Fimmti í röð forsetaframbjóðenda, sem mest fylgi hafa verið með í könnunum, til að kjósa í forsetakosningunum í dag var Jón Gnarr. Hann greiddi atkvæði sitt í Vesturbæjarskóla núna klukkan 13:00. Ljósmyndari DV var á staðnum.
Jón hefur yfirleitt verið í fimmta sæti í könnunum og möguleikar hans á að sigra í kosningunum virðast því ekki vera miklir. Jón sem gert hefur það að ævistarfi sínu að gleðja fólk hefur lagt nokkra áherslu á það í sinni kosningabaráttu að auka gleðina í kringum forsetaembættið. Í kappræðum RÚV í gærkvöldi lagði hann hins vegar þunga áherslu á að hann gæti að sjálfsögðu verið alvarlegur ef þörf væri á og tekið erfiðar ákvarðanir. Vísaði Jón þá ekki síst til tíðar sinnar sem borgarstjóri í Reykjavík því til rökstuðnings að hann geti verið alvarlegur þegar á þarf að halda.
Helsta vandamál Jóns í kosningabaráttunni hefur verið lítið fylgi meðal eldra fólks en hvort gleðigjafinn þjóðkunni komi á óvart og endi á Bessastöðum þrátt fyrir það á tíminn einn eftir að leiða í ljós.
Nokkrar myndir af Jóni á kjörstað ásamt eiginkonu sinni Jógu Gnarr Jóhannsdóttur, hluta barna þeirra og heimilishundinum Klaka eru hér að neðan: