Eldgosinu sem hófst við Sundhnjúka þann 16. mars síðastliðinn lauk í gær en það er skammt stórra högga á milli og margt sem bendir til þess að nýtt eldgos sé yfirvofandi.
Í tilkynningu sem Veðurstofa Íslands sendi frá sér í gær var bent á að kvikusöfnun héldi áfram undir Svartsengi og líkanreikningar gerðu ráð fyrir því að um 13 milljón rúmmetrar af kviku hefðu bæst við í kvikuhólfið frá því að eldgosið hófst 16. mars. Því verði að teljast líklegt að kvika hlaupi aftur úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina áður en langt um líður.
„Staðan er sú að við erum komin með jafn mikla kviku – eða jafnvel meira – þarna undir eins og hefur verið í upphafi og fyrir þau gos sem hafa orðið. Þar af leiðandi verðum við að reikna með því að við fáum endurtekningu á þessum atburðum innan skamms tíma. Það er líklegt að það gerist á næstu dögum,“ segir Magnús Tumi í Morgunblaðinu í dag.
„Þó það sé ekki alveg hægt að vera viss um allt í þessu þá er þetta bara staðan. Við fáum kannski svipaða byrjun og í fyrri gosunum,“ bætir hann við.
Magnús Tumi – eins og Þorvaldur Þórðarson sem Morgunblaðið ræðir einnig við – telur líklegt að gosið komi upp á svipuðum slóðum og áður.
„Ástæðan fyrir því er að jarðskorpan er aðalveikleikinn. Þar er gangur búinn að brjótast hvað eftir annað inn á nokkurra vikna millibili og þar með er jarðskorpan mjög veik og langminnsta fyrirstaðan gegn því að kvika brjótist upp. Þetta er heitt og veikt þannig að þetta er aðalveikleikinn,“ segir Magnús Tumi við Morgunblaðið.