fbpx
Laugardagur 18.janúar 2025
Fréttir

Gangandi vegfarandi sem lést á Höfðabakka varð fyrir tveimur bílum – Annar þeirra aldrei fundist

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 23. maí 2024 13:30

Skammt frá slysstaðnum á Höfðabakka, til móts við Árbæjarsafn. Mynd/Ja.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur sent frá sér skýrslu vegna banaslyss sem varð á Höfðabakka í Reykjavík í desember 2022 þegar ekið var á gangandi vegfaranda, karlmann á fimmtugsaldri. Fram kemur í skýrslunni að óþekktri bifreið hafi verið ekið á hinn látna. Ökumaður þeirrar bifreiðar ók hins vegar af vettvangi án þess að tilkynna um slysið og athuga með líðan mannsins sem lá í götunni slasaður. Ökumaður annarrar bifreiðar sem kom þar að tók ekki eftir manninum fyrr en það var of seint og ók á hann með þeim afleiðingum að hann lést.

Um atburðarásina segir að þegar slysið átti sér stað var gangandi vegfarandinn, 49 ára gamall karlmaður, að ganga yfir Höfðabakka rétt sunnan við biðstöð strætisvagna á móts við Árbæjarsafn. Á sama tíma var bifreið ekið Höfðabakka til suðurs og á gangandi vegfarandann. Ökumaður þeirrar bifreiðar ók hins vegar af vettvangi án þess að tilkynna um atvikið. Ekki er vitað hvers konar bifreið var um að ræða eða hver ók henni.

Gangandi vegfarandinn lá eftir þetta á eystri akrein Höfðabakka, fyrir aktursstefnu þeirra sem óku norður götuna. Í skýrslunni segir að stuttu síðar hafi Suzuki fólksbifreið verið ekið Höfðabakka til norðurs. Þegar ökumaður hennar kom auga á vegfarandann liggjandi á götunni, hafi hann sveigt til vinstri en ekki náð að forðast árekstur.

Myrkur en góðar aðstæður

Samkvæmt skýrslunni barst tilkynning um slysið um klukkan 00:30. Myrkur var, þurrt veður, lítill vindur, heiðskírt og götulýsing sögð góð og engin hálka á veginum.

Í skýrslunni kemur einnig fram að þar sem hinn látni þveraði Höfðabakka hafi ekki verið merkt gönguþverun. Einnig segir að hinn látni hafi verið klæddur fatnaði án endurskins.

Maðurinn lést ekki samstundis en lést síðar um nóttina á Landspítalanum vegna fjöláverka. Ökumaður Suzuki bifreiðarinnar slasaðist ekki.

Um Suzuki bifreiðina segir í skýrslunni að hún hafi verið nýskráð í ágúst 2022, í notkunarflokk sem leigubifreið, 4 mánuðum fyrir slysið. Á mælaborði hennar hafi verið komið fyrir aksturstölvu auk verðskrár, GPS tæki og mælaborðsmyndavél en tækin hafi verið í sjónsviði ökumannsins og takmarkað útsýn hans fram á veginn.

Ók yfir hámarkshraða

Í skýrslunni um ökuhraða Suzuki bifreiðarinnar segir að samkvæmt upptöku úr mælaborðsmyndavél hafi hraði hennar verið 74 kílómetrar á klukkustund sömmu fyrir slysið en hámarkshraði á þessum vegarkafla var 60 kílómetrar á klukkustund. Hraðaminnkun hafi orðið rétt fyrir ákeyrsluna en samkvæmt mælaborðsmyndavélinni hafi bifreiðin verið á 70 kílómetra hraða þegar henni var ekið á manninn. Hraðabreytingar á slíkum myndavélum nái þó ekki að sýna raunhraða við snöggar hraðabreytingar.

Þar sem slysið varð er ein akrein í hvora átt. Eins og áður segir var ekki merkt gönguþverun þar sem vegfarandinn gekk yfir veginn en í skýrslunni segir að undirgöng séu við Höfðabakka á milli Bæjarháls og Stekkjarbakka á fjórum stöðum sem tengi gönguleið austan Höfðabakka við gönguleiðir vestan götunnar.

Gekk óvenjulega leið

Um gangandi vegfarandann segir í skýrslunni að hann hafi þekkt vel til aðstæðna á þessum stað og hefði, að sögn tengdra aðila, oft gengið sömu leið. Leið hans hafi þá alltaf legið vestur Rofabæ og þaðan suður Ystabæ, vestustu botngötuna af Rofabæ. Af Ystabæ sé göngustígur áleiðis að undirgöngum við Höfðabakka á móts við Rafstöðvarveg sem maðurinn hafi ávallt farið um. Leið hans áfram Rofabæ til vesturs og inn á Höfðabakka hafi því verið óvenjuleg. Skömmu eftir að maðurinn gekk inn á Höfðabakka hafi verið ekið á hann.

Við krufningu hafi komið fram áverki á hægri lærlegg hins látna sem sýni að ekið hafi verið á hann standandi. Á upptöku úr myndavél Suzuki bifreiðarinnar sjáist hins vegar að þeirri bifreið hafi verið ekið á manninn þegar hann lá í götunni og hafi litið út fyrir að hann hafi verið að reyna að standa upp. Áverkanir á lærleggnum hafi því bersýnilega verið eftir fyrri bifreiðina. Maðurinn hafi kastast eftir fyrri ákeyrsluna til austurs á eystri akreinina þar sem hann lá með áverkana á lærleggnum þegar Suzuki bifreiðinni var ekið á hann.

Samkvæmt upplýsingum úr snjalltækjum hins látna hafi Suzuki bifreiðinni verið ekið á hann einni mínútu og 21 sekúndu eftir að fyrri bifreiðinni var ekið á hann. Ökumaður þeirrar bifreiðar hafi ekki gefið sig fram og engin vitni að því slysi heldur.

Horfði í aðra átt

Enn fremur segir í skýrslunni að á þeim tíma sem leið frá því að ekið var á manninn í fyrra skiptið og þar til Suzuki bifreiðinni var ekið á hann hafi fimm bifreiðar verið stöðvaðar eða ekið hægt á vegöxl gagnstæðrar akreinar. Á myndbandsupptöku úr myndavél Suzuki bifreiðarinnar sjáist að ökumaður hennar hafi verið með athygli á þeim og horft til vinstri skömmu fyrir slysið. Hann hafi því ekki tekið strax eftir vegfarandanum á götunni. Samkvæmt vitnisburði ökumanns Suzuki bifreiðarinnar hafi hann talið að bifreiðarnar hefðu lent í árekstri og það dregið athygli hans frá veginum fyrir framan hann.

Niðurstaða Rannsóknarnefndar Samgönguslysa er því að meginorsök slyssins sé sú að ekið hafi verið á vegfarandann gangandi. Hann hafi hlotið við það áverka á lærlegg og legið af þeim sökum á eystri akreininni á Höfðabakka þegar Suzuki bifreiðinni var ekið á hann með þeim afleiðingum að hann lést.

Aðrar orsakir séu þær að ökumaður fyrri bifreiðarinnar hafi ekið af vettvangi án þess að tilkynna um slysið eða kanna líðan mannsins, ökumaður Suzuki bifreiðarinnar hafi ekið yfir hámarkshraða og haft því minni tíma til bregðast við og að hann hafi heldur ekki verið með athygli á því sem var fyrir framan bifreiðina heldur á umferð sem hafði stöðvast á vestari akreininni. Einnig hafi það átt sinn þátt í slysinu að hinn látni hafi farið yfir Höfðabakka en ekki notað undirgöngin skammt frá sem hann var vanur að nota og ekki verið með endurskin á fatnaði. Fyrstu vegfarendur á vettvangi fyrra slyssins hafi einnig ekki náð að tryggja vettvanginn í tæka tíð með því að stöðva akstur um eystri akreinina.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“

Kristján fengið nóg: „Ónæðið held­ur áfram og byrjaði nú síðast klukk­an 7 í morg­un“
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“

Kristinn gagnrýnir hvernig talað er um Palestínumenn – „Smekklegt“
Fréttir
Í gær

Bryggjan brugghús komið á sölu

Bryggjan brugghús komið á sölu
Fréttir
Í gær

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur

Sakaður um vanrækslu á syni sínum – Drengurinn vissi ekki eigin aldur