Hæstiréttur Íslands hefur fallist á að taka ærumeiðingarmál sem lýtur að ummælum um kynferðisbrot á Facebook og í skilaboðum á Instagram. Kona sem sagði mann hafa nauðgað barni þegar hann sjáflur var barn var sýknuð bæði í héraðsdómi og Landsrétti.
DV fjallaði um sýknudóminn yfir konunni í lok marsmánaðar.
Á meðal skilaboða sem kærð voru úr Instagram skilaboðum má nefna:
„Mig langar samt að senda á þig til að láta þig vita að þessi maður er nauðgari. Hann hefur nauðgað manneskju sem er náin mér þegar sú manneskja var 8 ára.“
Á meðal skrifa í lokaðan Facebook hóp má nefna:
„Hann var 12 ára þegar hann nauðgaði 8 ára barni. Það var ekki kært þar sem þetta kom upp 10 árum seinna. Barnavernd vill helst ekki skipta sér af þegar hann vinnur í kringum börn því það er engin kæra.“
Konan hafnaði því hins vegar að hafa skrifað færslurnar þar, sem voru nafnlausar.
Að mati dómara höfðu ekki komið fram sannanir um að konan hefði skrifað Facebook ummælin. Hvað Instagram ummælin varðar hafi ekki verið sannað að þau hefðu ekki verið skrifuð í góðri trú.
„Að virtum gögnum málsins verður dómur í því talin geta haft fordæmisgildi um mörk tjáningarfrelsis og friðhelgi einkalífs. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt,“ segir í ákvörðunarorðum Hæstaréttar á föstudag.