fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fréttir

Ólafur afplánar 10 ára dóm og segir Litla-Hraun stjórnlausan dýragarð – „Mislélegar kjötgeymslur“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 22. maí 2024 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er sorglegt sjá eftir góðum drengjum sem falla fyrir eigin hendi í fangelsi vegna sinnuleysis og það er enn sorglegra að verða vitni að hvað sumum starfsmönnum Fangelsismálastofnunar er skítsama um sína skjólstæðinga. Í þeirra augum er fangi bara launaseðill. Ég er búinn að þvælast í þessu kerfi síðustu 25 árin, ég get ekki sagt að ég sé stoltur af því, en þetta er staðan,“

segir Ólafur Ágúst Hraundal í pistli á Vísi. Ólafur hlaut 12 ára dóm í Saltdreifamálinu svokallaða með dómi Landsréttar 23. júní 2023. Aðrir í málinu voru dæmdir í tveggja, tíu og 12 ára fangelsi.

Sjá einnig: Eiginmaður Birnu afplánar 10 ára dóm – „Sú sorg er bara eins og þegar einhver deyr“

Segir forstöðumanninn ekki gera neitt fyrir fangana

Í pistlinum fer Ólafur um víðan völl þegar kemur að málefnum fanga, segist hann hafa setið á Litla-Hrauni í fimm mánuði og ekki enn séð forstöðumann þess, Halldór Val Pálsson. Segir hann galið að einn og sami maður sé forstöðumaður þriggja fangelsa og hvort ekki sé kominn tími á breytingar. „Hann hefur engan metnað þegar kemur að föngum. Það er ekkert gert fyrir skjólstæðinga eða aðstandendur, Núll!“

Segir hann allt annað og betra ástand hafa verið þegar Margrét Frímannsdóttir var forstöðumaður, „hún leit á fanga sem fólk. Hún kom með mennskuna og gaf mönnum von. Vonin er bara eitt það mikilvægasta sem hægt er að gefa mönnum í þessari stöðu. Þeir fengu tækifæri til að finna sjálfa sig og vinna í sér.“ Segist Ólafur upplifa að allt það góða sem Margrét kom með hafi endað í pappírstætaranum hjá forstöðumanni

„Í dag er Litla-Hraun stjórnlaus dýragarður. … Ég get lofað einu: ef komið fram við fanga eins og hunda þá haga þeir sér eins og hundar, verða grimmari. En ef komið er fram við þá eins og manneskjur fara þeir kannski að haga sér eins og manneskjur. En hvað veit ég? Ég er bara fangi!“

Segir Ólafur tölvur hafa verið teknar af föngum vegna þess að nokkrir fangar brutu af sér og það er látið bitna á öllum. „Litla-Hraun er deildarskipt eins og staðan er í dag. Sjö deildir. Engin mismunun. Menn vinna sér inn réttindi, gamla góða gulrótarkefið. Menn verða hafa eitthvað til að vinna að.“

Spyr hann af hverju fangar hafi ekki aðgang að tölvum, þannig að þeir geti verið upplýstir um hvað er að gera utan fangelsisins og jafnvel stundum nám í gegnum fjarfundabúnað. Segir Ólafur að vanti fleiri úrræði fyrir fanga, ekki sé nóg að vera með opin fangelsi.

„Það verður líka að vera eitthvað að gera fyrir vistmenn annað en að hangsa. Það þarf að vera tilgangur, það er ekki nóg að henda bara föngum á milli geymslna!“ segir Ólafur og kennir um metnaðarleysi forstöðumannsins. 

„Hjá honum er enginn vilji að hafa fangelsi sem betrun, stað til að hjálpa mönnum að vinna í sjálfum sér eða finna sjálfa sig. Það er enginn hvati til að gera betur.“

Ekkert sem tekur utan um fanga eftir afplánun

Ólafur segir ekkert taka við þegar fangi losnar úr afplánun, Vernd sé hún barn síns tíma, hugsuð fyrir þá sem höfðu ekki í nein hús að venda og henta fyrir einstæðinga ekki fjölskyldufólk.

„FANGI sem er fjölskyldumaður/kona á Vernd þarf að vinna fyrir leigu á rúmi (fangar deila herbergi með öðrum föngum á Vernd) um 100.000 kr á mánuði. Þeir reka líka heimili fyrir fjölskyldur sínar auk þess að burðast með aðrar skuldir sem hlaðast upp á þeim tíma sem fangarnir hafa verið frá, fyrir utan himinháan dóms- og sakarkostnað. Ef fangi hefur getu og er fær um, ætti hann að vera með ökklaband heima hjá sér á Verndartímanum sem og ökklatímanum. Ef við horfum á samfélagsþjónustu þá er hún 2 ár og verið er að tala um að lengja hana í 3 ár. Sá sem er búinn að vera lengi inni í fangelsi upplifir sig utangátta, þar sem geta hans hefur verið skert í virkni og hugsun.“

Ólafur segir engin meðferðarúrræði í boði fyrir fanga, þó kveðið sé á um slíkt í lögum um fullnustu refsinga.

„Ég veit um einn fanga sem er búinn að vera að biðja um hjálp. Það svar sem hann fær er að fangelsi sé ekki staður til að vinna úr áföllum. En er fangelsi ekki bara besti staðurinn til að byrja að vinna í áföllum og sjálfum sér? Þegar viðkomandi er kominn í þessa stöðu?“

Segir Ólafur að kominn sé tími til að vinna með fanga sem fólk, „ekki bara einhverjar tölur eða enn eitt líkanið á excel? Það verður enginn árangur í betrun eða meðferð ef mennskan og kærleikurinn er ekki með í ráðum. Það þurfa allir að finna að þeir hafi tilgang!“

Segir Ólafur að hann hafi fundið fyrir uppgjöf og hugsað til hvers er að lifa þessu lífi, allir þurfi að hafa tilgang í lífinu.

„Ef það er enginn tilgangur þá er bara eitt sem tekur utan um fangann. Það er systir óttans, eyðandi eymdin. Starfsmenn fangelsismálastofnunar eru með líf og heilsu manna í höndum sér í þessu meingallaða fangelsiskerfi. Mörg þeirra halda að þau séu betri en skjólstæðingar sínir, en ég leyfi mér að segja að þar fara þau villur vegar. Hafið hugfast að fæstir sem eru í fangelsi hafa fengið sömu spil og þau í upphafi.“

Spyr Ólafur að lokum hvernig við sem samfélag viljum fá fá fanga aftur út í samfélagið, „virka eða óvirka? Eins og staðan er í dag þá er enginn vilji hjá stjórnendum fangelsa eða ráðamönnum að fangar fái að finna til mennskunnar. Eins og staðan er í dag eru fangelsin mislélegar kjötgeymslur.“

Lesa má pistilinn í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti

Diljá Mist vill svipta erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti

Sjáðu hvað Trump sagði um Grænland eftir að hann var svarinn í embætti
Fréttir
Í gær

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum

Stór sending frá Spáni – Földu kókaín í skóm og nærbuxum
Fréttir
Í gær

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fréttir
Í gær

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“

Dóri DNA segist með Mosfellsbæ á heilanum – „Þarna er hugsað stórt og ég elska þegar það er hugsað stórt“
Fréttir
Í gær

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“

Borgaði 6.950 krónur fyrir þetta á kaffihúsi í miðborginni – „Var í áfalli“