fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Arion banki afhenti óviðkomandi aðila umfangsmiklar upplýsingar um viðskipti manns við bankann

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 30. maí 2024 15:00

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arion banki hefur viðurkennt fyrir Seðlabanka Íslands að hafa brotið lög með því að afhenda óviðkomandi aðila umfangsmiklar upplýsingar um viðskipti manns nokkurs við bankann. Þetta gerði bankinn fyrir tveimur árum en ekki verður séð að fjölmiðlar hafi áður greint frá málinu. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kveðið upp úrskurð vegna kæru mannsins sem krafðist þess að Seðlabankinn afhenti sér gögn málsins. Úrskurðurinn féll 16. maí síðastliðinn en var birtur á vef Stjórnarráðsins í gær en samkvæmt honum ber Seðlabankanum að afhenda manninum gögnin að mestu leyti.

Lögmaður lagði fram kæru í málinu til nefndarinnar árið 2022.

Í kærunni eru málavextir raktir. Þar kemur fram að 8. desember 2021 hafi Arion banki miðlað til lögmanns barnsmóður mannsins umfangsmiklum upplýsingum um heildarstöðu skulda og eigna hans hjá bankanum, kreditkorta­upp­lýs­ingum og yfirliti yfir hreyfingar á bankareikn­ingi hans þrjá mánuði aftur í tímann. Lögmaður barns­móðurinnar hafi miðlað upplýsingunum til sýslumanns og byggt hafi verið á þeim þegar sýslu­maður kyrrsetti fjármuni mannsins. Þá hafi lögmaðurinn lagt þær fram fyrir dómi við fyrirtöku á kröfu barns­móðurinnar um opinber skipti.

Þegar maðurinn áttaði sig á því að lögmaðurinn hefði undir höndum bankaupp­lýs­ingar hans hafi hann leitað til Seðlabankans í janúar 2022 um rannsókn á framferði Ari­on banka í mál­inu. Með erindi í mars 2022 hafi maðurinn óskað eftir aðgangi að gögnum málsins hjá Seðlabankanum á grund­velli stjórnsýslulaga sem Seðlabankinn hafi á endanum hafnað.

Í úrskurðinum segir að í júlí 2022 hafi Seðlabankinn og Arion banki gert með sér samkomulag um sátt í  málinu þar sem Ari­on banki viðurkenndi að miðlun upplýsinganna hefði falið í sér brot gegn lögum um fjármálafyrirtæki. Í gagnsæistilkynningu Seðlabankans, dagsett 22. júlí 2022, sem birt var opinberlega á vef bankans, kom fram að brot Arion banka hefðu verið umfangsmikil og alvar­leg, og að sekt bank­ans skyldi nema 5,5 milljónum króna.

Við leit með hjálp Google finnast ekki neinar fréttir fjölmiðla af þessari tilkynningu Seðlabankans en þó er ekki hægt að fullyrða að þetta sé í fyrsta sinn sem fjölmiðlar greina frá þessu lögbroti Arion banka.

Segir vísendingar um einbeittan brotavilja

Í úrskurði Úrskurðarnefndar um upplýsingamál kemur fram að Seðlabankinn hefði hafnað ósk mannsins um að fá gögn málsins afhent þar sem maðurinn teldist ekki aðili að stjórnsýslumáli sem lyktað hefði með sátt bankans við Arion banka. Seðlabankinn sagði niðurstöður málsins hafa verið birtar opinberlega en að gögnin sem óskað væri eftir vörðuðu viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila sem skyldu fara leynt samkvæmt lögum og þau ákvæði gengju framar rétti samkvæmt upplýsingalögum.

Maðurinn sætti sig ekki við neitun bankans og í kæru hans kom meðal annars fram að hann telji sig hafa orðið fyrir miska og tjóni vegna miðlunar Arion banka á banka­upplýsingum hans. Bankinn hafi ekki reynt að biðja hann afsökunar, gera sátt við hann eða greiða honum bætur. Hann hafi hagsmuni af því að fá gögn málsins afhent frá Seðlabankanum, ekki aðeins þar sem þau varði brot gegn honum heldur einnig vegna þess að þau hafi þýðingu til að honum sé unnt að taka ákvörðun um málshöfðun gegn Arion banka.

Maðurinn hafnaði því einnig að hann væri ekki aðili málsins og benti á að samkvæmt dómafordæmi Hæstaréttar geti kvartandi til stjórnvalds  vegna brota lögaðila haft stöðu aðila máls í skilningi stjórnsýslulaga. Hann hafnaði því einnig að gögnin heyrðu undir þagnarskylduákvæði laga um Seðlabankann þar sem þau varði ekki hagsmuni annarra viðskiptamanna Arion banka en hans sjálfs. Maðurinn vísaði þeim fullyrðingum Seðlabankans á bug að allar nauðsynlegar upplýsingar hefðu komið fram í gagnsæistilkynningunni á vef bankans. Hann sagði upplýsingar í tilkynningunni af skornum skammti; til að mynda komi fram að miðl­un Arion banka hafi átt sér stað fyrir mistök. Vísbendingar séu hins vegar uppi um að upp­lýs­ing­un­um hafi verið miðlað af lögfræðideild bankans, sem geti skipt máli varðandi mat á saknæmi í hugsan­legu máli gegn bank­anum.

Mest allt skuli afhent

Málsmeðferð málsins er lýst ítarlega í úrskurðinum og þar kemur fram að Seðlabankinn lagði fram umsögn um kæru mannsins og maðurinn sendi inn umsögn um umsögn Seðlabankans.

Í niðurstöðu sinni úrskurðar Úrskurðarnefnd um upplýsingamál um nokkra anga málsins. Niðurstaðan nefndarinnar hvað varðar aðild mannsins að málinu er sú að maðurinn fái ekki aðgöng að gögnunum á grundvelli stjórnsýslulaga þar sem um sé að ræða stjórnsýslumál á milli Arion banka og Seðlabankans. Spurningin um rétt mannsins til gagnanna lúti aðeins að ákvæðum upplýsingalaga.

Nefndin fjallaði um hvert og eitt gagn í málinu, sem maðurinn hafði ekki þegar undir höndum og hugsanlegan rétt mannsins til aðgangs að hverju og einu. Aðallega var um að ræða tölvupóstsamskipti milli Arion banka og Seðlabankans en einnig upphaflegt erindi síðarnefnda bankans til þess fyrrnefnda frá mars 2022, annað erindi frá því í júní 2022, erindi frá Arion til Seðlabankans og loks óskaði maðurinn eftir aðgangi að undirrituðu samkomulagi Arion banka og Seðlabankans um sátt í málinu, frá júlí 2022.

Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að ekkert sé í upphaflega erindi Seðlabankans til Arion banka sem varði þagnarskylduákvæði laga eða takmörkunarákvæði upplýsingalaga og því beri að afhenda manninum erindið. Maðurinn fær afhent tölvupóstsamskipti Arion Banka og Seðlabankans en þó ekki þann hluta þeirra þar sem kemur fram drög að sátt í málinu en sá hluti segir nefndin að varði þagnarskylduákvæði laga um Seðlabankann.

Hann fær einnig afhent erindi Arion banka til Seðlabankans að undanskilinni einni setningu sem nefndin segir að varði ákvæði laga um þagnarskyldu um viðskipti eftirlitsskyldra aðila. Sömuleiðis fær hann afhent erindi Seðlabankans til Arion banka frá því í júní 2022 og loks fær hann aðgang að undirrituðu samkomulagi um sátt í málinu, frá því í júlí.

Beiðni mannsins um nokkur tiltekin gögn: Erindi Arion banka til Seðlabankans, og gögn úr möppunum „Drög að sátt“ og „Samskipti innan Seðlabanka“ var vísað aftur til Seðlabankans þar sem bankinn hafði ekki tekið afstöðu til hvort þau gögn skyldu afhent manninum eða ekki.

Úrskurðinn í heild sinni er hægt að nálgast hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Hafberg í Lambhaga lætur samkeppnisaðila sinn heyra það

Hafberg í Lambhaga lætur samkeppnisaðila sinn heyra það
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Í gær

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá