Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, var skotinn nokkrum skotum og er í lífshættu eftir árás fyrr í dag. Atvikið átti sér stað að loknum ríkisstjórnarfundi í bænum Handlova, um 150 kílómetra norðaustur af höfuðborginni Bratislava, þegar ráðherrann var staddur fyrir utan menningarhús bæjarins.
Fjölmörg vitni voru að árásinni. Hefur komið fram í erlendum miðlum að sumir á vettvangi hafi heyrt allt að 3-4 skot og sést hafi blóð á bringu og höfði forsætisráðherrans. Fréttamiðlar í Slóvakíu segja hins vegar að Fico hafi verið skotinn í kviðinn, handlegg og fótlegg. Árásarmaðurinn er sagður hafa virst ætla að heilsa Fico þegar hann dró skyndilega upp byssu. Var hann yfirbugaður á vettvangi og færður í járn. Öryggisverðir héldu á Fico inn í nærliggjandi bifreið sem keyrði með hraði með hann á brott. Þyrla var síðan kölluð út til að flytja Fico á spítala á næsta sjúkrahús.
Á myndum og myndböndum af vettvangi má sjá að árásarmaðurinn lá í drjúga stund í jörðinni eftir ódæðið undir vökulu auga lögreglumanna.
Fico gegnir nú embætti forsætisráðherra Slóvakíu í þriðja sinn en hann er afar umdeildur í heimalandi sínu. Hann er sagður vera popúlisti og er gjarnan líkt við Donald Trump. Þannig hefur hann andúð á blaðamönnum og hjólar gjarnan í innflytjendur sem og meðlimi LGBTQ+ samfélagsins. Hann hefur samúð með málstað Rússa og verið talsmaður þess að friðarsamningar verði undirritaðir milli Rússlands og Úkraínu. Þá lofaði hann meðal annars í kosningabaráttu sinni að takmarka fjárhagsaðstoð til Úkraínu.
Gagnrýnendur hans hafa miklar áhyggjur af því að hann færi Slóvakíu frá vesturs til austurs, líkt og kollegi hans Viktor Orban í Ungverjalandi rær öllum árum að.
Footage immediately following the Assassination Attempt on Slovakia’s Prime Minister, Robert Fico where he can be seen being Dragged into a Car by Security as the Shooter is Detained by several Bystanders and Police. pic.twitter.com/YNFOYVdHlS
— OSINTdefender (@sentdefender) May 15, 2024