fbpx
Fimmtudagur 26.september 2024
Fréttir

Kári svarar Helgu – Katrín hafi ekki stutt hann heldur Þórólf

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 19. maí 2024 13:30

Kári Stefánsson. Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hefur svarað gagnrýni Helgu Þórisdóttur forstjóra Persónuverndar og forsetaframbjóðanda á sig, í grein á Vísi, og Katrínu Jakobsdóttur fyrrverandi forsætisráðherra og mótframbjóðanda Helgu í forsetakosningunum 1. júní næstkomandi. Helga sagði í þættinum forystusætið á RÚV Katrínu hafa stutt Kára og fyrirtæki hans í deilum þess við Persónuvernd. Það hafi verið áfall fyrir sig og annað starfsfólk Persónuverndar að forsætisráðherra styddi einkafyrirtæki í deilum þess við stofnunina. Kári segir hins vegar í grein sinni að Helga hafi ekki farið að öllu leyti með rétt mál í þættinum.

Helga með ásakanir í garð Katrínar og Kára – „Áfall fyrir okkur hjá Persónuvernd“

Deila Íslenskrar erfðagreiningar og Persónuverndar snerist í stuttu máli um raðgreiningu fyrirtækisins á blóðsýnum í Covid 19-faraldrinum. Þessari greiningu sinnti fyrirtækið að beiðni Þórólfs Guðnasonar þáverandi sóttvarnalæknis en Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hefði brotið lög um persónuvernd með vinnslu sinni á persónuupplýsingum við raðgreininguna. Þá niðurstöðu sætti Íslensk erfðagreining sig ekki við og var henni hnekkt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Kári segir í grein sinni að Þórólfur hafi samkvæmt sóttvarnarlögum haft víðtækar heimildir til að skipuleggja og framkvæma baráttuna gegn Covid 19-veirunni. Þórólfur hafi óskað eftir margvíslegri aðstoð frá Íslenskri erfðagreiningu þar á meðal raðgreiningu á blóðsýnum úr þeim sem greindust með veiruna:

„Allt þetta gerði Íslensk erfðagreining í umboði sóttvarnarlæknis og að hans beiðni en á eigin kostnað. Fyrirtækið var um langan tíma allt lagt undir þjónustu við sóttvarnir.“

Hafi ekki stutt sig heldur Þórólf

Persónuvernd hafi hins vegar ranglega komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið væri að sinna vísindarannsókn en ekki sóttvörnum og yrði því að gæta sérstaklega að persónuverndarlögum. Kári segir Katrínu ekki hafa stutt sig og fyrirtæki sitt í málinu, eins og Helga haldi fram, heldur sóttvarnalækni enda hafi þessi vinna farið fram í umboði hans:

„Að öllum líkindum gerði hún það vegna þess að hún gerði sér grein fyrir því að án þeirrar aðstoðar sem Persónuvernd ákvarðaði að væri ólögleg hefði verið ógjörningur að sinna sóttvörnum á þeim tíma sem faraldurinn var í hámarki. Katrín tók afstöðu með hagsmunum fólksins í landinu sem var í hættu á þessum tíma en ekki vafasamri ákvörðun Persónuverndar.“

Stjórnarráðið birti opinberlega á sínum tíma bréfaskipti Kára og Katrínar vegna málsins en miðað við þau þá taldi Katrín þessa vinnu Íslenskrar erfðagreiningar hluta af nauðsynlegum sóttvörnum.

Birt var innihald tveggja bréfa Kára og tveggja bréfa Katrínar. Í síðara bréfi Katrínar sem ritað var 5. janúar 2022 segir:

„Til að skýra betur sýn mína á úrskurð Persónuverndar þá kom hann mér vissulega mjög á óvart. Ég er sammála því mati sóttvarnalæknis að umrædd rannsókn og vinnsla persónuupplýsinga (blóðsýnatakan) hafi verið hluti af opinberum sóttvarnaráðstöfunum, enda var hún unnin að beiðni sóttvarnalæknis og með Landspítalanum. Rannsóknina ber að skoða í ljósi aðstæðna í samfélaginu á þessum tíma þar sem unnið var í kapphlaupi við tímann til að afla frekari gagna og upplýsinga um veiruna og afleiðingar hennar sem voru síðan undirstaðan fyrir alla ákvarðanatöku um opinberar sóttvarnaráðstafanir.“

Kári bætir því við í lok greinar sinnar að Helga hafi fullyrt í þættinum að hann hafi hótað að fara í mál við Persónuvernd. Það segir hann vera rangt. Hann hafi sagst ætla í mál til að fá þessari einu ákvörðun stofnunarinnar hnekkt. Það hafi verið gert og málið hafi unnist fyrir héraðsdómi og ákvörðun Persónuverndar þar með verið hnekkt. Það hafi Helga hins vegar ekkert minnst á í þættinum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Drengurinn sem grunaður er um hnífstunguárásina á menningarnótt áfram í gæsluvarðhaldi

Drengurinn sem grunaður er um hnífstunguárásina á menningarnótt áfram í gæsluvarðhaldi
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Vinsælasti borgarfulltrúinn ætlar á þing

Vinsælasti borgarfulltrúinn ætlar á þing
Fréttir
Í gær

Tveir Íslendingar sagðir hafa svikið rúmlega hálfa milljón Bandaríkjadala út úr fyrirtæki í San Francisco

Tveir Íslendingar sagðir hafa svikið rúmlega hálfa milljón Bandaríkjadala út úr fyrirtæki í San Francisco
Fréttir
Í gær

Maðurinn sem lést í Hlauptungufossi var frá Katar

Maðurinn sem lést í Hlauptungufossi var frá Katar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Í fyrsta skiptið í mínu lífi var ég meðhöndlaður eins og hundur“

„Í fyrsta skiptið í mínu lífi var ég meðhöndlaður eins og hundur“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dópsali með fulla vasa af peningum sagðist hafa verið að selja vændi

Dópsali með fulla vasa af peningum sagðist hafa verið að selja vændi