„Hvort sem um er að ræða óðaverðbólgu eða brjálæðisvexti, þá hunsa stjórnvöld ávallt beiðni eldra fólks um endurskoðun á skerðingunum. Ríkisstjórnin kippir sér lítið upp við það að almennt frítekjumark hjá öldruðum sé mjög lágt í sögulegu samhengi. Fólk er lögþvingað til að greiða í lífeyrissjóði hvort sem því líkar betur eða verr. Því er talin trú um að þessir peningar séu sparifé þess, sem muni nýtast því til velsældar á síðasta æviskeiðinu. En ríkisstjórnin er söm við sig nú sem endranær og ræðst á sparnaðinn með skerðingar-krumlunum og hrifsar þannig bróðurpartinn til sín af því sem fólki var talin trú um að væri sparnaður sem myndi nýtast til aukinna lífsgæða á efri árum.“
Inga bendir á að frumvarp Flokks fólksins um hækkun skerðingarmarkanna sé nú til umfjöllunar í velferðarnefnd.
Verði frumvarpið að lögum mun frítekjumark lífeyristekna hækka úr 25 þúsund krónum í 100 þúsund krónur á mánuði.
„Ef frumvarpið verður samþykkt stígum við mikilvægt sanngirnisskref sem gefur lífeyrisþegum 33.750 kr. tekjuauka á mánuði eða 405.000 kr. á ársgrundvelli. Það kemur hins vegar ekki á óvart að ríkisstjórnin láti málið sem vind um eyru þjóta, enda nákvæmlega sama um öryggi og velsæld eldra fólks,“ segir Inga sem lætur ríkisstjórnina heyra það.
„Flokkur fólksins hefur allt tíð fordæmt þá aðför og eignaupptöku sem ríkisstjórnin beitir gegn eldra fólki. Loks þegar kemur að því að uppskera gæðin sem okkur hefur verið talin trú um að fælust í því að greiða í lífeyrissjóð er okkur refsað grimmilega með skerðingum á skerðingar ofan. Lífeyrissjóðssparnaðurinn er launin okkar, eign okkar, réttindi okkar sem aldrei á að skerða. Eldra fólk hefur unnið allt sitt líf í þeirri von að eignast áhyggjulaust ævikvöld. Það er nöturlegt að sjá stjórnvöld ráðast á það með blóðugum skerðingum.“
Inga segir það skref í þá átt að viðurkenna eignarrétt okkar á eigin lífeyrissparnaði ef frítekjumarkið vegna lífeyristekna hækkar í 100 þúsund krónur á mánuði.
„Efri árin eiga að vera gæðaár en ekki tími kvíða og óöryggis. Flokkur fólksins viðurkennir skilyrðislaust eignarrétt okkar allra á lífeyrissparnaði. Flokkur fólksins hefur einn flokka á Alþingi barist með kjafti og klóm gegn þessari forkastanlegu eignaupptöku. Við gefumst aldrei upp í baráttunni fyrir réttlætinu. Því sterkara umboð sem við fáum, þeim mun fyrr munu efri árin verða gæðaár fyrir alla en ekki einungis suma.“