fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Verulega ósátt með framkomu KKÍ gagnvart körfuboltastrákum úr Grindavík

Ritstjórn DV
Föstudaginn 5. apríl 2024 15:48

Mynd: Grindavik.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og alþjóð er kunnugt hefur mikið reynt á íbúa Grindavíkur í vetur. Forystufólk í íþróttastarfi bæjarins hefur róið lífróður til að halda því gangandi við hinar afar erfiðu aðstæður þar sem börn og fullorðnir sem keppa undir merkjum Ungmennafélags Grindavíkur hafa ekki getað æft eða keppt á sínum heimavelli. Vísir hefur greint frá því að Grindvíkingar séu verulega ósáttir með framgöngu Körfuknattleiks sambands Íslands (KKÍ) gagnvart liði félagsins sem á að keppa á Íslandsmóti 11 ára drengja í körfubolta sem fram á að fara á Ísafirði um helgina. Þeir segja stanslaust hringl KKÍ með skipulag mótsins hafa gert það að verkum að gert sé upp á milli barnanna eftir getu og að ekki sé á bætandi eftir öll þau áföll sem dunið hafi á Grindvíkingum í vetur. Framkoma starfsfólks sambandsins í garð félagsins og drengjanna sé einnig óásættanleg. Yfirlýsing körfuknattleiksdeildar Grindavíkur vegna málsins er svo hljóðandi:

Köld skilaboð frá KKÍ – Skipta ekki allir iðkendur jafn miklu máli?

Um helgina fer fram 4. umferð Íslandsmóts 11 ára drengja í körfuknattleik á Ísafirði. Til stóð að Grindavík myndi senda tvö lið til keppni. Annað liðið átti að keppa fimm leiki í A riðli, en drengirnir eru ríkjandi Íslandsmeistarar í þessum aldurshóp. Hitt liðið átti að keppa fjóra leiki í C riðli.

Strákarnir okkar hlökkuðu mikið til að fara vestur enda hafa þeir ekki fengið mörg tækifæri í vetur til þess að vera saman sem lið. Til stóð að strákarnir myndu leggja af stað snemma í morgun til þess að ná fyrsta leik í kvöld.

Klukkan 15:34 í gær barst hins vegar póstur frá skrifstofu KKÍ þar sem tekin hafði verið sú ákvörðun að stytta mótið vegna slæmrar veðurspár um helgina. A liðið fengi að spila sína fimm leiki en B liðið myndi eingöngu fá tvo leiki. Skrifstofa KKÍ lokaði kl. 16:00. Við þetta gátu þjálfarar og foreldrar ekki sætt sig við. Það er með öllu ólíðandi að KKÍ mismuni iðkendum svo gróflega eftir getu þeirra.

Þrátt fyrir að skrifstofu KKÍ hafi verið lokað var reynt að ná sambandi við starfsfólk sambandsins sem hefur með þessi mál að gera. Var ábendingum UMFG svarað með óviðeigandi hætti. Eftir að hafa ítrekað reynt að ná sambandi við starfsfólk KKÍ í gær án árangurs var tekin sú ákvörðun að tilkynna KKÍ að UMFG myndi ekki senda lið til leiks að óbreyttu. Í póstinum kom fram að ástæðan væri sú að ósanngjarnt væri að mismuna börnum eftir getu og að farið væri fram á jafnrétti fyrir iðkendur. Var þessi ákvörðun tekin í samráði við önnur félög.

Klukkan 7:30 í morgun fá einhver félög þær upplýsingar að til standi að fjölga leikjum í B, C og D riðli líkt og Grindavík vildi. Ef Grindavík hefði fengið þessar upplýsingar á sama tíma og þessi félög, væru okkar drengir á leiðinni á mótið eins og undirbúið hafði verið.

Viðbrögð berast hins vegar ekki frá KKÍ fyrr en kl. 9:07 í morgun. Þar segir að þar sem mörg félög hafa dregið sig úr keppni (fyrst og fremst vegna þess að til stóð að mismuna börnum eftir getu) þá fá þau lið sem ekki gerðu athugasemdir við að börnunum væri mismunað fleiri leiki í staðin! Þar var jafnframt útskýrt að KKÍ leggur áherslu á þá leiki sem skipta máli til Íslandsmeistaratitils. Rétt er að hafa í huga að KKÍ er með öllu óheimilt að þvinga fram nýtt mótafyrirkomulag sem mismunar iðkendum.

Börn úr Grindavík hafa gengið í gegnum ýmislegt í vetur og hafa íþróttir skipt þau miklu máli við að komast í gegnum áföllin sem á þeim hafa dunið. Þessir börn eru í viðkvæmri stöðu og hættan á brottfalli úr íþróttum mikil. Samskiptin við KKÍ eru því blaut tuska í andlit drengjanna, foreldra þeirra og þjálfara. Samskiptin eru sambandinu ekki til sóma.

Ljóst er að starfsfólk KKÍ hefur með starfsháttum sínum undanfarna daga margbrotið siðareglur sambandsins um hlutleysi, vandvirkni, heiðarleika og gagnsæi við ákvarðanatöku. Þá er minnt á að starfsfólk KKÍ á að stuðla að jöfnum tækifærum allra til þátttöku í körfuknattleik, ekki eingöngu þeirra sem eiga möguleika á að verða Íslandsmeistarar. Loks á starfsfólk KKÍ að leysa ágreining á sanngjarnan hátt en ekki með þeirri framkomu sem þau hafa sýnt á undanförnum sólarhring.

Yfirþjálfarar barna- og unglingaráðs körfuknattleiksdeildar UMFG óska eftir því að stjórn KKÍ taki framkomu og starfshætti starfsfólks sambandsins til skoðunar með siðareglur sambandsins í huga.

Jafnframt fara yfirþjálfarar fram á að öll þau lið sem skráð voru til leiks í byrjun vikunnar fái tækifæri til þess að leika þá leiki sem skráðir voru á þeim tímapunkti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt