Fréttaskýringaþátturinn Kveikur sem vanalega hefur verið meðal virtustu fréttaskýringaþátta landsins sætir nú tortryggni almennings eftir að umfjöllun Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttur um viðskipti borgarinnar við olíufélögin var stöðvuð. RÚV hefur réttlætt málið með vísan til þess að þátturinn hafi ekki verið tilbúinn til birtingar. María Sigrún verður ekki hluti af ritstjórn Kveiks þegar þátturinn snýr aftur í haust en hún mun hafa fengið þau skilaboð frá ritstjóra Kveiks að hæfileikar hennar liggi ekki á sviði rannsóknarblaðamennsku. Björn Ingi á Viljanum segir málið hið neyðarlegasta fyrir RÚV, sérstaklega í ljósi tengsla ríkismiðilsins við borgarstjórn. Útvarpsstjóri hafi fyrir nokkru verið einn æðsti embættismaður og helsti samstarfsmaður þáverandi borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar og núverandi borgarstjóri, Einar Þorsteinsson, séu fyrrum starfsmaður RÚV.
Það kom sem þruma úr heiðskíru lofti fyrir helgi þegar greint var frá því að María Sigrún væri hætt í Kveik og að ritstjóri fréttaskýringaþáttarins hafi gert lítið úr hæfileikum hennar í rannsóknarblaðamennsku. Mun ritstjórinn, Ingólfur Bjarni Sigfússon, hafa sagt Maríu henta betur sem fréttaþulur, og það þrátt fyrir gífurlega reynslu í rannsóknum, góða menntun og flekklausan feril. Á sama tíma var ljóst að þáttur Kveiks sem fór í loftið á þriðjudag var ekki sá þáttur sem stóð til að birta.
Mörgum þótti ljóst að hér væri maðkur í mysu og hávært kall barst frá almenningi um að greint yrði frá fyrirhuguðum efnistökum Maríu, svo að hægt væri að sannreyna að hér hafi ekki verið um spillingu að ræða. Til að svara þessu kalli vísaði DV til áreiðanlegra heimilda og opinberaði að til stóð að fjalla um meintan gjafagjörning Reykjavíkurborgar til olíufélaganna. Um er að ræða mál sem má rekja til ársins 2021 þegar þáverandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, skrifaði undir samning við Festi og Krónuna, Olíuverslun Íslands og Haga og Skeljung um nýtt hlutverk bensínstöðvalóða í þeirra eigu. Um var að ræða 12 lóðir á úrvalsstöðum í borginni. Verkefnið var kynnt sem fyrsti fasi í fækkun bensínstöðva. Göfugt markmið en þegar nánar var að gáð töldu margir ljóst að hér væri borgin að gera aðeins of vel við viðsemjendur sína.
Björn Ingi Hrafnsson á Viljanum telur að málið muni reynast RÚV dýrkeypt enda óheppilegt með eindæmum að hér séu blikur á lofti um að RÚV sé að hlífa borginni frá neyðarlegu máli þar sem útvarpsstjóri var áður háttsettur embættismaður í borginni.
„Málið er hið vandræðalegasta fyrir Ríkisútvarpið, enda er útvarpsstjórinn Stefán Eiríksson fyrrverandi borgarritari og sviðsstjóri velferðarsviðs og sem slíkur einn nánasti samstarfsmaður borgarstjórans. Undirmenn útvarpsstjórans á fréttastofunni virðast hafa fyrirskipað að stöðva birtingu fréttaskýringar um umrædda samninga og bera fyrir sig tæknilegum atriðum sem fréttamaðurinn sjálfur gefur ekkert fyrir.“
Hvorki María né RÚV hafa formlega staðfest að til hafi staðið að fjalla um bensínstöðvarmálið. Kalla mætti það þó óformlega staðfestingu að á laugardag deildi María bloggfærslu Ögmundar Jónassonar þar sem hann fjallaði um frétt DV um meint efnistök. Sjálf sagði María í færslu að viðbrögð RÚV hafi komið flatt upp á hana. Hún hafi skilað uppkasti að handriti þáttar tæpum hálfum mánuði fyrir fyrirhugaða birtingu. Átti þá að klippa efni og leggja til frekari vinnslu. Þegar María óskaði svara um stöðuna þremur dögum síðar komst hún að því að Ingólfur Bjarni hafi tekið fyrstu „klippu“ þáttarins og lagt fyrir fréttastjóra og ritstjóra fréttatengdra þátta. Þetta gerði hann án vitundar eða samþykkis Maríu, en hún lætur að því liggja að slíkt sé ekki í samræmi við verklag. Var henni þá sagt að ómögulegt væri að hún kláraði umfjöllunina í tíma og ef hún gæti ekki séð það ætti hún ekkert erindi í rannsóknarblaðamennsku. María tók fram að þarna hafi fimm af níu starfsmönnum Kveiks verið að vinna að verkefnum fyrir næsta haust. Ef Ingólfur Bjarni hefði virkilega talið að um tímaþröng væri að ræða hefði verið lítið mál að fá liðstyrk fyrir hana. Það var ekki gert.
Segir Björn Ingi að lóðirnar 12 hafi Dagur B. Eggertsson ákveðið að afhenda olíufélögunum endurgjaldslaust. Hér sé um 6,5 hektara af landi að ræða og með þessum gjörningi hafi gamlar bensínstöðvarlóðir orðið að verðmætum þéttingarreitum. Nú standi til að byggja þar mikið magn íbúða sem nágrannar lóðanna séu ekkert spenntir fyrir.
Vísar Björn Ingi til orða Vigdísar Hauksdóttur, sem var borgarfulltrúi Miðflokksins árið 2021. Hún hafi kallað samninganna hreinan og beinan gjafagjörning. Bara byggingarréttur á bensínstöðvarlóðinni við Ægisíðu 102 væri tveggja milljarða virði. Heildarvirði byggingarréttar á lóðunum 12 slagi því líklega í 20 milljarða. Vigdís gaf lítið fyrir réttlætingar meirihlutans um að hér væri horft til markmiða í loftlagsstefnu um fækkun bensínstöðva og um orkuskipti í bílasamgöngum. Borgarstjóri geti ekki umbreytt olíufélögum í fjárfestinga-, eða fasteignafélög, þar sem það sé ekki hans hlutverk.
Björn Ingi vísar til þess að RÚV hafi ekki gefið sannfærandi skýringar á Kveiks-málinu. Hvers vegna var þátturinn stöðvaður og hvers vegna fengu yfirmenn að skoða uppkastið að þættinum án vitundar og vilja fréttamanns? Telur Björn Ingi að horfa þurfi á málið í ljósi tengsla borgarstjórnar við RÚV.
„En í ljósi tengsla útvarpsstjórans við borgarkerfið og þess að nýr borgarstjóri kom beint af fréttastofunni lítur málið alls ekki vel út.
Hér virðist fiskur falinn undir steini og gæti áður en langt um liður orðið að sannkölluðum stórlaxi.“
Loks beinir Björn Ingi spjótum sínum að Blaðamannafélagi Íslands, sem hafi í engu látið sig málið varða.
„Ef í landinu væri starfandi alvöru blaðamannafélag, myndi líklegast heyrast hressilega frá því af minna tilefni.“