fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Fréttir

Isavia samdi við fyrirtæki sem hefur ekki öll tilskilin leyfi

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 6. apríl 2024 09:00

Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í nóvember síðastliðnum samdi Isavia við alþjóðlega fyrirtækið ChangeGroup, í kjölfar útboðs, um að sjá um rekstur gjaldeyrisþjónustu, hraðbanka, og þjónustu vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts á Keflavíkurflugvelli. Fyrirtækið tók við þessum þætti starfseminnar á flugvellinum af Arion banka 1. febrúar síðastliðinn. Það hóf í kjölfarið rekstur hraðbanka og stöðva fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts á flugvellinum. Til stóð einnig að það hæfi rekstur gjaldeyrisskiptastöðva þar sem flugfarþegar áttu að geta keypt og selt gjaldeyri. Rekstur þessara stöðva hefur hins vegar ekki enn hafist nú rúmum tveimur mánuðum síðar. Því hefur einkum verið borið við, meðal annars á heimasíðu Keflavíkurflugvallar, að rekja megi tafir á að gjaldeyrisskiptastöðvarnar tækju til starfa til framkvæmda en staðan er hins vegar sú að ChangeGroup hefur enn ekki öðlast tilskilin leyfi frá yfirvöldum, í þessu tilfelli Seðlabanka Íslands, til að reka slíka starfsemi hér á landi.

ChangeGroup er alþjóðlegt fyrirtæki sem rekur á annað hundrað gjaldeyrisskiptastöðva víða um heim, ekki síst á flugvöllum. Fyrirtækið var stofnað í Bretlandi og samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins eru höfuðstöðvar þess í London. ChangeGroup er hins vegar í eigu spænska fyrirtækisins Prosegur Cash sem mun vera skráð í kauphöllina í Madrid. Isavia samdi við fyrirtækið um að reka áðurnefnda starfsemi á Keflavíkurflugvelli í nóvember síðastliðnum en í desember var dótturfélag sem ber nafn spænska móðurfélagsins, Prosegur Change Iceland ehf., nýskráð í fyrirtækjaskrá Skattsins hér á landi. Í fyrirtækjaskrá er Sacha Zackariya, forstjóri og einn stofnenda ChangeGroup sem er breskur ríkisborgari, skráður raunverulegur eigandi íslenska dótturfélagsins með 35 prósent eignarhlut sem þó er sagður óbeinn.

Sú leið virðist hafa verið farin í fleiri löndum þar sem fyrirtækið er með starfsemi að stofna dótturfélag undir heitinu Prosegur Change sem sér svo um rekstur gjaldeyrisskiptastöðva og annarar starfsemi undir þeim merkjum eða merkjum ChangeGroup í viðkomandi landi. Til að mynda er einkahlutafélagið Prosegur Change Denmark skráð í Danmörku og sami maður er skráður stjórnarformaður bæði þess félags og Prosegur Change Iceland, Michael Damian Robl sem er sænskur ríkisborgari.

Tvö vörumerki renna saman

Á heimasíðu Keflavíkurflugvallar kemur fram að gjaldeyrisskiptastöðvar á flugvellinum verði reknar undir merkjum ChangeGroup þegar þær taka til starfa og að endurgreiðslustöð virðisaukaskatts sem hefur þegar tekið til starfa sé rekin undir þeim hatti. Þegar Prosegur Cash eignaðist ChangeGroup var búin til ný eining innan Prosegur sem fékk nafnið Prosegur Change og virðist það nafn notað samhliða nafninu ChangeGroup meðal annars yfir þá þætti starfsemi fyrirtækisins er lúta að rekstri gjaldeyrisskiptastöðva. Til að mynda eru gjaldeyrisskiptastöðvar á Kastrup-flugvelli í Danmörku, samkvæmt heimasíðu flugvallarins, reknar undir merkjum Prosegur Change.

Á heimasíðu spænska móðurfélagsins, Prosegur Cash, segir að bæði Prosegur Change og ChangeGroup séu leiðandi á heimsvísu í meðal annars því að bjóða ferðalöngum upp á gjaldeyrisskipti. Þessi tvö vörumerki eru því greinilega notuð samhliða en virðast í raun eitt og hið sama. Til merkis um það er útibúið í Leifsstöð á lista yfir útibú ChangeGroup á alþjóðlegri heimasíðu þessa dótturfyrirtækis Prosegur en á heimasíðu til að mynda Prosegur Change í Þýskalandi er íslenska útibúið á lista yfir útibú Prosegur Change.

Það blasir því vart annað við en að gjaldeyrisskiptastöðvar á Keflavíkurflugvelli verði starfræktar undir merkjum bresks dótturfyrirtækis sem er í eigu spænsks fyrirtækis.

Þarf leyfi

DV bárust fyrir nokkru ábendingar þess efnis að ChangeGroup hefði ekki tilskilin leyfi hér á landi til að reka gjaldeyrisskiptastöðvar og sendi í kjölfarið ítarlegar fyrirspurnir í skriflegu formi til bæði Isavia og Seðlabanka Íslands þar sem óskað var meðal annars staðfestingar á því hvort það væri rétt að ChangeGroup eða íslenska dótturfélagið, Prosegur Change Iceland, hafi ekki öðlast starfsleyfi á Íslandi til að annast milligöngu um gjaldeyrisviðskipti.

Í lögum um gjaldeyrismál kemur fram að það sé óheimilt að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti á Íslandi án þess að hafa heimild til þess samkvæmt lögum. DV lagði fram skriflega fyrirspurn til Seðlabanka Íslands um hvort aðilar sem annist slík viðskipti þurfi að uppfylla einhver sérstök skilyrði til að fá slíka heimild og hvort að í slíkri heimild felist sérstakt starfsleyfi, til að reka slíka starfsemi, frá Seðlabankanum. Í skriflegu svari Seðlabakans segir eftirfarandi:

„Heimild til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti samkvæmt lögum um gjaldeyrismál byggir í flestum tilvikum á starfsleyfi sem felur í sér heimild til gjaldeyrisviðskipta, t.d. samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki eða lögum um greiðsluþjónustu. Hér er t.d. um að ræða þjónustu sem lánastofnunum og greiðsluþjónustuveitendum er heimilt að veita. Þeir sem veita gjaldeyrisskiptaþjónustu á grundvelli laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hafa einnig heimild til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti á grundvelli skráninga samkvæmt þeim lögum.“

„Auk þess getur heimild til milligöngu um gjaldeyrisviðskipti byggst á grundvelli alþjóðlegra samninga sem innleiddir hafa verið í íslenska löggjöf en það getur t.d. átt við um fjármálafyrirtæki á Evrópska efnahagsvæðinu sem hafa heimild til að stunda viðskipti hér á landi.  Seðlabankinn hefur heimild til að gefa út leyfi til starfrækslu skipulags gjaldeyrismarkaðar hér á landi en engin slík leyfi hafa enn verið veitt.“

Í svarinu segir ennfremur að með hliðsjón af þessu sé ekki tekinn saman sérstakur listi yfir aðila sem hafi heimild til að annast milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi en lista yfir útgefin starfsleyfi og upplýsingar um starfsheimildir megi nálgast á heimasíðu Seðlabankans.

Ekki á listanum

Á lista á heimasíðu Seðlabankans yfir innlend fyrirtæki sem annast starfsemi hér á landi sem heyrir undir eftirlit bankans eru nöfn ChangeGroup, Prosegur Change Iceland eða móðurfélagsins Prosegur Cash ekki að finna. Á listanum eru eftirlitsskyldir aðilar flokkaðir eftir eðli þeirrar starfsemi sem þeir reka. Á listanum er sérstakur reitur fyrir gjaldeyrisskiptastöðvar en ekkert fyrirtæki er skráð undir þeirri flokkun á listanum.

Nafn ChangeGroup er heldur ekki að finna á lista á heimasíðu Seðlabankans yfir þá erlendu aðila sem hafa leyfi til að reka fjármálastarfsemi á Íslandi og nafn móðurfyrirtækisins Prosegur kemur ekki heldur fyrir á þessum lista. Á heimasíðunni kemur fram að aðilum sem hafa hlotið staðfestu og starfsleyfi fyrir fjármálastarfsemi í öðrum ríkjum á Evrópska Efnahagssvæðinu (EES), sé heimilt að starfa hér á landi með eða án stofnunar útibús. Starfsemi þeirra geti þó ekki hafist fyrr en að Seðlabanki Íslands hefur fengið tilkynningu þar að lútandi frá eftirlitsaðila í heimaríki fyrirtækisins.

Þetta ætti ekki að eiga við um breskt fyrirtæki eins og ChangeGroup eitt og sér en öðru máli ætti að geta gengt um móðurfélagið spænska en þar sem það er ekki á umræddum lista er ljóst að það hefur ekki starfsleyfi á Íslandi til að starfrækja fjármálastarfsemi. Í skriflegu svari Seðlabankans við fyrirspurn DV um heimildir breskra fyrirtækja hér á landi til að annast milligöngu um gjaldeyrisviðskipti segir að ef aðilar utan Evrópska efnahagssvæðisins hyggist stunda starfsleyfis- eða skráningaskylda starfsemi hér á landi verði þeir að sækja um leyfi frá Seðlabanka Íslands til þess.

Líklegt verður að teljast að ChangeGroup sjálft eða móðurfélagið Prosegur hafi ekki sótt um starfsleyfi til að reka gjaldeyrisskiptastöðvarnar á Keflavíkurflugvelli heldur hafi áðurnefnt íslenskt dótturfélag, Prosegur Change Iceland, gert það.

Í skriflegu svari Seðlabankans við fyrirspurn DV um hvort umsókn um slíkt starfsleyfi hafi verið lögð fram í nafni ChangeGroup eða hins íslenska dótturfélags kemur hins vegar fram að ekki sé hægt að veita upplýsingar um hvort tiltekinn aðili hafi sótt um skráningu eða starfsleyfi hjá Seðlabankanum til að stunda gjaldeyrisviðskipti.

Tafir hafi orðið

Eins og áður segir lagði DV fram ítarlega fyrirspurn í nokkrum liðum til Isavia vegna málsins. Miðað við skriflegt svar félagsins verður ekki betur séð en að það hafi legið fyrir þegar samið var við ChangeGroup, í kjölfar útboðsins, um að annast meðal annars milligöngu um gjaldeyrisviðskipti í flugstöðinni, með rekstri gjaldeyrisskiptastöðva, að fyrirtækið hefði ekki tilskilin leyfi, til að annast slíka starfsemi hér á landi og að tafir á veitingu leyfa, auk framkvæmda, hafi orðið til þess að gjaldeyrisskiptastöðvar fyrirtækisins hafa enn ekki opnað á flugvellinum. Um útboðið sjálft segir í skriflegu svari Isavia við fyrirspurn DV:

„Aðstaða til reksturs fjármálaþjónustu á Keflavíkurflugvelli var boðin út til fimm ára. Um var að ræða rekstur gjaldeyrisþjónustu, hraðbanka og þjónustu vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts á Keflavíkurflugvelli. Niðurstaða útboðsins lá fyrir í nóvember á síðasta ári.“

„Hagstæðasta tilboðið átti alþjóðlega gjaldeyrisskiptafyrirtækið Change Group, sem rekur um 150 gjaldeyrisskiptastöðvar í 37 borgum víða um heim og er með hraðbankaþjónustu í Evrópu, Bandaríkjunum og Ástralíu. Fyrirtækið hefur áður rekið sambærilega þjónustu á Keflavíkurflugvelli en hefur ekki verið með starfsemi þar frá árinu 1999.“

Þegar kom að starfsleyfi ChangeGroup spurði DV Isavia hvort skortur á því skýrði tafir á opnun gjaldeyrisskiptastöðvanna. Spurt var einnig hvort það hafi legið fyrir í útboðsferlinu á síðasta ári að fyrirtækið hefði ekki þetta leyfi og hvort að einhver skilyrði um leyfisveitingu hefði verið sett í útboðinu, til að mynda að leyfi yrði að liggja fyrir innan ákveðinna tímamarka, eða að öll tilskilin leyfi yrðu að liggja fyrir áður en samið yrði við viðkomandi fyrirtæki.

Sömuleiðis var spurt hvort að ef þetta hefði verið raunin og að ChangeGroup hafi ekki getað staðfest að það hefði öll tilskilin leyfi hvers vegna hafi þá verið talið ásættanlegt að semja við fyrirtækið. Einnig spurði DV hvort ef skilyrði fyrir að öll tilskilin leyfi væru til staðar hefðu ekki verið sett í útboðinu hvort að þá hefði verið gert ráð fyrir að allir þátttakendur hefðu öll leyfi. Að lokum var spurt hvort að Isavia teldi það óheppilegt að svo langt rof hafi orðið á þeirri þjónustu í flugstöðinni sem gjaldeyrisskiptastöðvar veita og hvort að borist hefðu einhverjar kvartanir vegna þessa frá fyrirtækjum sem hafa rekstur í flugstöðinni, svo sem Icelandair en DV hefur fengið ábendingar um að slíkar kvartanir hafi borist, eða frá farþegum eða þeim fyrirtækjum sem lutu í lægra haldi í útboðinu.

Ekki gerð krafa um starfsleyfi til að gæta jafnræðis

Skriflegt svar Isavia við þessari fyrirspurn er eftirfarandi:

„Líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur það tekið lengri tíma en áætlað var fyrir Change Group að hefja starfsemi sína á Keflavíkurflugvelli. Ástæður þess snúa bæði að því að uppsetning aðstöðu og ferli við öflun tilskilinna leyfa hjá Seðlabanka Íslands hafa tekið lengri tíma en áætlað var. Isavia hefur upplýst samstarfsaðila í flugvallarsamfélaginu um þessar tafir og svarað fyrirspurnum þeirra eins og kostur er. Það er mikilvægt að gestum flugvallarins standi til boða gjaldeyrisskiptaþjónusta og þykir Isavia og Change Group miður að áætlanir hafi ekki gengið eftir.“

„Þjónusta vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts hófst af hendi Change Group, strax 1. febrúar og er nú áætlað að starfsemin hefjist að fullu í apríl, með hraðbönkum og mönnuðum gjaldeyrisskiptastöðvum. Unnið er að framkvæmdum, annars vegar í komusal þar sem fyrri rekstraraðili rak gjaldeyrisskiptaþjónustuna og hins vegar er verið að smíða frístandandi einingu sem staðsett verður innan öryggisleitar á nýjum stað.  Samkvæmt upplýsingum Isavia er niðurstöðu Seðlabanka Íslands að vænta innan skamms. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir að Change Group myndi  hefja fulla starfsemi í mars, fyrst með uppsetningu hraðbanka í febrúar og síðan með mönnuðum afgreiðslustöðvum í mars.“

„Í samræmi við gildandi reglur var útboðið haldið á Evrópska efnahagssvæðinu og opið öllum áhugasömum aðilum. Til að taka þátt í útboðinu þurftu aðilar að uppfylla ákveðnar kröfur og var lögð áhersla á að allt ferlið væri gagnsætt og að gætt yrði jafnræðis. Þess var krafist að aðilar uppfylltu m.a. Evrópureglur um heimild til endurgreiðslu á virðisaukaskatti og um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.“

„Þá var kallað eftir því að aðilar hefðu á síðustu fimm árum reynslu af rekstri mannaðra gjaldeyrisskiptastöðva á a.m.k. fimm alþjóðaflugvöllum samtímis, annað hvort í Evrópu eða Norður-Ameríku og/eða hefðu leyfi til að starfa sem viðskiptabanki. Væri bjóðandi ekki með leyfi til að reka gjaldeyrisskiptastöð á Íslandi, en uppfyllti kröfur að öðru leyti, skyldi hann sækja um það leyfi þegar niðurstaða útboðs lægi fyrir. Með þessu var verið að tryggja jafnræði á milli allra bjóðenda á Evrópska efnahagssvæðinu, en með því að gera kröfu um að bjóðendur hefðu leyfi á Íslandi hefði verið brotið gegn jafnræði. Change Group hefur staðfest að félagið hafi sótt um tilskilin leyfi hjá Seðlabanka Íslands um leið og biðtími frá niðurstöðu útboðs var liðinn (e. standstill period).“

Leiðin sem farin var

Eins og kom fram fyrr í fréttinni þá, samkvæmt Seðlabanka Íslands, er aðilum sem hafa hlotið staðfestu og starfsleyfi fyrir fjármálastarfsemi í öðrum ríkjum Evrópska Efnahagssvæðisinu (EES), heimilt að starfa hér á landi með eða án stofnunar útibús. Starfsemi þeirra geti þó ekki hafist fyrr en að Seðlabanki Íslands hefur fengið tilkynningu þar að lútandi frá eftirlitsaðila í heimaríki fyrirtækisins. Ekki verður því betur séð en að skilja megi þetta sem svo að hafi aðili slík leyfi í einu ríkja EES þurfi ekki að sækja sérstaklega um leyfi til að starfa á Íslandi heldur beina því til eftirlitsaðila í viðkomandi ríki að umræddur aðili hafi hug á að starfa hér á landi og að eftirlitsaðilinn tilkynni það í kjölfarið til Seðlabanka Íslands.

DV er ekki kunnugt um hvaða starfsleyfi fyrir fjármálastarfsemi ChangeGroup eða móðurfélag þess, Prosegur Cash, kunna að hafa í öðrum ríkjum EES en ekki verður betur séð en að fyrirtækið hafi ákveðið, með vitneskju og samþykki Isavia á grundvelli reglna um útboð innan EES, að fara þá leið að bíða eftir því hvort það yrði hlutskarpast í útboðinu, og sækja þá um tilskilin starfsleyfi til að annast milligöngu um gjaldeyrisviðskipti og að það hafi verið gert með því að stofna dótturfélag á Íslandi frá grunni og sækja um starfsleyfi í gegnum það en ekki hefja starfsemina á grunni starfsleyfa í öðrum ríkjum EES. Ítreka ber að DV hefur ekki upplýsingar um hvort það var yfirhöfuð mögulegt.

Afleiðingarnar eru hins vegar þær að ekki hefur verið starfrækt gjaldeyrisskiptastöð á Keflavíkurflugvelli í á þriðja mánuð.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“
Fréttir
Í gær

„Háir stýrivextir eru nefnilega bara mjög fín kjarabót fyrir þau sem eiga peninga“

„Háir stýrivextir eru nefnilega bara mjög fín kjarabót fyrir þau sem eiga peninga“
Fréttir
Í gær

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“