35 og hafi þá konan verið flutt um borð í hana.
Að lokum segir í tilkynningunni að björgunarsveitir hafi farið því næst í það verkefni að ná bílnum úr ánni. Því verki var lokið um hálf fimm í dag og héldu björgunarsveitir þá til baka.
Nokkrar myndir frá aðgerðum má sjá hér fyrir neðan: