fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Svört skýrsla um rekstur hestamannafélagsins Fáks – Fullyrðingar um svartar launagreiðslur, ólöglegt vinnuafl og óeðlileg vildarkjör – Formaður félagsins segir skýrsluna einhliða og ekki gefa rétta mynd

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 9. maí 2024 09:00

Hestamannafélagið Fákur rekur reiðhöllina í Víðidal. Skjáskot/Ja.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í skýrslu fyrrverandi gjaldkera hestamannafélagsins Fáks í Reykjavík, sem DV hefur undir höndum, eru margvíslegar athugasemdir gerðar við rekstur félagsins, á síðasta ári. Í skýrslunni er því meðal annars haldið fram að framkvæmdastjóri félagsins hafi viðhaft vafasama viðskiptahætti með fé félagsins og stundað viðskipti á vegum þess í heimildarleysi við sér tengda aðila, sem hafi meðal annars falið í sér svartar launagreiðslur. Fullyrt er einnig að framkvæmdastjórinn og aðilar honum tengdum hafi notið óeðlilegra vildarkjara á leigu sem greidd er fyrir að fá að geyma hesta í húsi félagsins. Einnig er því haldið fram að einstaklingar sem hafa ekki atvinnuleyfi á Íslandi hafi verið að störfum fyrir félagið og að kennitala þriðja aðila hafi verið fengin að láni til að hægt væri að greiða viðkomandi. Sagði gjaldkerinn sig úr stjórn félagsins vegna alls þessa. Formaður Fáks segir skýrsluna hins vegar vera einhliða og ekki rétta að öllu leyti. Hann segir gjaldkerann fyrrverandi ekki hafa viðrað áhyggjur sínar við sig eða aðra stjórnarmenn fyrir úrsögn sína úr stjórninni.

Fákur hefur notið talsverðra styrkja úr sjóðum hins opinbera. Í lok síðasta árs var kynnt samkomulag milli félagsins og Reykjavíkurborgar um að borgin myndi styrkja félagið vegna nauðsynlegra framkvæmda á félagssvæði þess í Víðidal vegna Landsmóts hestamanna sem verður haldið þar í júlí næstkomandi. Samkvæmt samkomulaginu skyldi borgin greiða Fáki alls 30 milljónir króna vegna mótsins, 20 á síðasta ári og 10 á þessu ári. Nýlega var síðan kynnt samkomulag við Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, um að ríkið myndi styrkja mótið um 20 milljónir króna. Gerði ráðherrann þetta samkomulag við sameiginlegt félag Fáks og hestamannafélagsins Spretts í Kópavogi.

Fákur hefur einnig notið fleiri styrkja frá Reykjavíkurborg ekki síst til reksturs reiðhallarinnar í Víðidal. Ársreikningur félagsins fyrir síðasta ár er ekki til reiðu á heimasíðu félagsins, þegar þessi orð eru rituð, en samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2022 styrkti borgin félagið um 17,8 milljónir króna til að reka reiðhöllina og árið 2021 um 17,1 milljón. Félagið hlaut einnig styrki frá borginni til greiðslu fasteignagjalda af fasteignum sínum en sá hæsti árið 2022 var 1,8 milljón króna.

Hafi ekki rætt efni skýrslunnar við hann

Í skriflegu svari við fyrirspurn DV segir Hjörtur Bergstað formaður Fáks að gagnstætt því sem haldið er fram í skýrslunni, sem hann kallar raunar bréf, hafi gjaldkerinn fyrrverandi ekki gert tilraun til að ræða efni hennar við hann eða aðra stjórnarmenn fyrir úrsögn sína úr stjórn Fáks:

„Fyrst vil ég byrja á því að skýra frá því að fyrrverandi gjaldkeri félagsins sagði sig frá störfum fyrir félagið í desember án þess að gefa stjórn á því nokkra skýringu, né leita eftir því við stjórn félagsins að ræða efni bréfsins. Eðlilegur farvegur fyrir þær athugasemdir sem hún hafði fram að færa hefði verið að óska eftir því við stjórn félagsins að ræða þær án aðkomu framkvæmdastjóra en það gerði hún hins vegar ekki. Því gafst stjórn félagsins ekki tækifæri til að bregðast við þeim upplýsingum sem í bréfinu koma fyrr en eftir að hún hafði sagt sig úr stjórn félagsins. Stjórn félagsins hefur þakkað henni fyrir ábendingarnar og hefur brugðist við þeim á vettvangi stjórnar.“

Fullyrðingar um heimildarlaus viðskipti til nátengdra aðila

Í umræddri skýrslu gjaldkerans fyrrverandi, sem var kjörinn í embættið á aðalfundi Fáks í maí 2023, eru í fyrsta lagi margvíslegar athugasemdir gerðar við rekstur svokallaðs félagshesthús félagsins. Um félagshesthúsið segir á heimasíðu félagsins að það sé hugsað fyrir börn og unglinga á aldrinum 10-18 ára sem eru að stíga sín fyrstu skref í hestamennsku og eiga ekki aðstandendur sem leggja stund á hana. Í hesthúsinu sé umsjónarmaður sem hægt sé að leita til varðandi létta aðstoð eða ráðleggingar varðandi hestana.

Samkvæmt heimildarmönnum DV hefur Fákur hlotið styrki frá borginni til reksturs félagshesthússins. Samkvæmt ársreikningum félagsins fyrir árin 2022 og 2021 eru þó tekjur vegna reksturs þess einkum sagðar fólgnar í leigutekjum sem á árinu 2022 voru 4,9 milljónir króna. Fram kemur á heimasíðu Fáks að mánaðargjald í félagshesthúsinu fyrir hvern hest sé 32.000 krónur, fyrir börn, unglinga og ungmenni en 45.000 krónur fyrir fullorðna sé laust pláss fyrir þá. Innifalin séu gjafir, hey og undirburður. Hægt er að leigja pláss til 3 mánaða í senn, yfir vetrartímann en ekki kemur fram hversu mörg geta leigt pláss í einu. Tekið er fram að hægt sé að nýta frístundastyrki sveitarfélaga til að greiða leiguna.

Í skýrslunni kemur fram að á síðasta ári hafi Mennta- og barnamálaráðuneytið styrkt rekstur félagshesthússins sérstaklega.

Í skýrslunni er gerð sérstök athugasemd við að samkvæmt ársreikningum áranna 2021 og 2022 hafi kostnaður við „hey, spænir, umsjón og losun á taði“ í rekstri félagshesthússins aukist úr 4,2 milljónum króna, á milli ára, í 6,4 milljónir króna, eða um tæp 50 prósent.

Gjaldkerinn segist hafa vegna þessara miklu hækkunar fylgst sérstaklega með rekstri félagshesthússins á árinu 2023 eftir að hafa tekið þetta hlutverk að sér. Gjaldkerinn segist hafa séð útgefna reikninga í bókhaldi Fáks fyrir sölu á talsverðu magni af hey og spæni. Þeir reikningar hafi verið tekjufærðir með leigu í félagshesthúsinu og aðeins einn kaupandi verið að þessu, eiginkona framkvæmdastjóra félagsins, Einars Gíslasonar.

Í skýrslunni er fullyrt að formaður félagsins, Hjörtur Bergstað, hafi staðfest með munnlegum hætti að framkvæmdastjórinn hefði ekki haft heimild til þessara viðskipta. Framkvæmdastjórinn hafi í raun verið að selja, í heimildarleysi, sér tengdum aðila aðföng úr félagshesthúsinu á verðlagi sem hann hefði ákvarðað sjálfur.

Ekki eðlilegt og framkvæmdastjórinn áminntur

DV sendi bæði Hirti formanni og Einari framkvæmdastjóra ítarlegar spurningar, í skriflegu formi, um helstu atriði sem fram koma í skýrslunni. Úr varð að Hjörtur svaraði fyrir hönd Fáks.

Aðspurður um fullyrðingar í skýrslunni um sölu framkvæmdastjórans á heyi og spæni úr félagshesthúsinu til eiginkonu sinnar segir Hjörtur að ábendingar gjaldkerans um það hafi reynst réttmætar en þó sé ekki rétt að framkvæmdastjórinn hafi ákveðið verðið sjálfur. Þetta sé ekki eðlilegt og framkvæmdastjórinn hafi verið áminntur:

„Í bréfi fyrrum gjaldkera félagsins kemur fram að framkvæmdastjóri félagsins hafi selt eiginkonu sinni aðföng úr félagshesthúsi. Málið var kannað og reyndist ábendingin réttmæt. Hins vegar voru aðföngin seld á kostnaðarvirði, þ.a. það er ekki rétt hjá fyrrum gjaldkera að hann hafi sjálfur ákveðið verðið, heldur greiddi hann það sama fyrir aðföngin og félagið hafði keypt þau á. Þetta var að sjálfsögðu ekki eðlilegt og hefur framkvæmdastjórinn verið áminntur. Hafa allir útgefnir reikningar vegna þessa verið greiddir upp að fullu.“

Segir um svartar launagreiðslur að ræða

Í skýrslunni er einnig fullyrt að framkvæmdastjórinn hafi í raun staðið fyrir því að greiða sínum eigin föður hluta launa hans, fyrir að hafa umsjón með félagshesthúsinu, svart.

Gjaldkerinn fyrrverandi segist hafa fengið staðfestingu á því frá framkvæmdastjóranum að hann hefði gert munnlegt samkomulag, á síðasta ári, við föður sinn um að hann hefði umsjón með félagshesthúsinu og fengi í staðinn 150.000 krónur á mánuði í verktakalaun og að vera með tvo hesta þar sér að kostnaðarlausu. Það hafi komið á óvart að þetta samkomulag hafi ekki verið borið undir stjórn félagsins því það byggðist að hluta til á svartri starfssemi, þar sem verið væri að taka út aðföng á kostnað félagssjóðs.

Gjaldkerinn fyrrverandi segist einnig hafa fengið þær upplýsingar að umsjónarmaðurinn gæti ekki gefið út reikninga og ekki mætti gefa út verktakamiða fyrir tveimur reikningum hans sem gefnir hefðu verið út á fyrri hluta ársins þar sem það hefði verið sagt raska fjármálum hans.

Gjaldkerinn segir að í uppgjöri umsjónarmanns fyrir tímabilið janúar til september 2023 hafi komið í ljós að umsjónarmaðurinn hafi átt að fá 755.000 krónur greiddar en af þeim hafi 455.000 krónur verið ógreiddar. Lagt hafi verið til að þetta yrði greitt með aðföngum til umhirðu hesta sem umsjónarmaðurinn hefði verið með í húsinu yfir sumartímann. Í skýrslunni er skjáskot af Excel-skjali sem sagt er vera frá framkvæmdastjóranum og virðist skjalið staðfesta þessa tillögu.

Gjaldkerinn fyrrverandi segist telja að skuldajöfnun af þessu tagi sé svört launagreiðsla, því verktakalaunum sé skuldajafnað upp í rekstur á eigin hestum með aðföngum án viðkomu í bókhaldi. Gjaldkerinn segist hafa óskað ítrekað eftir leiðréttingu á þessum tekju- og gjaldfærslum í bókhaldi félagsins, því hafi hins vegar ekki verið sinnt.

Hafi borgað leigu

DV spurði Hjört formann um þessar fullyrðingar um að umsjónarmaðurinn hafi fengið að geyma hesta sína endurgjaldslaust í félagshesthúsinu og að hann hafi í raun fengið svartar launagreiðslur. Einnig var hann spurður um þær fullyrðingar að farið hafi verið fram á að umsjónarmaðurinn þyrfti ekki að gefa út reikninga vegna vinnu sinnar og að ekki væru gefnir út verktakamiðar vegna reikninga sem þegar hefðu verið gefnir út.

Hjörtur segir þessar fullyrðingar ekki vera réttar. Umsjónarmaðurinn hafi sannarlega borgað fyrir að fá að geyma hesta sína í félagshesthúsinu og það sé heldur ekki rétt að sérstaklega hafi verið beðið um að gefa ekki út reikninga eða verktakamiða vegna vinnu umsjónarmannsins:

„Það er ekki rétt með farið að framkvæmdastjórinn hafi vistað hesta í sinni eigu endurgjaldslaust og að um svarta launagreiðslu hafi verið að ræða. Umsjónarmaður greiðir að sjálfsögðu leigu fyrir afnot af félagshesthúsi og sendir jafnframt verktakareikninga á félagið fyrir sinni vinnu. Verktakamiðar hafa verið sendir fyrir öllum vinnulaunum.“

DV spurði Hjört einnig um það atriði í skýrslunni er laut að annarri meintri svartri launagreiðslu til umsjónarmannsins með því að ógreidd laun hans, sem námu 455.000 krónum, yrðu skuldajöfnuð með því að hann fengi að taka út aðföng fyrir hestana sína og þetta hafi verið gert án viðkomu í bókhaldi félagsins.

Hjörtur vísar þessu einnig á bug:

„Það er ekki rétt með farið að verktaka vinnulaun hafi verið skuldajöfnuð án viðkomu í bókhaldi félagsins,“ segir Hjörtur og vísar til svars síns við spurningum um meint vildarkjör umsjónarmannsins og fullyrðinga um að ekki hafi verið gefnir út verktakamiðar vegna vinnu hans:

„Ekki er um svarta launagreiðslu að ræða og verktakamiðar hafa verið sendir fyrir öllum greiðslum til viðkomandi verktaka.“

Hafi viljað borga minna fyrir eigin hesta

Í skýrslunni segir ennfremur að í lok ágúst á síðasta ári hafi verið gerður nýr samningur við umsjónarmanninn á grunni nýrrar gjaldskrár og þeirrar staðreyndar að öll aðföng eins og hey hefðu hækkað í verði umfram hækkanir á leigu í félagshesthúsinu. Nýi samningurinn hafi verið samþykktur af stjórninni og tekið gildi 1. október. Samkvæmt honum átti að greiða umsjónarmanninum 7.000 krónur fyrir hvern hest barna sem hann hefði umsjón með.

Eins og áður segir hljóðar núverandi gjaldskrá upp á að gjald fyrir hvern hest í félagshesthúsinu sé 32.000 krónur á mánuði fyrir börn og ungmenni en 45.000 krónur fyrir fullorðna og kemur það skýrt fram á heimasíðu Fáks. Gjaldkerinn segir í skýrslunni að samkvæmt uppgjöri framkvæmdastjórans fyrir október og nóvember 2023 hafi hann sjálfur og umsjónarmaðurinn báðir borgað sama gjald og börn fyrir að hafa hesta í húsinu. Í skýrslunni er skjáskot af Excel-skjali sem virðist staðfesta þetta og samkvæmt því hafa fleiri fullorðnir einstaklingar verið rukkaðir um barnagjaldið.

Gjaldkerinn segir að sig og framkvæmdastjórann hafi greint á um þetta og að gjaldkerinn hafi talið að með þessu væri ekki verið að virða samþykktir stjórnarinnar.

Gjaldkerinn segir í skýrslunni að nauðsynlegt sé að leiðrétta bókhald Fáks til að það gefi sem réttasta mynd af rekstri félagshesthússins. Aðföng sem ekki fari til rekstur félagshesthússins og tekjur því tengdar verði færð á sérstaka bókhaldslykla sem sýni stöður á þeim viðskiptum, með þessu sé vísað til sölu á aðföngum til eiginkonu framkvæmdastjórans. Einnig er lagt til að húsaleiga og aðföng hesta framkvæmdastjóra og umsjónarmanns félagshesthússins verði tekjufærð á gjaldi er miðist við húsaleigu fyrir fullorðna einstaklinga. Með þessu sé gjaldkerinn að setja fram álit sem vísi í nauðsyn þess að farið sé eftir almennum bókhaldsreglum og góðum reikningsskilavenjum, svartar launagreiðslur eigi enga samleið með starfsemi Fáks.

Hefð fyrir afslætti af leigunni

DV spurði Hjört Bergstað formann Fáks hvort það væri rétt að framkvæmdastjórinn og umsjónarmaður félagshesthússins hefðu greitt sömu leigu og börn fyrir að geyma hesta sína í félagshesthúsinu. Hjörtur staðfesti að svo væri. Það væri löng hefð fyrir slíkum afslætti og að stjórn félagsins hefði veitt samþykki sitt fyrir því:

„Það er löng hefð fyrir því að þeir sem sinna umsjón félagshesthúss félagsins njóti hagstæðari kjara á leigugreiðslum í félagshesthúsi. Þetta er mál sem er ákvarðað á vettvangi stjórnar og var það samþykkt af stjórn að umsjónarmaður félagsins nyti þessara kjara á leigu sinni í félagshesthúsi.“

Ólöglegt vinnuafl hafi verið að störfum fyrir Fák

Í skýrslunni er sömuleiðis fullyrt að erlendir einstaklingar sem ekki hafi verið með atvinnuleyfi á Íslandi hafi starfað fyrir Fák án vitundar stjórnar félagsins. Þetta hafi verið gert með þeim hætti að þar sem sá aðili sem vann vinnuna hafi ekki verið með kennitölu hafi kennitala annars aðila verið fengin að láni til að hægt væri að gefa út reikning.

Gjaldkerinn fyrrverandi segist í skýrslunni velta því fyrir sér hvort þessi gjörningur sé sá sami og eigi við um mansal. Einn aðili vinni, annar aðili fái greitt og engin vissa sé fyrir því að sá sem vann verkið hafi fengið þá greiðslu sem honum bar. Framkvæmdastjórinn hafi með þessu samþykkt reikning frá aðila sem hafi ekki stundað vinnu fyrir félagið.

Ekki kemur fram í skýrslunni hvers eðlis þessi vinna var og gjaldkerinn fullyrðir ekki að lög hafi verið brotin með þessu en segist velta því fyrir sér hvort svo hafi verið.

Gjaldkerinn segist hafa beðið framkvæmdastjórann um að endir yrði bundinn á þetta fyrirkomulag en því hafi hann ekki sinnt og viðkomandi aðili hafi unnið fyrir félagið fram á síðastliðið haust. Þessi aðili, sem ekki er nafngreindur í skýrslunni, hafi fengið eina milljón króna í verktakalaun árið 2023 og tæpa hálfa milljón á árinu 2022. Reikningarnir fyrir vinnunni hafi verið gefnir út á nafn tiltekins einstaklings sem kemur fram í skýrslunni. Nafnið er erlent en umræddur einstaklingur er með kennitölu og skráður með lögheimili hér á landi í þjóðskrá. Miðað við orð gjaldkerans hefur þessi einstaklingur hins vegar ekki unnið fyrir félagið.

Gjaldkerinn segist hafa ráðfært sig við forvera sinn um þetta mál sem hafi sagst hafa margoft tekið fyrir slíka viðskiptahætti.

Orð gegn orði

Aðspurður um hvort hann hafi upplýsingar um að aðili sem ekki hafi kennitölu og atvinnuleyfi hafi unnið fyrir félagið segir formaður Fáks að þegar kemur að þessum þætti skýrslunnar standi orð gjaldkerans fyrrverandi gegn orðum framkvæmdastjórans sem neiti að þetta sé rétt:

„Hér er um að ræða atvik þar sem er orð á móti orði milli fyrrum gjaldkera og framkvæmdastjóra. Að sjálfsögðu gerir félagið kröfur um að þeir sem vinni fyrir félagið uppfylli kröfur um að vera góðir og gildir þjóðfélagsþegnar og fari að lögum í landinu. Stjórn félagsins hefur skerpt á vinnureglum og kröfum sem gerðar eru til þeirra sem fengnir eru til vinnu fyrir félagið.“

Enginn óskað eftir skýringum

Gjaldkerinn segist í lok skýrslunnar hafa verið kjörin gjaldkeri Hestamannafélagsins Fáks á aðalfundi 16. maí 2023 en hafi 14. desember sama ár hætt í stjórninni vegna samstarfsörðugleika við framkvæmdastjóra félagsins og skorts á stuðningi stjórnarmeðlima vegna athugasemdanna sem gjaldkerinn hafi gert við rekstur félagsins. Gjaldkerinn segir að enginn stjórnarmaður félagsins hafi óskað eftir nánari upplýsingum varðandi afsögn sína.

Ljóst er eins og fram kom í upphafi að gjalkeranum fyrrverandi og formanninum ber ekki saman um þetta en sá síðarnefndi fullyrðir að gjaldkerinn hafi hætt án þess að skýra ástæður þess á nokkurn hátt.

Reksturinn sé góður og framkvæmdastjórinn njóti trausts

DV spurði Hjört Bergstað formann Fáks að lokum í ljósi hinna umfangsmiklu athugasemda sem gerðar eru í skýrslunni við störf framkvæmdastjóra félagsins hvort að framkvæmdastjórinn njóti enn trausts hans sjálfs sem formanns og allrar stjórnar félagsins. Hjörtur sagði svo vera og tók það fram að rekstur félagsins stæði vel. Framkvæmdastjórinn hafi deilt við gjaldkerann fyrrverandi en sá fyrrnefndi beri ekki alla sök í þeim deilum:

„Þess er rétt að geta að rekstur félagsins er í mjög góðum horfum og var 10,4 milljón kr. hagnaður af rekstri félagsins fyrir fjármagnsliði og afskriftir árið 2023, sem er um 11 milljón kr. betri afkoma en áætlun félagsins fyrir árið gerði ráð fyrir. Skoðunarmenn hafa yfirfarið reikningana og bókhaldið og hafa komist að þeirri niðurstöðu að ársreikningurinn sýni rétta mynd af rekstri félagsins og eru búnir að skrifa upp á hann. Það er ljóst að samskipti framkvæmdastjóra og fyrrum gjaldkera hafa ekki verið eins og best verður á kosið en þá er rétt að hafa í huga máltækið „sjaldan veldur einn er tveir deila“. Stjórn félagsins ber fullt traust til framkvæmdastjóra þess en eins og áður segir hefur áminnt hann vegna eigin kaupa á aðföngum félagshesthúss.“

Hjörtur bætti því einnig við svör sín að hann teldi umrædda skýrslu vera einhliða. Það sé ekki rétt sem gjaldkerinn fyrrverandi haldi fram í skýrslunni að reynt hafi verið að vekja athygli annarra stjórnarmanna á þeim athugasemdum um rekstur félagsins sem í skýrslunni sé að finna:

„Að lokum vil ég segja að það bréf sem þú ert með undir höndum er mjög einhliða. Stjórn félagsins hefur þakkað fyrrum gjaldkera þær ábendingar sem settar eru fram í bréfinu. Farið hefur verið yfir þessa þætti sem þar koma fram og verkferlum verið breytt þar sem það á við. Stjórn félagsins harmar að fyrrum gjaldkeri hafi ekki fundið það hjá sjálfri sér að það væri betra að koma með þessar ábendingar á fund stjórnar áður en hún sagði af sér stjórnarstörfum fyrir félagið. Stjórn félagsins vill taka það fram að það er ekki rétt sagt frá þegar hún segist hafa reynt að vekja athygli stjórnarmanna á þessum atriðum áður en hún sagði af sér og er þeirri staðhæfingu hennar mótmælt.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Kringlan komin á fulla ferð á ný

Kringlan komin á fulla ferð á ný
Fréttir
Í gær

Eldgos hafið á Reykjanesi

Eldgos hafið á Reykjanesi
Fréttir
Í gær

Kona ákærð fyrir ofbeldi gegn barni á leikvelli í Reykjavík – „Sýndi ákærða drengnum yfirgang og ruddalegt athæfi“

Kona ákærð fyrir ofbeldi gegn barni á leikvelli í Reykjavík – „Sýndi ákærða drengnum yfirgang og ruddalegt athæfi“