Væntanlegt atkvæði Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi hæstaréttardómara, í forsetakosningunum, hefur verið á fleygiferð undanfarin sólarhring, á milli tveggja frambjóðenda, Höllu Hrundar Logadóttur og Arnars Þórs Jónssonar. Stuðningurinn við þá fyrrnefndu stóð hins vegar yfir í tæpar 300 mínútur.
Við greindum frá því fyrr í dag að Jón Steinar hefði lýst yfir stuðningi við Höllu Hrund í dag, í færslu á Facebook-síðu sinni, þar sem hann gerði einnig opinbert að áður hefði hann stutt Arnar Þór Jónsson.
Í færslu sinni fyrr í dag lýsti Jón Steinar yfir ánægju með glæsilegan árangur Höllu Hrundar í skoðanakönnunum en hún hefur undanfarið mælst efst frambjóðenda. Jón Steinar ritaði:
„Þar sýnist mér vera verðugur frambjóðandi, sem auk annars muni ekki hyggja á andstöðu við orkuöflun úr náttúruvænum auðlindum þjóðarinnar, ef Alþingi tekur ákvarðanir um slíkt. Ég hef fyrir mitt leyti fram til þessa stutt framboð Arnars Þórs Jónssonar en hann virðist ekki njóta nægilegs fylgis til að ná kjöri. Ég segi því bara: Kjósum Höllu Hrund.“
Jón Steinar birtir síðan yfirlýsingu um fjögurleytið í dag þar sem hann dregur stuðning sinn við Höllu Hrund til baka og lýsir aftur yfir stuðningi við Arnar Þór, sem hann þó áleit fyrr í dag að ætti ekki möguleika á embættinu:
„Mér varð á í messunni þegar ég setti inn færslu um stuðning við Höllu Hrund Logadóttur, að vísu að því tilskildu að hún myndi ekki beita sér gegn virkjunum ef hún kæmist í stólinn. Nú hefur mér verið sýnt efni sem sýnir að konan er einmitt á móti orkuvinnslu þó að hún sé náttúruvæn. Það þýðir að stuðningur minn við hana var byggður á misskilningi og er því dreginn til baka. Sá eini sem unnt er að styðja er því eftir sem áður Arnar Þór Jónsson.“