„Hjúkrunarheimilið Sóltún í Reykjavík hefur verið starfrækt í friðsælu umhverfi undanfarin 22 ár. Í Sóltúni er friður og ró og gott að búa. Þar dvelja heilabilaðar eiginkonur okkar kolleganna og hafa notið góðrar aðhlynningar og atlætis undanfarin misseri. Nú eru hins vegar blikur á lofti. Áætlanir gera ráð fyrir að byggja eigi við hjúkrunarheimilið, bæta 64 herbergjum við þau 92 sem fyrir eru, byggja nýja hæð ofan á húsið og lengja álmur. Augljóslega mun þurfa að rífa þakið af húsinu og stálgrindur brunastiganna í undirbúningi fyrir framkvæmdir, sem eiga að hefjast í haust og standa í 24 mánuði.“
Í grein sinni segja Einar og Gestur að þetta eigi að gerast með íbúa hjúkrunarheimilisins í húsinu.
„Byggingarframkvæmdum fylgir hávaði og rask. Flestir kannast við óþægindi af húsaviðgerðum og fæstir leggja á sig að búa eða vinna í húsi sem er í byggingu eða meiriháttar viðgerðum,“ segja þeir kollegar og benda á að heilabilaðir sjúklingar séu sérstaklega næmir fyrir hávaða og ónæði, meðal annars vegna þess að þeir gera sér ekki grein fyrir orsökum og venjast ekki áreiti vegna minnisleysis.
„Okkar heilabiluðu ástvinir og aðrir íbúar í Sóltúni munu enga björg sér geta veitt. Þau munu ekki skilja ástæður skarkalans og annars umróts, heldur upplifa það sem nýja ógn og óþægindi á hverjum degi. Þau komast ekki undan, enda bundin við hjólastól og algerlega upp á aðstoð starfsfólksins komin við allar athafnir daglegs lífs. Kvíði, hræðsla og skelfing munu verða eins og martröð mánuðum og misserum saman og flestir sjúklinganna munu eiga sínar síðustu stundir við þessar aðstæður. Lífslíkur sjúklinga sem leggjast inn á hjúkrunarheimili eru að meðaltali um tvö ár, sem er sama og áætlaður framkvæmdatími.“
Í grein sinni segja Einar og Gestur að þetta sé í hrópandi mótsögn við yfirlýst gildi Sóltúns, en þau kveði meðal annars á um virðingu fyrir einkalífi íbúa og að komið sé fram við íbúa af skilningi og nærgætni. Einnig að lagður sé grunnur að andlegri vellíðan og haldið í gleðina í daglegu lífi.
„Það gefur augaleið að ekki verður mögulegt fyrir starfsfólk Sóltúns að fylgja þessum gildum meðan á framkvæmdum stendur. Óhætt er að fullyrða að fyrirhugaðar framkvæmdir í Sóltúni eru ekki í samræmi við leiðbeiningar um umönnun og meðferð heilabilaðra.“