Ströng skilyrði eru fyrir dánaraðstoð í Hollandi og er hver umsókn metin sérstaklega. Einstaklingar sem fá dánaraðstoð upplifa gjarnan óbærilegar kvalir eða eiga engar batavonir.
Zoraya hefur árum saman glímt við andleg veikindi og í umfjöllun Guardian er bent á að hún þjáist af krónísku þunglyndi, kvíða, áfallastreituröskun og ótilgreindri persónuleikaröskun. Hún hefur gengist undir ýmsar meðferðir; raflækningar, samtalsmeðferðir og lyfjameðferðir í þeim tilgangi að bæta lífsgæði sín en árangurinn hefur látið á sér standa.
Það var í desember 2020 sem Zoraya sótti um leyfi fyrir dánaraðstoð og eftir langt og strangt ferli liggur það nú fyrir. Zoraya segist aldrei hafa efast um að þetta væri rétt skref.
Mál hennar hefur vakið talsverða athygli og umræður um það hvort einstaklingar sem þjást af geðrænum kvillum séu þess megnugir að taka upplýsta ákvörðun. Ekki er algengt að andlega veikum, en líkamlega heilbrigðum, einstaklingum sé veitt dánaraðstoð í Hollandi. Í fyrra fengu 9.068 manns í Hollandi dánaraðstoð og þar af voru 138 greindir með andleg veikindi.
„Fólk heldur að þegar maður þjáist af andlegum veikindum geti maður ekki hugsað skýrt. Það er að mínu mati móðgandi,“ segir hún við Guardian og bendir á að dánaraðstoð hafi verið lögleg í Hollandi í rúm tuttugu ár og sé ekki leyfð nema að undangengnu löngu og ströngu ferli. „Það er ekki eins og þú getir sótt um þetta á mánudegi og fengið dánaraðstoð á föstudegi.“
Bera fór á veikindum hjá Zoraya þegar hún var barn en hún batt vonir við andleg líðan hennar myndi batna þegar hún kynntist núverandi unnusta sínum sem hefur staðið með henni í gegnum súrt og sætt. Það gerðist hins vegar ekki og hélt hún sjálfsskaðandi hegðun sinni áfram og hélt áfram að upplifa sjálfsvígshugsanir. Eftir áralanga meðferð voru engin úrræði eftir, að hennar sögn.
Hún segir við Guardian að hún hafi upplifað samviskubit og sektarkennd í ljósi þess að hún á aðstandendur sem elska hana.
„Ég hef fundið fyrir sektarkennd. Ég á maka, fjölskyldu og vini og ég veit að þeir upplifa einnig sársauka. Og ég hef verið hrædd en ég er algjörlega staðráðin í að ganga í gegnum þetta.“
__
Í þessari frétt er fjallað um þunglyndi og sjálfsvíg. Ef einstaklingar glíma við sjálfsvígshugsanir er bent á Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjall Rauða krossins 1717.is. Opið allan sólarhringinn. Einnig má hafa samband við Píeta-samtökin sem veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218, allan sólarhringinn. Netspjall Heilsuveru þar sem svarar hjúkrunarfræðingur er líka opið frá kl.8-22 alla daga. Fyrir þau sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi má fá stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöð og hjá Pieta samtökunum.