Forsetaframbjóðandinn Baldur Þórhallsson og eiginmaður hans Felix Bergsson eru nú í óða önn að gera kosningaskrifstofu sína klára. Hún er að Grensásvegi 16 í Reykjavík.
„Nú er tími til að bretta upp ermar, taka til hendinni og ýta baráttunni úr vör með formlegri hætti en áður,“ segir Baldur í færslu á samfélagsmiðlum.
Framboðið mun hafa aðsetur á skrifstofunni næstu vikurnar. Lofa þeir að ávallt verði heitt á könnunni og allt fólk verði hjartanlega velkomið.
„Við Felix, tókum af skarið við tiltekt í gærdag ásamt góðu fólki, en næstu skref eru að flytja inn í miðstöðina og hefjast handa. Við stefnum svo að því að opna skrifstofuna með formlegri hætti á næstunni,“ segir Baldur.
Næstu vikur munu Baldur og Felix einnig hefjast handa við að ferðast um landið, kynna sýn þeirra á forsetaembættið og eiga samtal við þjóðina.
„Ég segi það gjarnan að fátt sé gjöfulla en að sækja sveitir þessa lands heim. Enda sækjum við fjölskyldan gjarnan innblástur og orku í sveitina, þar sem við eigum okkar annað aðsetur að æskuheimili mínu í Rangárvallasýslu,“ segir Baldur að lokum.