fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Maðurinn sem missti hús sitt í Reykjanesbæ á umdeildan hátt dæmdur fyrir að ráðast á lögreglumenn

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 30. apríl 2024 10:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jakub Polkowski sem vakti mikla athygli á síðasta ári eftir að hafa misst hús sitt í Reykjanesbæ á vægast sagt umdeildu nauðungaruppboði var 19. apríl síðastliðinn dæmur í Héraðsdómi Reykkjaness fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa ráðist á lögreglumenn við skyldustörf í október 2022.

Sumarið 2023 var einbýlishús í Reykjanesbæ sem Jakub átti selt á nauðungaruppboði sem Sýslumaðurinn á Suðurnesjum stóð fyrir. Jakub keypti húsið fyrir bætur sem hann hlaut eftir læknamistök sem hann varð fyrir á unglingsárum sem urðu til þess að hann hlaut heilaskaða og þar með varanlega örorku. Þótt Jakub ætti húsið skuldlaust borgaði hann ekki opinber gjöld af því eða tryggingar. Hann bar við vanþekkingu á að honum sem húseiganda bæri skylda til þess. Húsið var metið á tæplega 60 milljónir króna en hæstbjóðandi á nauðungaruppboðinu greiddi þrjár milljónir fyrir það. Málið vakti mikla reiði sérstaklega í ljósi þess að uppboðinu hafi ekki verið frestað þegar ljóst var hversu lágt hæsta boð var og einnig í ljósi þess að ekki hefði verið sérstakt tillit tekið til fötlunar Jakub.

Sjá einnig: Mikil reiði eftir að tugmilljóna einbýlishús í Reykjanesbæ var selt undan öryrkja á þrjár milljónir – „Hvaða sál er í þessu fólki?

Reykjanesbær reyndi að semja við kaupandann um að hann seldi bænum húsið en hann varð ekki við því og svo fór að Jakub og fjölskylda hans fluttu í félagslegt húsnæði á vegum bæjarins. Kaupandi hússins hefur síðan sótt um að fá að breyta því í gistiheimili. Reykjanesbær hafnaði umsókn hans en Sýslumaðurinn á Suðurnesjum hefur úrslitavald um hvort leyfið verður veitt en DV hefur á þessari stundu ekki upplýsingar um hvort embættið hafi hafnað umsókninni.

Ljóst er því að málið sem Jakub var dæmdur fyrir 19. apríl síðastliðinn kom upp árinu áður en hús hans var selt á nauðungaruppboðinu umdeilda. Það er ekki tekið fram hvar atvikið átti sér stað að öðru leyti en því að það hafi verið í og við bílskúr. Líklegt má telja að um hafi verið að ræða bílskúrinn við húsið.

Jakub var ákærður fyrir að ráðast á alls fimm lögreglumenn sem voru við skyldustörf. Í ákæru var hann sagður hafa sparkað í bringu eins þeirra og í hægri síðu annars auk þess að kasta möl í þá báða og hóta þeim lífláti. Í öðrum lið ákærunnar var Jakub sagður hafa ógnað þremur lögreglumannanna með borðfæti og þannig hótað þeim líkamsmeiðingum. Loks var hann sakaður um að hafa bitið einn lögreglumannanna í hægra lærið og mun sá hafa fundið til vægra eymsla eftir bitið.

Játaði allt – Þriðji dómurinn

Í dómnum segir að Jakub hafi játað brot sín skýlaust og því var hann sakfelldur. Jafnframt er í dómnum rifjaður upp brotaferill hans. Jakub hlaut skilorðsbundinn dóm í ágúst 2022 fyrir fíkniefnalagabrot, vopnalagabrot og peningaþvætti. Í febrúar 2024 var hann aftur dæmdur fyrir fíkniefnalagabrot og hlaut á ný skilorðsbundinn dóm.

Þar sem brotin sem Jakub var dæmdur fyrir í þetta sinn áttu sér stað áður en dómurinn í febrúar var kveðinn upp var það metið honum til refsiauka. Það er einnig metið honum til refsiauka að brotin hafi beinst gegn lögreglumönnum við skyldustörf og er það í dómnum sagt alvarlegt. Í ljósi þess að lögreglumennirnir hlutu ekki áverka og Jakub játaði brot sín skýlaust þótti hæfilegt að dæma hann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Hann var einnig dæmdur til að greiða verjanda sínum 556.140 krónur í þóknun og 43.055 krónur í aksturskostnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Aftur sektaðir af KSÍ
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Réðst á lögreglumann hjá bráðamóttökunni

Réðst á lögreglumann hjá bráðamóttökunni