Dýrasta bjórglasið á veitingastað í gervallri Evrópu má finna í Reykjavík. Þetta kemur fram í nýrri greiningu þýska ferðaþjónustuvefsins OMIO.
Samkvæmt greiningunni kostar bjórglasið (pint, hálfpottur) 10,07 evrur í Reykjavík eða 1.519 krónur. Það næstdýrasta er í Osló í Noregi, 9,51 evru. Þessar tvær borgir eru í sérflokki hvað varðar dýran bjór. Í öðrum kostar glasið 8 evrur eða minna.
Á eftir Reykjavík og Osló koma Helsinki í Finnlandi, London í Bretlandi, Mónakó, Kaupmannahöfn í Danmörku, París í Frakklandi, Bern í Sviss, Stokkhólmur í Svíþjóð og Dublin í Írlandi.
Ódýrasta bjórinn má finna í Minsk, höfuðborg Hvíta Rússlands. Þar kostar glasið aðeins 1,05 evru, eða 158 krónur. Um einn tíunda af því sem glasið kostar í Reykjavík.
Næst ódýrasta bjórinn má finna í Sófíu í Búlgaríu og þar á eftir kemur Prag í Tékklandi sem er ein þekktasta bjórborg álfunnar.