Eins og Katrín Jakobsdóttir boðaði fyrr í dag að hún myndi gera hefur hún nú formlega sagt af sér sem formaður Vinstrihreyfingarinnar-Græns framboðs.
Í fréttatilkynningu frá flokknum segir að á stjórnarfundi flokksins sem lauk rétt í þessu hafi Katrín sagt af sér formennsku.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, varaformaður, muni nú gegna embætti formanns í hennar stað þar til flokkurinn kýs sér nýja forystu. Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir ritari flokksins verði staðgengill Guðmundar Inga sem varaformaður.
Í tilkynningunni segir enn fremur að stjórn Vinstrihreyfingarinnar-Græns framboðs vilji:
„Þakka Katrínu Jakobsdóttur fyrir hennar óeigingjarna starf í þágu hreyfingarinnar, í þágu þeirra hugsjóna sem við stöndum fyrir og allt það sem hún hefur lagt af mörkum í baráttunni fyrir þeim hugsjónum í íslensku samfélagi“
Stjórnin þakki henni fyrir farsælt samstarf síðastliðin ár og óski henni góðs gengis í forsetaframboðinu.
Þá vilji stjórnin fyrir hönd hreyfingarinnar einnig þakka Katrínu fyrir hennar góða starf sem formaður hreyfingarinnar síðastliðin 11 ár, starf hennar sem varaformaður frá 2003 – 2013 og sem þingmaður og ráðherra hreyfingarinnar, segir að lokum í tilkynningunni.