Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu er með það til skoðunar að byrja að sekta þá ökumenn sem enn þá keyra á nagladekkjum í þessari viku. Það ræðst á langtímaveðurspá.
Þetta kemur fram í svari aðstoðaryfirlögregluþjóns við umferðardeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við fyrirspurn heimildarmanns DV.
Nagladekk eru bönnuð eftir 14. apríl og til október loka. Að sögn lögreglumannsins er orðalag reglugerðar um búnað ökutækja orðuð svo að það er mjög matskennt hvenær sektað er. Það er ef ekki er komið sumarfæri meira og minna um allt land og langtímaveðurspá sýni ekki þörf fyrir vetrarbúnað, svo sem með næturfrosti eða snjókomu á heiðum.
Bent er á að suðvesturhorn landsins er í raun og veru að verða eitt atvinnusvæði. Það er margt fólk býr kannski austan við Hellisheiði en starfar á höfuðborgarsvæðinu.
Vegna þessa telur lögreglan ekki rétt að ætlast til þess að ökumenn skipti um dekkjabúnað á milli landsvæða. Ekki heldur væri rétt að sekta í dag en ekki á morgun. Veðraskipti eru til dæmis mjög algeng í bæði apríl og hafa ökumenn aldrei verið sektaðir fyrir nagladekkjanotkun í þeim mánuði.
Eins og áður segir er til skoðunar að byrja að sekta fyrir nagladekkjanotkun einhvern tímann í vikunni. Þegar sú dagsetning liggur fyrir verður hún tilkynnt lögreglumönnum, fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum svo að allir getið gengið að því vísu að við lögregluafskipti komi til sekta ef ekið er á negldum hjólbörðum á höfuðborgarsvæðinu eftir tilkynningu.
Sektir fyrir að keyra á nagladekkjum eru háar. 20 þúsund krónur á hvern hjólbarða, eða 80 þúsund krónur í flestum tilvikum.
DV greindi frá því föstudaginn 26. apríl að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði sektað tíu ökumenn sem gómaðir hefðu verið á nagladekkjum helgina áður. Þær sektir voru hins vegar felldar niður og sagt að um samskiptaleysi hafi verið að ræða.
„Rétt er það að nokkrir ökumenn fengu sektir um helgina – en þær verða felldar niður þar sem sama verður yfir alla að ganga. Því miður voru skilaboð hér innanhúss ekki nægjanlega skýr og því varð úr sá leiði misskilningur og nokkrir ökumenn fengu sektir. Það verður lagfært okkar megin. Vegna þess að vetrarfærð ríkir enn á hluta landsins er ekki hægt að byrja að sekta, en þó gerum við það um leið og það breytist,“ sagði í tilkynningu lögreglunnar.