fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Skúli skammar Willum og Ölmu vegna sífelldra tafa á meðferð kvartana hjá embætti landlæknis

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 14. maí 2024 13:30

Alma Möller landlæknir, Skúli Magnússon umboðsmaður Alþingis og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Myndin er samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skúli Magnússon umboðsmaður Alþingis hefur sent frá sér álit vegna langvarandi og almennra tafa á meðferð kvartana til embættis landlæknis, sem stýrt er af Ölmu Möller landlækni, en meðal verkefna embættisins er að taka við kvörtunum vegna þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Er það niðurstaða umboðsmanns að heilbrigðisráðuneytið verði að grípa til markvissra aðgerða vegna stöðunnar, vandinn eigi sér langa sögu og það sé á ábyrgð heilbrigðisráðherra, Willum Þórs Þórssonar, að sjá til þess að eitthvað verði gert til að bæta úr. Í svörum heilbrigðisráðuneytisins við spurningum umboðsmanns kom fram að málsmeðferðartíminn væri oft lengri en 1-2 ár.

Í álitinu kemur fram að tildrög þess að umboðsmaður réðst í athugun á málinu var erindi sem barst embættinu í ágúst 2022 en aðilinn sem sendi erindið sagðist hafa sent kvörtun til embættis landlæknis í febrúar 2021 og meðferð kvörtunarinnar væri enn ekki lokið. Við athugun á málinu hafi komið í ljós að tafir á meðferð kvartana hjá embætti landlæknis væru almennar. Tafirnar hafi verið skýrðar einkum með auknum málafjölda og skorti á fullnægjandi fjárheimildum meðal annars til að kaupa þjónustu óháðra sérfræðinga. Landlæknir hefði á liðnum árum ítrekað vakið athygli heilbrigðisráðherra á stöðunni. Gripið hafi verið til ráðstafana til að mæta vandanum en þær hafi ekki dugað til.

Í álitinu segir að athugun umboðsmanns hafi í framhaldi af svörum landlæknisembættsins um málið einkum beinst að því hvort heilbrigðisráðuneytið hafi brugðist við stöðunni með fullnægjandi hætti í ljósi eftirlits- og yfirstjórnunarheimilda sinna.

Málsmeðferðartími lengri en gefið sé upp

Í svari heilbrigðisráðuneytisins við bréfi umboðsmanns um hvort til stæði að grípa til einhverra aðgerða vegna þessara ítrekuðu tafa á meferð kvartana hjá embætti landlæknis kom fram að ráðuneytið væri meðvitað um að málsmeðferðartíminn væri of langur. Fjöldi kvartana væri mikill og málsmeðferðin oft þung í vöfum ekki síst þegar álits óháðra sérfræðinga væri aflað. Af upplýsingum frá landlækni mætti ráða að málsmeðferðartími í meirihluta kvörtunarmála væri lengri en þeir 12-24 mánuðir sem tilgreindir væru á vef embættisins sem algeng tímalengd rannsóknar slíkra mála. Sérstaklega var tekið fram að málsmeðferðartími í mörgum kvörtunarmálum hefði dregist umfram það sem eðlilegt gæti talist.

Ráðuneytið benti á að þáverandi heilbrigðisráðherra hefði veturinn 2018-2019 lagt fram lagafrumvarp á Alþingi til að bæta úr stöðunni og að skipaður hefði verið starfshópur 2021 en verkefni hans hafi þó verið færð annað eftir að það hefði reynst umfangsmeira en lagt hefði verið upp með.

Ráðuneytið sagði ýmsar aðgerðir til skoðunar meðal annars að færa meðferð kvartana sem snerust um framkomu heilbrigðisstarfsfólks frá landlækni til forstöðumanna viðkomandi heilbrigðisstofnana. Einnig væri starfshópur að störfum sem hefði til að mynda það hlutverk að leita leiða til að efla starfsemi landlæknis þegar kemur að rannsóknum á alvarlegum atvikum og kvörtunarmálum.

Í áltinu eru síðan rakin frekari bréfaskipti umboðsmanns og heilbrigðisráðuneytisins vegna málsins og þar á meðal svör ráðuneytisins við því hvenær mætti vænta einhverra aðgerða á grunni vinnu umrædds starfshóps. Ráðuneytið svaraði í mars 2023 að ráðherra hyggðist leggja fram frumvarp í sama mánuði sem tæki væntanlega gildi í september sama ár og þar yrði ákvæði um að vísa mætti frá kvörtunum vegna mála sem þegar væru til meðferðar hjá landlækni. Það myndi fækka kvörtunarmálum nokkuð. Gert væri einnig ráð fyrir að fjölga yrði stöðugildum hjá embættinu til að taka sérstaklega á kvörtunarmálum.

Seinkun varð hins vegar á því að frumvarpið yrði lagt fram. Það var samþykkt á Alþingi í desember 2023 og taka lögin gildi 1. september næstkomandi.

Landlækni beri skylda til að sjá til þess að málin tefjist ekki

Það er niðurstaða umboðsmanns Alþingis að lög um landlækni kveði á um að kvartanir til embættisins þurfi í mörgum tilfellum að hljóta ítarlega meðferð, meðal annars með aðkomu óháðra sérfræðinga, það taki tíma en þrátt fyrir það kveði stjórnsýslulög á um að ákvarðanir í stjórnsýslumálum skuli teknar eins fljótt og hægt er. Það sé meginregla stjórnsýsluréttar og henni beri stjórnvöldum að fylgja. Séu tafir fyrirsjáanlegar verði að skýra aðila málsins frá því og skýra ástæður tafanna.

Það er einnig niðurstaða umboðsmanns að landlækni sjálfum sem forstöðumanni embættisins beri samkvæmt lögum skylda til að sjá til þess að málshraðareglan sé virt og það verði að gera með raunhæfum aðgerðum.

Svör heilbrigðisráðuneytisins um að málsmeðferðartími kvartana hjá landlækni sé oft lengri en 1-2 ár og ábendingar og kvartanir sem borist hafi umboðsmanni sýni fram á að tafirnar séu óviðunandi og samræmist ekki ákvæðum stjórnsýslulaga um málshraða.

Ráðherra beri ábyrgð

Vísar umboðsmaður jafnframt til ákvæða laga um að heilbrigðisráðherra fari með yfirstjórn mála er varða embætti landlæknis og beri ráðherrann því lagalega og stjórnskipulega ábyrgð á málefnum embættisins.

Þegar við blasi kerfislægur vandi í stafsemi landlæknisembættsins eins og sé bersýnilega um að ræða beri ráðherra og ráðuneyti hans að sjá til þess að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar til að bæta úr enda hafi þær aðgerðir sem embættið hafi ráðist í ekki dugað til. Ráðherra hafi heimildir til þess samkvæmt lögum. Ráðuneytið geti til að mynda kannað hvort til sé nægileg þekking eða nægt starfsfólk innan viðkomandi stofnunar, hvort að verkferlum sé ábótavant eða hvort fjárheimildum viðkomandi stofnunar sé ráðstafað með nægilegu tilliti til verkefna stofnunarinnar.

Í febrúar 2023 hafi verið 403 kvartanir óafgreiddar hjá landlækni. Vandinn hafi verið mikill um nokkurt skeið og fari vaxandi en heilbrigðisráðuneytið hafi lítið annað gert en að horfa til lagafrumvarpa í stað þess að ráðast í raunhæfar og markvissar aðgerðir. Umboðsmaður hafi ekki forsendur til að meta áhrif áðurnefndra laga, sem taka gildi 1. september næstkomandi, á stöðu vandans en hann beinir þeim tilmælum til heilbrigðisráðuneytisins að grípa án tafar til aðgerða til þess að fækka kvörtunum sem bíða nú afgreiðslu hjá embætti landlæknis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Egill Þór er látinn

Egill Þór er látinn
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“

Óveður á aðfangadagskvöld: „Líklegt að veðrið muni hafa áhrif á jólin á stórum hluta landsins þetta árið“
Fréttir
Í gær

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“

Sigríður segir Helga ekki geta verið vararíkissaksóknari þrátt fyrir úrskurð ráðherra – „Ber meiri keim af einelti en lögfræði“
Fréttir
Í gær

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“

Kvikmyndagerðarmaður auglýsir eftir uppljóstrara – „Ef þú býrð yfir upplýsingum sem snerta okkur öll…“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður

Ný ríkisstjórn kynnt við vetrarsólstöður
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka

Egill Helgason fékk heldur betur „rausnarlega“ gjöf frá Íslandsbanka
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg

Íslenskur skurðlæknir vinnur við að bjarga slösuðum eftir árásina í Magdeburg