Hafinn er undirbúningur að hópmálsókn íbúðareigenda í Grindavík gegn íslenska ríkinu. Á stuttum tíma hafa um hundrað manns skráð sig í hóp fólks sem á íbúðir þar sem það hefur ekki skráð lögheimili og á þá ekki rétt á uppkaupum fasteignafélagsins Þórkötlu.
„Þetta setur fólk í hrikalega stöðu,“ segir Kjartan Sigurðsson, sem bjó til hóp á Facebook til að undirbúa hópmálsókn. Hópurinn heitir: Íbúðarhúsnæði í Grindavík sem fellur ekki inn í núverandi uppkaup. Áhuginn hefur verið mikill. „Ég stofnaði hópinn í morgun og ég held að það sé farið að nálgast hundrað manns sem eru komin inn,“ segir Kjartan.
Í gegnum fasteignafélagið Þórkötlu kaupir ríkið íbúðir Grindvíkinga sem eru lögheimili eiganda. Félagið kaupir ekki íbúðarhúsnæði í eigu fyrirtækja, það kaupir ekki húsnæði sem er annað húsnæði fólks og það kaupir ekki húsnæði sem viðkomandi er ekki með lögheimili í.
Kjartan reiknar með að það sé verið að skilja um 200 til 300 eignir eftir. Hann segir að þetta sé hrein og klár mismunun og brot á jafnræðisreglu.
„Ég tel að það sé engan veginn réttlátt að taka bæinn af lífi með því að kaupa upp mest allt húsnæði en ætla svo að skilja eftir hluta af því,“ segir Kjartan og nefnir að verið sé að þvinga fólk út í þessar aðgerðir. Yfirvöld vilji ekki að fólk búi í bænum en ætla samt að skilja fólk eftir með eignir. „Almannavarnir og lögreglustjórinn vilja ekki að fólk búi í bænum. Það skýtur skökku við að það er verið að þvinga fólk til að leigja út húsnæðið, ef fólk ætlar að lifa af,“ segir Kjartan.
Kjartan hefur heyrt af ýmsum dæmum Grindvíkinga í erfiðri stöðu sem Þórkatla ætlar ekki að leysa úr. Oft er um að ræða eldra fólk, sem hefur greitt upp sín heimili en síðan á efri árum tekið út ný lán eða lífeyrissparnað til þess að hjálpa afkomendum sínum að eignast heimili. Til dæmis með því að kaupa aukaeign og leigja þeim.
Einnig ungt fólk sem hefur keypt sér íbúð en leigir þær út og býr í foreldrahúsum í nokkur ár til að koma undir sig fótunum.
Þá hefur sumt fólk skráð heimili sín á fasteignafélag eða þá að fyrirtæki hafa keypt íbúðir til að leigja starfsfólki sínu.
Undarlegustu dæmin sem Kjartan nefnir eru dæmi um fólk sem býr í húsi með tveimur eða fleiri fastanúmerum. Nefnir hann manneskju sem er með aukaíbúð sem hún hefur verið að leigja.
„Hún keypti þetta sem eitt hús en fær aðeins greidda út þá íbúð sem hún er skráð í,“ segir Kjartan.
Önnur manneskja er með hús með tveimur fastanúmerum en húsið er samt eitt heimili. Sú manneskja sér fram á að geta aðeins fengið greitt fyrir hluta hússins en þurfa að eiga hinn hlutann áfram.
Þá hefur Kjartan einnig heyrt af fólki sem er með aukaíbúð en allt húsið skráð á eitt fastanúmer. Þórkatla verðlauni það fólk fyrir að hafa verið á gráu svæði lagalega.
Þórkatla hefur boðist til þess að leigja Grindvíkingum gömlu húsin sín á 625 krónur fermetrann. Þetta eru alls um 900 eignir. Kjartan sér fram á að ekki allt fólk muni taka þessu og þegar fram líði stundir muni ríkið bjóða eignirnar út til leigu.
„Þá er ríkið búið að skemma leigumarkaðinn fyrir þeim sem ekki gátu selt ríkinu eignirnar,“ segir hann.
Kjartan segir að krafa hópsins sé að ríkið falli frá þeim kröfum um að kaupa aðeins upp lögheimili Grindvíkinga. Málið er hins vegar enn á frumstigum og enn á eftir að finna lögmann til að vinna fyrir hópinn.