fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fréttir

Slæm umgengni sögð fæla fólk frá því að kaupa fasteignir á Flateyri – Bæjarstjórinn segir úrbætur standa yfir

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 28. maí 2024 20:00

Frá Flateyri

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt ábendingum sem DV hafa borist hefur slæm umgengni á Flateyri, einkum meðal fyrirtækja á hafnarsvæðinu, leitt til þess í einhverjum tilfellum að fólk hafi hætt við að kaupa fasteignir í þorpinu vegna ástandsins. Á myndum sem DV hafa borist má sjá m.a. vörubretti, lagnir, fiskikör og númerslausa bíla utandyra á svæðinu en í sumum tilfellum hefur verið staflað í hauga. Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar kannast við málið en segir bæinn vera að vinna að úrbótum og því að fá eigendur fyrirtækja á svæðinu til að taka til eftir sig.

Samkvæmt ábendingunum sem bárust DV hafa fyrirtæki á hafnarsvæðinu dreift því sem skilið hefur verið eftir utandyra, sem í einhverjum tilfellum að minnsta kosti má hreinlega kalla rusl, víða um svæðið. Einnig fullyrða heimildarmenn DV að margsinnis hafi verið kvartað við Ísafjarðarbæ, sem Flateyri tilheyrir, sem hafi ekki sýnt mikil viðbrögð.

Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar kannast við ástandið en segir í samtali við DV að unnið sé að umbótum. Hún segir að það hafi ekki margar kvartanir borist inn á borð til hennar en borist hafi ábending um helgina um rusl fyrir framan tiltekið fyrirtæki. Myndir sem bárust DV gefa það hins vegar til kynna að vandamálið sé útbreiddara en svo að um aðeins eitt fyrirtæki sé að ræða:

„Ég veit nú ekki hver á hvaða drasl“, segir Arna Lára.

„Við hljótum að vera tala um sömu myndirnar og ég fékk um helgina,“ bætir hún við.

Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar. Mynd/Vefur Ísafjarðarbæjar

Hreinsunarátak verið í gangi

Arna Lára segir að hreinsunarátak hafi staðið yfir á umræddu svæði á Flateyri:

„Það er heilmikið farið en það er nóg eftir ennþá.“

Hún játar því aðspurð að ekki standi annað til en að halda hreinsuninni áfram:

„Já, já og hvetja þá sem eiga þetta drasl til að ganga frá eftir sig og koma því þangað sem það á að fara.“

Arna Lára segir bæjaryfirvöld hafa sett sig í samband við eigendur þeirra fyrirtækja og þá einstaklinga sem gengið hafa um svæðið með þessum hætti og farið fram á að þeir taki til eftir sig:

Hún segir viðbrögð við þessum tilmælum hafa almennt verið góð:

„En eins og augljóst er ekki nægilega góð. Margir tóku strax til hendinni og fóru í sínar lóðir og gerðu sitt en það er enn eftir.“

Arna Lára svarar því, aðspurð, játandi að fyrirtækjaeigendur hafi verið misduglegir við að taka til eftir sig:

„Já, það eru alltaf svartir sauðir. Það er bara eins og það er en við munum ekkert gefast upp á þeim samt.“

Hringt markvisst

Arna Lára segir að um þessar mundir séu starfsmenn bæjarins að hringja markvisst í þá fyrirtækjaeigendur sem bera ábyrgð á umgengninni og þeir beðnir um að fjarlægja það sem þeir hafa skilið eftir. Aðspurð hvort til standi að fara í harðari aðgerðir sinni einhverjir ekki fyrirtækjaeigendur tilmælum bæjarins um að taka til svarar hún:

„Við reynum alltaf að höfða til samvisku fólks um að reyna að hafa snyrtilegt í kringum okkur. Yfirleitt gengur það vel. Það þarf oft ekki nema símtalið.“

Arna Lára bætir því þó við að Ísafjarðarbær hiki ekki við beina málum af þessu tagi til heilbrigðiseftirlitsins sé þörf á því. Heilbrigðiseftirlitið hafi til að mynda verið í sérstöku átaki vegna númerslausra bíla á hafnarsvæðinu á Flateyri en á þeim myndum sem DV bárust má meðal annars sjá nokkra númerslausa bíla sem virðast ekki vera í góðu ásigkomulagi:

„Heilbrigðiseftirlitið er búið að vera á fullu að líma á (númerslausu bílana, innsk. DV) og svo bara munum við taka.“

Verra í fyrra

Í ljósi alls þessa vísar Arna Lára því á bug að Ísafjarðarbær hafi lítið sem ekkert gert vegna umgengninnar á Flateyri:

„Það er ekkert endilega sýnilegt hvað við erum að gera,“ bætir Arna Lára við. Hún segir einnig að flestir íbúar Flateyrar sjái þó án efa nokkurn mun á hafnarsvæðinu miðað við hvernig ástandið hafi verið á síðasta ári, þá hafi umgengnin verið miklu verri:

„Það var alveg gríðarlegt magn af drasli sem var tekið þarna í fyrra.“

„Þetta er verk í vinnslu,“ segir Arna Lára um þá tiltekt sem Ísafjarðarbær er að koma í gagnið með samtölum sínum við einstaklinga og eigendur fyrirtækja sem bera ábyrgð á umgengninni.

Þegar kemur að því að fólk hafi hætt við fasteignakaup á Flateyri vegna umgengninnar segist Arna Lára þekkja til eins slíks tilfellis en hún hafi fengið þær upplýsingar frá starfsmönnum Ísafjarðarbæjar að sá einstaklingur, sem hætti við að kaupa fasteign á Flateyri, sé meðvitaður um þær aðgerðir sem staðið hafi yfir, m.a. með samtölum við umrædda fyrirtækjaeigendur, til að bæta ástandið.

Arna Lára ítrekar að lokum að unnið sé að því að bæta þetta ástand á hafnarsvæðinu á Flateyri og það sé enginn sómi að slíkri umgengni. Það muni þó taka smá tíma:

„Þetta snýst um að breyta hegðun.“

Myndir af umgengninni af hafnarsvæðinu á Flateyri má sjá hér fyrir neðan:

Mynd/Aðsend

 

Mynd/Aðsend

 

Mynd/Aðsend

 

Mynd/Aðsend

 

Mynd/Aðsend

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Landlæknir Bandaríkjanna vill vara við krabbameinshættu sem fylgir áfengisneyslu – Áfengisiðnaðurinn nötrar

Landlæknir Bandaríkjanna vill vara við krabbameinshættu sem fylgir áfengisneyslu – Áfengisiðnaðurinn nötrar
Fréttir
Í gær

Ákvað að fara ekki í bæinn á gamlárskvöld heldur vera heima og ná myndbandi af ótrúlegu samspili

Ákvað að fara ekki í bæinn á gamlárskvöld heldur vera heima og ná myndbandi af ótrúlegu samspili
Fréttir
Í gær

Tónlistarmaðurinn Árni Grétar „Futuregrapher“ Jóhannesson er látinn

Tónlistarmaðurinn Árni Grétar „Futuregrapher“ Jóhannesson er látinn
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Armando biður um hjálp – Hefur þú séð þennan bíl?

Armando biður um hjálp – Hefur þú séð þennan bíl?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ungur Blönduósingur varð fyrir hrottalegri hópárás í Liverpool

Ungur Blönduósingur varð fyrir hrottalegri hópárás í Liverpool
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðmundur vill banna þetta á íþróttaviðburðum – „Sendir röng skilaboð til barna og ungmenna“

Guðmundur vill banna þetta á íþróttaviðburðum – „Sendir röng skilaboð til barna og ungmenna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“