fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fréttir

Lýsir yfir áhyggjum af vanþekkingu forsetaframbjóðenda

Ritstjórn DV
Föstudaginn 17. maí 2024 14:00

Bjarni Már Magnússon

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Már Magnússon prófessor og forseti lagadeildar Háskólans á Bifröst ritaði fyrr í dag grein á Vísi þar sem hann lýsir yfir áhyggjum vegna þess að í kappræðum sex forsetaframbjóðenda á Stöð 2 í gærkvöldi hafi sumir þeirra opinberað að þeir telji ranglega að Ísland fylgi hlutleysissstefnu í alþjóðamálum. Bjarni segir sum forsetaefnin hafa einnig talið ranglega að sérstök stefnubreyting hafi falist í nýlegum stuðningi íslenskra stjórnvalda við vopnakaup fyrir Úkraínu og gengur svo langt að titla greinina: „For­seta­fram­bjóð­endur undir á­hrifum Kreml­verja?“

Bjarni minnir í upphafi greinarinnar á að Ísland hafi ekki fylgt hlutleysisstefnu í alþjóðamálum síðan á fimmta áratug síðustu aldar, ólíkt því sem sumir forsetaframbjóðendur telji:

„Í sjónvarpskappræðum í gær virtust nokkrir frambjóðendur telja að Ísland væri hlutlaust ríki. Það er efnislega rangt. Ísland hvarf endanlega frá hlutleysisstefnu sinni, sem lýst er í 19. gr. sambandslagasamningsins frá 1918, þann 14. júní 1941 með herverndarsamningnum við Bandaríkin. Það þýðir að íslenska lýðveldið hefur aldrei talist hlutlaust,“ segir Bjarni og minnir á að Ísland sé stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO), sem sé hernaðarbandalag, og geti því engan veginn talist vera hlutlaust ríki.

Bjarni minnir einnig á að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem að Ísland hafi greitt í sjóði NATO sem fjármagni vopnakaup fyrir Úkraínu.

Arnar sagði Ísland hafa fylgt hlutleysinu

Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra var með það á hreinu í kappræðunum að Ísland væri ekki hlutlaust ríki. Hún minnti á að Ísland væri í NATO en sagði það sína skoðun að Íslendingar ættu alltaf að tala fyrir friðsamlegum lausnum. Ísland hefði áður stutt við sjóði sem fjármagni vopnakaup en að íslensk stjórnvöld hefðu einkum stutt Úkraínu með annars konar hætti en vopnakaupum, til að mynda með efnahagslegum stuðningi.

Baldur Þórhallsson sem hefur rannsakað utanríkisstefnu Íslands segir að forsetinn eigi að fylgja utanríkisstefnunni en það rúmist vel innan hennar að hann tali ávallt fyrir friðsamlegum lausnum. Hann sagði einnig að Ísland geti vel fengið undanþágu frá því að greiða í sjóði NATO sem styðji við vopnakaup Úkraínu.

Arnar Þór Jónsson sagðist ósáttur við aðkomu Íslands að vopnakaupum og sagði um skýra stefnubreytingu að ræða þar sem Ísland hefði áður haldið sig við hlutleysi:

„Það er mín persónulega skoðun og ég er tilbúinn að segja það hvar sem er. Ég tel með öllu óforsvaranlegt að ákvörðun hafi verið tekin um það að Ísland viki frá þeirri stefnu sem áður hafði verið mörkuð um það að við værum svona fremur í hlutleysinu og legðum líkn við þegar aðrar þjóðir eru í sárum. Þegar við erum farin að blanda okkur í stríðsátök með þeim hætti sem hér hefur verið gert þá þarf að eiga sér stað almennileg umræða. Sem forseti hefði ég kallað eftir þeirri umræðu á ríkisráðsfundi. Ég hefði kallað eftir því að ráðherrar og ríkisstjórn hefðu skýrt það, bara með rökum og þessi vopnakaup ættu sér ekki stað fyrr en að undangenginni ítarlegri og mjög nákvæmri umræðu.“

Hafi komið á óvart

Halla Tómasdóttir sagði það hafa komið sér á óvart að íslensk stjórnvöld hefðu lagt fjármuni í vopnakaup. Það væri eitt af grunngildum þjóðarinnar að vera friðsöm. Það væru aðrar leiðir til að taka þátt í varnarbandalagi en með vopnakaupum, t.d. með samstarfi við fyrirtæki á borð við Kerecis og Össur. Hún telji að þjóðin vilji ekki taka beinan þátt í stríði og friður sé það sem hún sjálf vilji hafa í hávegum.

Halla Hrund Logadóttir sagði mikilvægt að Ísland fylgdi þeirri línu sem hefði verið fylgt fram að þessu í slíkum tilvikum eins og um væri að ræða í Úkraínu:

„Að við séum fyrst og fremst að horfa á aðstoð í slíkum aðstæðum sem að kemur í gegnum til dæmis Rauða Krossinn.“

Það væri rík hefð fyrir því að Ísland styddi við slíka aðstoð sem og samstarf í jarðhita- og jafnréttismálum. Stuðningur við vopnakaup væri ekki rétta leiðin fyrir Ísland.

Jón Gnarr sagðist ekki þekkja mál sem snúi að stuðningi Íslands við vopnakaup fyrir Úkraínu nægilega vel til að tjá sig um það en var þó tilbúinn að segja að þarna væri ekki um neina stefnubreytingu að ræða:

„Þetta er ekkert í fyrsta sinn sem að Ísland stendur í einhverju vopnaskaki. Við höfum stundað vopnaflutninga og annað slíkt í gegnum árin.“

Misjafnt eftir frambjóðendum

Það er því greinilega misjafnt hversu vel forsetaframbjóðendurnir þekkja utanríkisstefnu Íslands en þau virðast sammála um að hin herlausa þjóð eigi að tala fyrir friði en hafa mismiklar skoðanir á hversu óæskilegt það sé að Ísland styrki vopnakaup fyrir Úkraínu. Sumir frambjóðendur voru með það á hreinu að ekki væri um stefnubreytingu að ræða en aðrir ekki.

Bjarni Már Magnússon segir það áhyggjuefni að sumir frambjóðendur þekki utanríkisstefnu og sögu Íslands ekki betur en raun ber vitni. Bjarni segir innrás Rússa í Úkraínu vera landvinningastríð og að sumir frambjóðendur hafi talað nákvæmlega eins og stjórnvöldum í Rússlandi hugnist:

„Fyrir þann sem ekki vissi betur gæti sá grunur vaknað að talpunktar Kremlar hafi skotið rótum í umræður íslenskra forsetaframbjóðenda. Þótt vitaskuld séu frambjóðendurnir ekki að flytja slíka talpunkta þá er það raunverulegt vandamál ef það hljómar þannig. Frambjóðendur til embættis forseta þurf að vera nægilega læsir á stöðuna í heimsmálum til þess að tala ekki með þeim hætti að slíkar grunsemdir vakni.“

Grein Bjarna má nálgast hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 dögum

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“